Mynd 12

Mynd: Guðrún Pálsdóttir

29. janúar 2023 | Ólafur Arnalds

Lækkar sýrustig jarðvegs á Íslandi við ræktun barrskóga?

Vitað er að barrskógar geta lækkað sýrustig (pH) jarðvegs verulega – en slík lækkun felur í sér afar neikvæð umhverfisáhrif því pH hefur mikil áhrif á virkni vistkerfa í heild. Talið hefur verið að þessi áhrif kunni að vera takmörkuð hérlendis vegna áhrifa áfoks, sem samanstendur af basískum glerkenndum ögnum sem veðrast ört og vega upp á móti sýringaráhrifum skógræktar.

Nemandi við Landbúnaðarháskóla Íslands, Freyja Ragnarsdóttir Pedersen, lauk nýverið B.Sc. verkefni sem ber heitið „Breytingar á sýrustigi í jarðvegi barrskóga“. Rannsóknin tók til sjö svæða þar sem barrskógum hefur verið plantað, þar af voru fjórir þeirra á Vestfjörðum. Teigarnir voru 40-70 ára gamlir. Sýni voru tekin innan teiga og utan – en í rannsókninni var lögð áhersla á fjölda staða fremur en fjölda sýna á hverjum stað.

Niðurstöður Freyju sýna marktæka lækkun á sýrustigi í skóginum í Skarðsdal í Siglufirði og marktæk áhrif landgerða (barrskógur vs. mói) á sýrustigið fyrir rannsóknina í heild. Þá er breytileiki á sýrustigi jarðvegsins innan barrskóganna á öllum rannsóknarsvæðum talsvert meiri en utan skóganna. Það bendir til þess að sýrustig sé tekið að breytast frá náttúrulegu ástandi. Líklega hefur sitkagreni meiri áhrif en aðrar barrtegundir á pH-gildi jarðvegs. Áfok og úrkoma eru meðal þátta sem hafa áhrif á sýrustigið og lækkun þess undir barrskógum.

Segja má að rannsóknin sé frumkönnun á því hvort sýrustig í barrskógum sé tekið að lækka hérlendis og svarið er að það sé líklegt. Vitnað er til annarra rannsókna sem gefið hafa svipaðar niðurstöður hérlendis. Mikilvægt er að efna til viðameiri rannsókna á þessum mögulegu hrifum skógræktar. Þær geta veitt leiðsögn um hvort æskilegt verði að setja skorður við plöntun barrskóga eða ákveðinna tegunda barrviða á ákveðnum svæðum landsins ef slíkar rannsóknir leiða í ljós hættu á óæskilegum áhrifum á pH-gildi jarðvegs.

Ritgerð Freyju er aðgengileg á Skemmunni.