Lagarammi náttúruverndar

Mynd: Borgþór Magnússon

Enginn er eyland. Ísland er virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi um náttúruvernd, vernd líffræðilegrar fjölbreytni, landslags og náttúruauðlinda. Skyldur þjóðarinnar á þessu sviði eru margvíslegar, sem endurspeglast í íslenskri löggjöf. Starfsemi VÍN tekur mið af þessum alþjóðlegu skuldbindingum og íslenskri löggjöf um náttúruverndarmál.

Hér á eftir er samantekt á þeim alþjóðlegu samningum og samþykktum sem varða starfsemi VÍN mestu núna, ásamt vísun til þeirra laga og reglugerða sem við horfum helst til. Listinn er ekki tæmandi, heldur miðast hverju sinni við þau meginverkefni sem VÍN er að fást við. Listinn mun taka breytingum með nýju vali á kjarnaverkefnum.

Á listanum sem hér fylgir eru líka tengiliðir í alþjóðasamtök sem hafa mikil bein eða óbein áhrif á stefnu Íslands í náttúruverndarmálum og framkvæmd hennar. Sérstaklega er vísað til alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) og alþjóðlegu fuglaverndarsamtakanna (Birdlife International). Þá þykir einnig rétt á þessu stigi máls að minna á ritið “Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar íslenskri náttúru”, sem var undanfari gildandi náttúruverndarlaga og skýrir margt sem í þeim lögum felst.

Alþjóðasamningar og samþykktir

Samningur um líffræðilega fjölbreytni (CBD)

Ísland undirritaði alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity) í Rio de Janeiro árið 1992 og var hann staðfestur af Alþingi árið 1994. Nánast öll ríki veraldar eru nú aðilar að samningnum. Samningurinn hefur það þríþætta markmið að vernda líffræðilega fjölbreytni, tryggja að nýting lífrænna auðlinda sé sjálfbær og að arðinum af nýtingu þeirra sé skipt með réttlátum hætti.

Árið 2008 kom út Stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um
líffræðilega fjölbreytni
.

Bernarsamningurinn um verndun vistgerða, villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu

Bernarsamningurinn um vernd vistgerða (natural habitats/habitat types), plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu var gerður árið 1979 og staðfestur hér á landi árið 1993. Hann er vistaður hjá Evrópuráðinu og nær til 51 ríkis sem flest eru í Evrópu. Samningurinn hefur haft mikil áhrif á náttúruverndarlöggjöf aðildarríkjanna og framkvæmd hennar, meðal annars hvernig staðið er að því að skrá, flokka, meta og vakta lifandi náttúru; byggja upp net náttúruverndarsvæða um alla álfuna (Emerald Network) og verjast skaðlegum áhrifum ágengra framandi tegunda. Samningurinn er svæðisbundinn framkvæmdaraðili SÞ samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD).

Jón Gunnar Ottósson (fyrir miðju), forseti Bernarsamningsins og forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, er hér ásamt Ahmed Djoghlaf (t.h.), framkvæmdastjóra (Executive Secretary) Samningsins um líffræðilega fjölbreytni, og Eladio Fernandez-Galiano, deildarstjóra deildar um líffræðilega fjölbreytni hjá Evrópuráðinu, við undirritun samkomulags um aukna samvinnu, 23. maí 2008.

Samningur um vernd votlendisfarfugla og búsvæði þeirra (AEWA)

Ísland hefur verið aðili að African-Eurasian Waterbird Agreement (AEWA) síðan 2013. Samningurinn fjallar um aðgerðir til verndar votlendisfarfuglum og búsvæðum þeirra í Afríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum, Mið-Asíu, Grænlandi og kanadísku eyjaklösunum. Hann nær til flestra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi. Náttúrufræðistofnun Íslands annast framkvæmd samningsins í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Aðildarríkjafundir samningsins hafa haft áhyggjur af neikvæðum áhrifum skógræktar með framandi tegundum og sent íslenskum stjórnvöldum ítrekuð erindi vegna þess.

