Mynd: Trausti Baldursson
9. janúar 2022 | Trausti Baldursson
Árangur, byrjun eða bara tafir og ekki neitt?
Þessi grein birtist upprunalega í Kjarnanum 9. janúar 2022
Bernarsamningurinn er í stuttu máli meginsamningur Evrópuríkja um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu og var staðfestur hér á landi 1993. Emerald Network er vistfræðilegt net verndarsvæða plantna, dýra, búsvæða (habitat) og vistgerða (habitat type) um alla Evrópu. Natura 2000 er framlag Evrópusambandsins til netsins. Að koma þessu neti á innan hvers lands er talið vera mikilvægasta verkefni hvers aðildarríkis samningsins til að vernda lÍffræðilega fjölbreytni. Þann 4. janúar sl. kom tilkynning frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um að Ísland væri búið að tilnefna náttúruverndarsvæði í Emerald Network og mætti þá halda að bjart væri framundan. Margir sem starfa að náttúruvernd, þ.á.m. undirritaður, hafa reynt eftir fremsta megni síðastliðin 25 ár að koma stjórnvöldum í skilning um mikilvægi þess að koma þessu verndarneti dýra og plantan á laggirnar. Hvernig tókst umhverfis- og auðlindaráðuneytinu svo til?
Fimmta janúar sendi undirritaður meðfylgjandi bréf til núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, hér með einni leiðréttingu þar sem orðinu „vistgerða“ hefur verið bætt við í þriðju málsgrein þess. Mikilvægt orð það. Það skal tekið fram að þó meðfylgjandi bréf sé stílað á núverandi ráðherra þá á málefnið sér um það bil 25 ára sögu, eins og kemur fram hér að framan, þar sem nokkrar ríkisstjórnir og hver umhverfisráðherrann á fætur öðrum hafa haft tækifæri til að taka á málinu með ábyrgum hætti á ólíkum stigum þess. Reyndar hefur einn ráðherrann þokað málinu áfram með því að koma nýjum lögum um náttúruvernd í gegn um þingið árið 2013 en lögin tóku þó ekki gildi fyrr en 2015. Tvö ár í súginn þar vegna krafna framsækinna manna. Kannski tekur einhver eftir því að undirritaður nennir ekki að tilgreina sérstaklega nöfn ráðherra eða þeirra flokka sem töfðu málin enda virðist það ekki hafa skipt nokkru máli hver flokkurinn var, svona ef litið er á málið í heild. Fyrrverandi umhverfisráðherra fékk fyrir tæplega fjórum árum afhentar vel ígrundaðar tillögur að svæðum til að vinna úr tillögur að verndarsvæðum í Emerald Network en „ekkert“ gerðist, sjá útskýringar í efni bréfsins. Hér er ekki ástæða til að fara yfir hvað nákvæmlega hefur valdið öllum þessum töfum enda lítið við því að gera núna og það ekki leiðin fram á við.
En hér er þá bréfið.
Til umhverfis- og auðlindaráðherra
Undirritaður vill koma á framfæri alvarlegum athugasemdum við tilnefningu Íslands á svæðum í Emerald Network Bernarsamningsins..
Þau svæði sem eru tilnefnd í framangreindri tillögu eiga vissulega heima í vistfræðilegu neti verndarsvæða og eru öll á lista Náttúrufræðistofnunar Íslands, NÍ, um tillögur að verndarsvæðum í netið þ.e. sbr. tillögur á B-hluta náttúruminjaskrár. B-hlutinn var einmitt m.a. hugsaður í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 til að uppfylla einnig skyldur gagnvart Bernarsamningnum. Framangreind svæði eru öll friðlýst nú þegar og bæta því engu við hvað snertir vernd lífríkis á Íslandi eða Evrópu séð í því samhengi.
