Mynd 11

Mynd: Guðrún Pálsdóttir

3. janúar 2023 | Hjálmar Waag Árnason

Hættur stafa af skógrækt

Þessi grein birtist upprunalega í Fréttablaðinu 3. janúar 2023

Bréfritari gefur sér að í flestum Íslendingum búi einhver aðdáun á íslenskri náttúru. Þarf ekki annað en að sjá hvernig við flykkjumst í þúsunda tali út í náttúruna þegar færi gefst. Við þenjumst af stolti þegar erlendir aðilar (helst frægir) prísa landslagið á Íslandi enda orðið heimsþekkt í alþjóðlegum kvikmyndum og auglýsingum. Sum sé, við elskum náttúruna. En nú er vá fyrir dyrum.

Grundvallaratriði í allri náttúruvernd er að viðhalda fjölbreytileika lífríkis. Það eru þær skyldur sem við berum gagnvart komandi kynslóðum. Óhjákvæmilega verða árekstrar milli mannfólks og náttúru í viðleitni til að búa okkur þokkaleg lífsskilyrði. Kúnstin er að halda raski á náttúrunni sem minnstu. Erfitt getur verið að finna hvar skynsamleg mörk liggja og um þau er deilt. Sumar aðgerðir okkar byrja í góðri trú en snúast svo upp í andhverfu sína. Dæmi um það er lúpínan – mér liggur við að segja: bölvuð lúpínan.

Veður yfir allt

Undirritaður hefur átt því láni að fagna að hafa stundað veiðar við Laxá í Leirársveit í áratugi. Lengst af nutum við dvalar við ána og á milli kasta gátum við notið umhverfisins. Víða mátti sjá hina fallegu eyrarrós, mófuglar létu vel af sér vita – m.ö.o. hin villta, íslenska náttúra veitti okkur dásamlegan unað. Í dag er eyrarrósin horfin sem og mófuglarnir og árbakkar eru óþekkjanlegir. Hvað veldur? Lúpínan hefur dreift sér niður með allri ánni og skríður hratt upp eftir bökkunum. Fjölbreytileikinn við árbakkann er horfinn af því að við fórum okkur óvarlega með innflutta plöntu. Svipuð dæmi má sjá svo víða þar sem lúpínan skríður yfir mela og móa og útrýmir því sem fyrir er. Þetta kannast líklega flestir við. En nú virðumst við ætla að feta sömu leið í draumum okkar um skóga. Ástæða er til að staldra við og íhuga hvert stefnir í skógrækt.

Stefnuleysi ógnar

Skógræktarstjóri hefur kynnt að á næsta ári verði um 7 milljónum trjáa plantað – á vegum Skógræktar ríkisins (+ það sem einkaaðilar gera). Taldar eru upp margar tegundir trjáa og látið að því liggja að flytja þurfi jafnvel inn tré þar sem innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn. Í hinu skóglitla Íslandi höfum við látið okkur dreyma um íslenskan skóg og þar sem vel hefur tekist nýtur skógarrjóðrið vinsælda almennings. Sjálfur er ég í þeim hópi. Margt bendir þó til að við höfum farið offari í þessum efnum. Ríkið ver hundruðum milljóna í skógrækt en þar virðist ríkja algjört stefnuleysi. Bara að planta trjám sem víðast og hafa tegundir sem flestar. Getur verið að við séum á sömu leið með skógræktina og við fórum með lúpínuna?

Norðmenn hafa vaknað upp við vondan draum. Þeir vörðu milljón um í skógrækt – svipað og við erum að gera – en eru nú að ná áttum og verja orðið milljónum í að eyða skógum! Sumar ágengar tegundir einfaldlega hafa tekið völdin með alvarlegum afleiðingum. Má þar nefna eyðingu gróðurs sem er fyrir (skógarbotn verður súr og fátt þrífst í honum, mófuglar hopa, útsýni hverfur o.s.frv.) Hjá okkur ríkir enn „villta vestrið“ og við erum hvött til að planta trjám úti um allar koppagrundir. Afleiðingarnar eru að byrja að koma í ljós og eiga eftir að versna á löngum tíma.
Hvað er til ráða?

Mörkun stefnu

Fyrsta skrefið er að móta stefnu – Hverju viljum við ná fram með skógrækt? Viljum við tré alls staðar? Viljum við afmarka svæði fyrir skógrækt, sbr. Heiðmörk og slíka staði? Hvaða tegundir viljum við sjá hér? Fræðimenn benda á að ýmsar tegundir séu um of ágengar og hafi til lengri tíma svipuð áhrif og lúpínan. Þar hafa sérstaklega verið nefndar tegundir á borð við stafafuru og sitkagreni. Sú fyrrnefnda, a.m.k., mun dreifa sér sjálf. Jarðvegur um hana verður gegnsúr og drepur allan annan gróður.

Viljum við há tré alls staðar? Hvað segja ferðamenn sem hingað koma til að njóta víðernis í íslenskri náttúru. Dæmi eru þegar um að há tré séu farin að byrgja fyrir fallega útsýnisstaði. Viljum við gróðursetja hvaða tegund sem er – bara að það sé tré?

Áfram má spyrja. Nýtum okkur langa reynslu frændþjóða á sviði skógræktar. Lendum ekki í því að láta ríkið borga fyrir gróðursetningu sem það í framtíðinni borgar svo fyrir að eyða. Lykilatriði hlýtur að vera sú skylda að marka stefnu á þessu sviði en ekki rasa um ráð fram eins og nú er gert. Náttúran og framtíðin eiga það inni hjá okkur.

Höfundur er áhugamaður um íslenska náttúru.