Mynd: Sigurður H. Magnússon
19. desember 2022 | Trausti Baldursson
Skógrækt án fyrirhyggju
Þessi grein birtist upprunalega á frettabladid.is 19. desember 2022
Í Fréttablaðinu 8. desember síðastliðinn er viðtal við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra um að skógrækt muni sjöfaldast á næstu árum. Aðalástæða þess er að fyrirtæki og einkaaðilar þurfi að kolefnisjafna sig og sitt. Ennfremur segir að stjórnvöld muni stórauka fjármagn til skógræktar. Þröstur bendir á að fyrirtæki verði krafin um kolefnisjöfnun og nefnir sérstaklega sjávarútvegsfyrirtæki enda þurfi allur fiskur á Evrópumarkaði að vera bæði sjálfbærnisvottaður og kolefnisjafnaður. Einnig kemur fram að nú muni einkaaðilar hér á landi (reyndar byrjaðir) huga að skógrækt til að selja kolefniseiningar í grænt bókhald fyrirtækja um allan heim og í orðum hans liggur að það megi gera með skógrækt hér.
Íslenskt stjórnvöld þurfa að stoppa skógrækt í andstöðu við lög um náttúruvernd tafarlaust. Í fyrsta lagi munu skógar sem plantað er til nú ekki fara að binda kolefni fyrr en eftir rúman áratug og bindingin er þar að auki mjög hæg fyrstu árin. Tafarlaus kolefnisjöfnun með nýskógrækt er því ekki möguleg. Það kolefni sem þú eða fyrirtæki þitt losar í dag og næstu árin, t.d. akstur, flug eða annar rekstur, er löngu komið út í andrúmsloftið áður en það fer að bindast í skóginum. Sem sagt það sem þú losar í dag og telur þig vera að kolefnisjafna og/eða kolefnisbinda með nýskógrækt er einfaldlega rangt og getur auk þess virkað sem friðþæging og letjandi á fyrirtæki og einkaaðila til að minnka losun á kolefni. Óvíst er að fiskkaupendur í Evrópu samþykki skógrækt með framandi ágengum tegundum sem sjálfbæra né heldur sem kolefnisjöfnun enda er skógrækt ekki viðurkennd með sama hætti og bein kolefnisbinding eða minnkun á losun.
Í öðru lagi fer langstærsti hluti skógræktar í dag, líklega yfir 90%, fram á þegar grónu landi sem er að binda kolefni. Land plægt upp til skógræktar, sjá mynd, losar kolefni fyrstu árin og þá losun þarf að vinna upp. Ekki er til nein viðurkennd samræmd vottun, á vegum stjórnvalda, á árangri kolefnisjöfnunar með skógrækt. Þar er allt í skötulíki. Þetta á einnig við um kolefnisjöfnunarmarkaðinn. Enginn einn aðili hefur yfirsýn yfir hver er að selja hvað, hvað mikið hefur verið selt, hverjir keyptu og hver er árangur hvers og eins einkaaðila eða fyrirtækis. Þetta virðist allt saman vera meira og minna grænþvottur.
Í þriðja lagi og að margra mati það alvarlegasta er að við skógrækt hér á landi, líklega langt yfir 90%, er notast við framandi tegundir sem sumar hafa sýnt sig að vera ágengar í öðrum löndum. Sem dæmi má nefna stafafuru, sitkagreni og alaskaösp. Þessar tegundir eru þegar farnar að sá sér langt út fyrir samþykkt skógræktarsvæði hér. Hver verður staðan eftir nokkra áratugi? Víst er að skógræktarmenn hafa ekki tekið nokkra ábyrgð á að uppræta slíka sjálfssáningu sem getur haft bæði skaðleg áhrif á lífríki sem og lönd og nýtingu annarra. Auðvitað á slík ábyrgð að vera skylda í skógræktarsamningum enda skógrækt borguð af almannafé að mestum hluta.
Víðfem og óheft skógrækt mun umbylta vistkerfum Íslands og ef fram fer sem horfir breyta gróðurfari og m.a. víðáttumiklum búsvæðum ýmissa fuglategunda og að líkindum valda fækkun í stofnum þeirra. Það er því verið að veikja líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Að nýjar tegundir komi til landsins með skógrækt og auki þar með fjölbreytni hér er afsökun sem Skógræktin hefur ítrekað notað. Sú afsökun dugir skammt þegar um er að ræða vernd líffræðilegar fjölbreytni hvort sem metið er á landsvísu eða heimsvísu. Þær tegundir sem hér hafa numið land í kjölfar skógræktar eru yfirleitt ekki í neinni hættu í sínu upprunalandi. Ein grunnforsendan í vernd líffræðilegrar fjölbreytni á alþjóðavísu er að vernda sérstöðu hvers svæðis og náttúrulega þróun þeirra eins og hægt er án afskipta mannsins. Mýmörg dæmi eru til um gríðarlegan kostnað ríkja við að endurheimta náttúruleg vistkerfi. Hér má finna eitt ,,lítið“ dæmi frá Noregi ,,Trea som tok over øya.“ Rétt er að benda fyrirtækjum á að styðja frekar við endurheimt votlendis og endurheimt náttúrulegra vistkerfa sem hluta af kolefnisjöfnun eða kolefnisbindingu.
Loftslagsráðherra sagði á umhverfisdegi atvinnulífsins í byrjun október s.l. að til að ná skuldbindingum Íslands fyrir árið 2030 dugi ekki að planta trjám. Orðrétt sagði hann: „……það [skógrækt] hjálpar okkur ekkert þegar kemur að beinni ábyrgð Íslands.“ Ísland á ekki að vera villta vestur hvorki ,,grænnar” orku s.s. vindorkugarða eða skógræktar til að selja kolefnisjöfnun sem engin heil brú er í. Við ákvarðanatöku um aðgerðir til að minnka losun kolefnis þarf alltaf að horfa heildstætt á hvert mál. Losun kolefnis er ekki eingöngu efnafræðiformúla heldur er andrúmsloftið hluti af vistkerfi jarðar og því þarf að fara með gætni hver sem aðgerðin er.
Það er ekki úr vegi að heita á íslensk jafnt sem erlend fyrirtæki og einkaðila að snúa sér að því að draga fyrst og fremst úr losun kolefnis. Stór og vel þekkt fyrirtæki eins og Icelandair eiga að skilja ábyrgð sína og styrkja frekar endurheimt náttúrulegra vistkerfa og draga úr losun kolefnis frekar en að bjóða farþegum sínum að styrkja eyðileggingu náttúrulegra vistkerfa á Íslandi með framandi tegundum í gegnum Kolvið.
Íslensk stjórnvöld eiga að fylgja eftir þeim skuldbindingum sem koma fram í lögum og alþjóðasamningum um náttúru- og umhverfisvernd, m.a. þegar loftslagsmál eru annars vegar. Og ekki er vanþörf á að stjórnvöld hafi skýra stefnu og framkvæmdaráætlun um heildrænar loftslagsaðgerðir, en umfram allt sjái til þess að aðgerðir í loftslagsmálum séu framkvæmdar og þá í sátt við náttúru landsins.
Skógrækt sem ekki tekur tillit til náttúru Íslands er öllum og öllu til óþurftar.
Höfundur er líffræðingur og hefur starfað við náttúruvernd í áratugi.