Emerald Network er ekki net til að hengja skrautfjaðrir viðkomandi landa í. Emerald Network er vistfræðilegt net þar sem svæði eru valin í netið út frá vistfræðilegu gildi þeirra fyrir vernd ákveðinna tegunda, búsvæða og vistgerða um alla Evrópu. Tegunda/svæða sem eiga að njóta verndar skv. ákveðnum samþykktum Bernarsamningsins. Hér má t.d. nefna sem dæmi allar gerðir búsvæða tiltekinna fuglategunda s.s. varpsvæði, fæðusvæði, fellisvæði og viðkomusvæði farfugla. Sama gildir um staðbundnar tegundir, t.d. plöntur, þó valið geti byggt á öðrum þáttum.
Hér er greinilega auðveldasta leiðin valin og varla hægt að kalla hana annað en vesæla leið. Ísland er löngu orðið eftirbátur allra Evrópulanda um tilnefningu svæða í netið, jafnt þeirra landa sem standa innan sem utan ESB. Ef undirritaður man rétt þá reyndi Noregur að fara þessa leið, þ.e. bara að tilnefna þegar friðlýst svæði, án þess að rökstyðja vísindalega gildi þeirra m.t.t. krafna Bernarsamningsins, og var rekið heim aftur. Í þessu samhengi ber að skoða málið þannig að kröfur Bernarsamningsins eru í flestum tilvikum í samræmi við lög um náttúruvernd hér á landi. Það er þó alltaf þannig að skyldur Bernarsamningsins taka á náttúruverndarmálum í víðu samhengi með alla Evrópu undir og þar með óbeint víðara svæði t.d. hvað snertir fartegundir. Þetta þykir mörgum sem vilja fara sínu fram og eingöngu sínu óþægilegt. Samanber t.d. vegagerð um Breiðafjörð og skógrækt án fyrirhyggju um allt land. Þessi tvö mál eru nefnd hér þar sem þau tengjast vali svæða í Emerald Network og samningnum, sem og náttúruminjaskrá, og eiga að vera nýjum ráðherra kunnug. Meðferð þeirra hér á landi hefur jafnframt verið „kærð“ til Bernarsamningsins.
Sú leið sem hér er valin, sem margítrekað hefur verið bent á að er ekki fullnægjandi, er rökstudd í frétt ráðuneytisins á eftirfarandi hátt: „Á Emerald Network svæðum er gerð krafa um lagalega stöðu verndunar, umsjón, vöktun og áætlanir um hvernig vernd og stjórnun verði háttað. Þessi svæði voru valin af því að þau uppfylla þessar kröfur að hluta eða öllu leyti og vegna þess að þar eru tegundir eða lífsvæði sem mikilvægt er að vernda samkvæmt Bernarsamningnum.“ Hér er sem sagt byrjað á öfugum enda þ.e. að formlegheitin um verndarstöðu eru látin ráða valinu en ekki vistfræðilegt gildi svæðanna heildstætt þó þau sem slík séu mikilvæg.
NÍ hefur framkvæmt vísindalega úttekt á lífríki Íslands, þó margt vanti, bæði hvað varðar vistgerðir og búsvæði og fyrir tegundir t.d. fugla og búsvæði þeirra, plöntur og einnig t.d. sela. Hér verður ekki farið nánar út í öll þau gögn sem liggja að baki úttekt NÍ og ráðuneytinu á að vera full kunnugt um, vona ég. Tillögur ráðuneytisins eru í engu samræmi við tillögur NÍ nema að því leyti að þau svæði sem nú eru valin eru mikilvæg sem slík enda það löngu komið í ljós þar sem þau eru bæði friðlýst og sum hver einnig Ramsarsvæði. Við val á svæðum í netið þarf að skoða landið í heild tegund fyrir tegund og mun það óhjákvæmilega verða þannig að sum svæðanna lenda inn á friðlýstum svæðum, sjá tillögur NÍ. Það getur verið kostur upp á umsýslu svæðanna og að ná fram vernd því hún er þegar til staðar. Friðlýst svæði eru þó á engan hátt trygging fyrir því að þau séu einnig mikilvæg fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni fyrir landið í heild, enda hafa þau ekki hingað til verið valin mjög skipulega skv. visgræðilegri nálgun. Friðlýsingarþátturinn á því ekki eingöngu að ráða valinu.
