30. desember 2024
Ágætu félagar í VÍN.
Við áramót er hollt að líta um öxl og meta árangur ársins sem er að líða og enn frekar að horfa fram á veginn og forgangsraða verkefnum okkar. Við félagsmenn í VÍN þurfum að meta hvernig við getum best lagt náttúru landsins lið.
Mér er efst í huga þakklæti til ykkar fyrir ánægjulega samferð og þann árangur sem náðst hefur. Það hefur margt áunnist á árinu, sem við getum verið stolt af. Unnið hefur verið að því að móta leiðbeinandi reglur um val á landi til skógræktar en stór hluti landsins nýtur nú lítillar verndar vegna áhrifa umfangsmikilla skógræktar. Um 20 sérfræðingar undir forystu Sigurðar H. Magnússonar komu upphaflega að vinnunni og er verkefnið hugsað sem framlag VÍN til að bæta skipulag og regluverk í skógrækt í landinu. Unnið er undir kjörorðinu Rétt tré á réttum stað. Nýlega kynntum við forsvarsmönnum Lands og skógar frumdrög verkefnisins.
Hernaðurinn gegn náttúru landsins birtist í ýmsum myndum
Á síðustu misserum virðist mér að sótt hafi verið harðara en nokkru sinni fyrr að náttúru landsins og kannski alveg sérstaklega að líffræðilegri fjölbreytni. Ég tel að stærsti ógnvaldurinn sé hin stórfellda, óhefta og stjórnlausa skógrækt sem nú er hafin. Stór lyngmóasvæði með ríkulegri líffræðilegri fjölbreytni hafa verið unnin með herfi til að gróðursetja aðallega barrtré sem munu gjörbreyta gróðurfari og leiða til þess að skógarbotninn verður nær lífvana með tímanum. Þetta hefur verulega neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni hlutaðeigandi lands og aðliggjandi svæða. Allt er þetta gert í nafni kolefnisbindingar, þrátt fyrir að ekki sé vitað til þess að skógræktarverkefnin hafi fengið hlutlausa og faglega vottun viðurkenndra aðila um bindingu kolefnis. Fyrirætlanir um að leggja heilu sveitirnar eða dalina undir iðnaðarskógrækt er ömurleg framtíðarsýn.
Almennt er talið að langtímabinding kolefnis í vistkerfum sé best tryggð með endurheimt náttúrlegra vistkerfa, hvort sem það eru skógar, votlendi eða önnur vistlendi og með því að vernda þau vistkerfi sem fyrir eru og nýta þau með sjálfbærum hætti. Ég tel afar mikilvægt að stöðva þær aðgerðir til bindingar kolefnis sem augljóslega stuðla að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.
Það er ekki eingöngu vegið að líffræðilegri fjöllbreytni á landi heldur líka á strandsvæðum. Kaldkóralrif finnast víða í fjörðum við strendur landsins. Þau fóstra einstök vistkerfi með mikilli líffræðilegri fjölbreytni. Í mörg ár hefur verið rekin erlend kalkþörungaverksmiðja á Bíldudal sem byggir á námuvinnslu kalkþörunga sem hafa myndast á þúsundum ára. Nú er fyrirhuguð önnur slík stórfelld námuvinnsla í Ísafirði með erlendri verksmiðju í Súðavík.
Uppkaup jarða eða jarðarhluta, í þeim tilgangi að reisa risavaxin vindorkuver uppi um heiðar og hálsa er enn ein ógnunin sem er sífellt að skýrast. Hátt í 50 slík iðnaðarsvæði eru komin á teikniborðið, þar sem gert er ráð fyrir að reisa allt að 250 metra háar vindmyllur með tilheyrandi skerðingu víðerna og náttúruspjöllum. Þeim er ætlað að framleiða mun meiri raforku en nú er til staðar í landinu.
Ofangreind upptalning ógnana við náttúru landsins er engan veginn tæmandi.
Horft fram á næsta ár
Breytt stjórnskipulag náttúruverndar hér á landi með nýrri Náttúruverndarstofnun vekur vonir um að nú verði unnið að heildstæðri náttúruvernd alls landsins og strandsvæða, en ekki bara á þeim litla hluta sem telst til friðlýstra svæða eins og verið hefur. Hin ársgamla stofnun Land og skógur verður um áramótin flutt aftur til umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins. Er þeirri ráðstöfun án efa fagnað af umhverfisverndarsinnum. Við bjóðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar við verndun íslenskrar náttúru.
Við munum boða til aðalfundar félagsins í mars næstkomandi.
Ég sendi öllum félögum í VÍN hugheilar nýárskveðjur með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Megi komandi ár færa okkur öllum heilsu, gleði og starfsorku til að takast á við þær fjölmörgu ógnir sem steðja að náttúru landsins. Við náum ekki árangri í þessari baráttu nema því aðeins að við leggjumst öll á árarnar og róum í sömu átt – til að vernda lífríkið og læra að hjálpa náttúrunni að vernda sig sjálfa – þá mun okkur vel farnast.
Með bestu kveðjum,
Sveinn Runólfsson, formaður VÍN.