Kolefnisbinding á Geitasandi

Mynd: Guðmundur Árnason

21. október 2023 | Sigfús Bjarnason

Grænþvottur Stjórnarráðsins

Þessi grein birtist upprunalega í Heimildinni 19. október 2023.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata sendi í vor fyrirspurn til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um kolefnisjöfnun Stjórnarráðsins. Spurt var meðal annars hvort markmiði Stjórnarráðsins um að kolefnisjafna alla starfsemi Stjórnarráðsins hafi verið náð og hvort starfsemi þess væri kolefnishlutlaus í dag.

Í svari ráðherra kemur fram að markmiðinu um kolefnishlutleysi fyrir árin 2019–2021 hafi verið náð. Við nánari skoðun á þeim gögnum sem fylgja svarinu er þó ljóst að þessi staðhæfing stenst ekki og að kolefnisjöfnun flestra ráðuneyta mætti kalla grænþvott

Flest ráðuneytin kolefnisjöfnuðu starfsemi sína í gegnum Kolvið og Votlendissjóð. Votlendissjóður hefur nú stöðvað sölu kolefniseininga þar til alþjóðleg vottun þeirra verður komin í höfn. Kolviður býður hins vegar enn upp á óvottaða kolefnisbindingu með skógrækt en tekur núorðið fram á vef sínum að boðið sé upp á kolefnisbindingu en ekki kolefnisjöfnun.

Fjögur ráðuneyti kolefnisjöfnuðu starfsemi sína á þessum árum alfarið í gegnum Kolvið. Í þeim tilfellum er auðvelt að grandskoða þær tölulegu upplýsingar sem liggja til grundvallar staðhæfingu Stjórnarráðsins um kolefnishlutleysi.

Kolefnishlutleysi fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Tökum sem dæmi fjármála- og efnahagsráðuneytið. Heildarlosun áranna 2019-2022 var 227 tonn CO2-ígildi og keypti ráðuneytið samtals 279 tonna CO2-bindingu af Kolviði til kolefnisjöfnunar.

Þessi 279 tonn CO2  eru hins vegar áætlað heildarmagn kolefnisbindingar í viðkomandi skógræktarverkefnum á næstu 50 árum. Raunveruleg kolefnisbinding á þeim árum sem ráðuneytið ætlaði að kolefnisjafna er lítil sem engin. Ef ráðuneytið notaði sömu rök við gerð fjárlagafrumvarpa væri það hliðstæða þess að ríkissjóður væri talinn í jafnvægi ef útgjöld ársins væru jafn mikil og samanlagðar tekjur næstu 50 ára. 

Í svari ráðherra kemur fram að „með því að nýta kolefnisjöfnunarfjármagn ráðuneytanna innan lands hefur verið styrkt við aðra meginstoð stefnumörkunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem er að ýta undir skógrækt og endurheimt votlendis innanlands.“

Með endurheimt votlendis væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná raunverulegri kolefnisjöfnun. Kaup á framtíðar kolefnisbindingu með gróðursetningu trjáa er hins vegar bara hægt að kalla almennan stuðning við skógrækt. Kaupin hafa lítið sem ekkert með kolefnisjöfnun að gera. 

Höfundur er fyrrverandi deildarstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu og félagi í Vinum íslenskrar náttúru.