Ramsarsamningurinn um votlendi

Ramsarsamningurinn (The Convention on Wetlands) er alþjóðlegur samningur um vernd votlendissvæða og dýrategunda sem eru háðar votlendi og var hann undirritaður árið 1971 af 18 þjóðum. Ísland bættist við árið 1978 en nú eru um 170 þjóðir aðilar að samningnum. Votlendi hefur mjög víða skírskotun í samningnum og nær til ferskvatns og til sjávar að 6 metra dýpi. Aðildarríki samningsins hafa ríkar skyldur varðandi vernd votlendis og gerð áætlana um framkvæmd þess.

Á Íslandi eru Ramsarsvæði sex talsins. Þau eru Grunnafjörður, Andakíll, Mývatn-Laxá, Guðlaugstungur, Þjórsárver og Snæfell-Eyjabakkasvæðið.

Ágengar tegundir í Norður Evrópu (NOBANIS)

NOBANIS (European Network on Invasive Alien Species) er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu sem miðar að því að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra framandi tegunda. Megintilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um ágengar framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar á vefnum.

Aðildarríkin eru 20 og má sjá á vef samningsins hvaða lög og reglugerðir gilda í hverju landi um ágengar framandi tegundir. Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. Við upplýsingaöflun hefur verið leitað til fjölmargra sérfræðinga innan stofnunarinnar og utan.

Lífríkisvernd á norðurslóðum (CAFF)

Samþykktin um lífríkisvernd á norðurslóðum, Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF), fellur undir starfssvið Norðurskautsráðsins. Að henni standa norðurskautsríkin átta, Bandaríkin, Danmörk (þ.m.t. Færeyjar og Grænland), Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Íslenskir sérfræðingar taka virkan þátt í starfi CAFF og þar á meðal í sérfræðinganefndum um sjófugla, gróður, friðlandanet og lífríkisvöktun á norðurslóðum. Framandi ágengar tegundir eru þar meðal viðfangsefna.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðleg samvinna um loftslagsmál grundvallast á Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC). Samstarfið felst m.a. í því að samhæfa aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og undirbúa óhjákvæmilega aðlögun að breytingum.

Samningurinn var samþykktur árið 1992 og tók gildi tveimur árum síðar. Markmið hans er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum“. Aðilar að samningnum eru 197 ríki, þeirra á meðal Ísland. Einnig er stefnt að því að markmiðum annarra samninga, s.s. samningsins um líffræðilega fjölbreytni, verði ekki stefnt í hættu.  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur umsjón með framkvæmd hans, sem og þeim tveimur bókunum sem gerðar hafa verið við samninginn, þ.e. Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum.

ProGeo og UNESCO Global Geoparks Network

Ísland er meðlimur ProGeo (ProGeo The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) sem eru alþjóðleg samtök um verndun jarðminja. Meginmarkmið samtakanna er að efla jarðminjavernd og upplýsa stjórnvöld og almenning um nauðsyn þess að vernda jarðminjar. UNESCO Global Geoparks Network eru alþjóðleg samtök jarðvanga sem hafa meðal annars það hlutverk að bæta viðhorf og þekkingu fólks á jarðminjum.

Landslagssamningur Evrópu

Landslagssamningurinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins árið 2000 og tók gildi fjórum árum síðar gagnvart þeim ríkjum sem þá höfðu fullgilt hann. Landslagssamningur Evrópu tók gildi gagnvart Íslandi 1. apríl 2020. Í kjölfar fullgildingar Íslands eru aðildarríki samningsins orðin 40 talsins og eru öll Norðurlöndin þar á meðal.

Landslagssamningur Evrópu felur í sér áherslu á landslag sem sameiginlega auðlind Evrópuríkja. Ákvæði hans leggja skyldur á aðildarríkin um að viðurkenna mikilvægi landslags í löggjöf sinni og setja sér áætlanir um verndun, stjórnun og skipulag landslags. Samningurinn nær til alls landslags, bæði náttúrulegs og manngerðs. Hann á við jafnt í byggð og óbyggðum, í borgum og bæjum, til sveita og við sjávarsíðuna.