Vissulega þarf að tryggja vöktun og utanumhald um þau svæði sem eru tilnefnd. En það er einmitt það sem er stærsti veikleiki eða öllu heldur þessi hálfgerði aumingjaskapur íslenskra stjórnvalda sem undirritaður nefndi hér áðan. Það er að íslensk stjórnvöld treysta sér einfaldlega ekki, eða vilja ekki, leggja fram neinar nýjar tillögur um vernd svæða sem nauðsynlegt er að vernda í vistfræðilegu neti því þau hvorki þora né treysta sér til að uppfylla þau formlegtheit sem er krafist hvað varðar umsjón og vöktun nýrra svæða né heldur takast á við þau samfélagslegu átakamál sem fylgja oft í kjölfarið þegar tekist er á um vernd svæða.
Undirritaður hvetur nýjan umhverfisráðherra til að kynna sér almennilega, hafi hann ekki nú þegar gert það, hvaða vísindalegi grunnur og hugmyndafræði liggur að baki skyldum og samþykktum Bernarsamningsins og kynni sér í framhaldi af því tillögur NÍ að verndarsvæðum sem voru sendar ráðuneytinu í apríl 2018. Síðan þá var margítrekað af hálfu NÍ við ráðuneytið að vinna samkvæmt tillögunum við tilnefningu svæða í Emerald Network. Nú hefur ekkert gerst í nær 4 ár fyrr en framangreind tillaga var kynnt en hún færir í raun ekkert nýtt með sér annað en tilraun til að sýna og skýla sér á bak við þegar tilbúnar skrautfjaðrir, sem reyndar eru mikilvægar, en uppfylla hvorki verndarmarkmið með netinu né skyldur Íslands.
Undirritaður starfaði hjá náttúru- og umhverfisverndarstofnunum ríkisins í 26 ár, þ.e. Náttúruverndarráði, Náttúruvernd ríkisins, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands, og þekkir því vel hvaða meðferð hinar ýmsu tillögur um vernd hafa fengið hjá ráðuneyti umhverfismála þessi ár. Til dæmis hófst ekki átak í að vinna að neti verndarsvæða (Emerald Network / Natura 2000) fyrr en fjármagn barst frá Evrópusambandinu í það átak vegna umsóknar Íslands um inngöngu í ESB. Ísland þarf að hysja upp um sig brækurnar og verða sér ekki til ævarandi skammar í þessum málum gagnvart Bernarsamningnum og landinu sjálfu. Undirritaður bendir ráðherra á að kynna sér Emerald Network svæði annarra landa og einnig Natura 2000 svæði Evrópusambandsins sem er framlag þess í Emerald Network. Ef þessi svæði, dreifing, markmið og ástæða fyrir vernd þeirra eru borin saman við tillögu ráðuneytisins þá sést hvað þessar tillögur eru bágbornar og í raun hvað við erum langt á eftir öðrum löndum. Það að vera á eftir öðrum er í sjálfu sér ekki mælikvarði á gæði ef við værum almennt komin lengra. Að koma með mótsvar eins og að einhvers staðar verði að byrja, sem er gott út af fyrir sig, dugar ekki hér. Það hefur áður komið fram að það er fyrir löngu búið að taka saman gögn til að framfylgja þessu máli af meiri krafti en framangreind tillaga ber vitni um og vanvirðir hún í raun margra ára rannsóknir á náttúru Íslands.
Ef einhver snefill er af raunverulegum vilja hjá íslenskum stjórnvöldum til að stuðla að frekari náttúruvernd á Íslandi, á þessum tímum hnignunar á líffræðilegri fjölbreytni, og sá vilji byggir ekki eingöngu á að þóknast ferðaþjónustu eða einstaka hugmyndum um eitt og annað þá er tækifæri í Emerald Network. Það skal sagt skýrum orðum hér að þær leiðir og aðferðir sem hægt er að beita við vernd tegunda, búsvæða og vistgerða samkvæmt Bernarsamningnum/Emerald Network og lögum um náttúruvernd geta nýst vel með annarri nýtingu ef rétt er á haldið. Það er efni í aðra drápu.