Landslagssamningurinn fjallar ekki eingöngu um verðmætt og fágætt landslag heldur einnig um landslag sem telst hversdagslegt. Byggt er á því að hvers konar landslag geti verið mikilvægur þáttur í lífsgæðum og sjálfsmynd fólks og er áhersla lögð á að auka vitund fólks um gildi landslags og að tryggja þátttöku almennings í ákvarðanatöku um vernd og nýtingu landslags. Með aðild Íslands að samningnum er áhersla hérlendis á landslag við skipulagsgerð og mannvirkjahönnun enn frekar undirstrikuð en þegar er gert í löggjöf og stefnu stjórnvalda. Aðild að samningnum gefur Íslendingum aukin tækifæri til samstarfs við aðildarríki um málefni tengd landslagi.  Einnig gefst Íslendingum tækifæri til að  draga lærdóm af öðrum aðildarríkjum hans.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN)

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin voru stofnuð árið 1948 af Svissneska náttúruverndarráðinu, frönsku ríkisstjórninni og UNESCO. Meginmarkmið IUCN er að hafa áhrif á þjóðfélög heimsins, bæði hvetja þau og styrkja til að vernda óraskaða og fjölbreytta náttúru og tryggja að nýting allra náttúruauðlinda sé sanngjörn og vistfræðilega sjálfbær.

Þjóðríki, ríkisstofnanir, náttúruverndarsamtök, stór og smá, vísindastofnanir og viðskiptalífið eiga aðild að samtökunum. Starfsemin tekur til rúmlega 160 ríkja og meðlimir eru um 1500, þar á meðal opinberar stofnanir á Íslandi og náttúruverndarsamtök. Á vegum samtakanna er starfrækt net færustu vísindamanna sem eru um 2000 og vinna í sérfræðinganefndum, t.d. um útgáfu válista og mat á ágengum framandi tegundum. Hér verður ekki reynt að gera grein fyrir starfsemi samtakanna, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem besti gagnagrunnur um stöðu lífríkis jarðar, heldur vísað á vef þeirra.

Alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin (Birdlife International)

Alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin (BirdLife International) eru heimssamband frjálsra félaga sem vinna að vernd fugla og búsvæða þeirra. Forgangsmál hjá BirdLife International er að koma í veg fyrir að tegundir deyi út, greina og tryggja vernd mikilvægra fuglasvæða, varðveita og endurhæfa mikilvæg búsvæði fugla og styðja náttúrvernd og náttúruverndarsinna um heim allan.

Félagar í BirdLife International eru 2,5 milljónir í gegnum 116 aðildarfélög. Fuglavernd er fullgildur aðili að BirdLife International og fulltrúi Íslands þar.

BirdLife International, með hagsmuni fuglaverndar í huga, mótmælti árið 2021 hugmyndum um stórfellda skógrækt á Íslandi. Þetta var gert með bréfi til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Bréfið var undirritað af fulltrúa BirdLife International og fulltrúum 38 aðildarfélaga samtakanna.

Lög er varða megináherslur í núverandi starfsemi VÍN

  • Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd
  • Lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum
  • Lög nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur
  • Lög nr. 33/2019 um skóga og skógrækt
  • Lög nr. 155/2018 um landgræðslu
  • Lög nr. 123/2010, Skipulagslög
  • Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum
  • Lög nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð
  • Lög nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð
  • Lög nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands
  • Lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar
  • Lög nr. 96/2018 um Ferðamálastofu
  • Lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða
  • Lög nr. 20/2016 um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum
  • Lög nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum
  • Lög nr. 80/2012 um menningarminjar
  • Lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess
  • Lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
  • Lög nr. 47/2004 um Þjóðgarðinn á Þingvöllum

Reglugerðir er varða megináherslur í núverandi starfsemi VÍN

Leita má að reglugerðum sem tengjast starfsemi Vina náttúru Íslands á reglugerðarvef stjórnarráðsins.

  • 665/2012 Reglugerð um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
  • 608/2008 Reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð
  • 650/2006 Reglugerð um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns
  • 554/2005 Reglugerð um samvinnunefnd um málefni norðurslóða
  • 583/2000 Reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda.