Mynd: Sigurður H. Magnússon

14. mars 2022 | Stefán Gíslason

Minnispunktar um kolefnisjöfnun með skógrækt

Skógrækt er ein þeirra aðferða sem hægt er að beita til kolefnisjöfnunar. Aðferðin er náttúruleg að því leyti að með ljóstillífun safna trén í sig kolefni úr andrúmsloftinu allan þann tíma sem trén eru í vexti. Með því einu að gróðursetja tré er þannig komið af stað ferli sem mun binda kolefni jafnt og þétt næstu áratugina, að því tilskildu að tréð nái að vaxa og dafna.

Á Íslandi hefur borið á því að hugtökunum kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun sé ruglað saman. Kolefnisbinding er hvert það ferli sem tekur til sín koldíoxíð úr andrúmsloftinu og bindur það sem kolefni, hvort sem er í gróðri, jarðvegi, bergi eða einhverju öðru. Hins vegar er ekki hægt að tala um kolefnisjöfnun fyrr en bindingin hefur átt sér stað með sannanlegum hætti og að uppfylltum nokkrum grundvallarskilyrðum.

Með hliðsjón af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hérlendis um kolefnisjöfnun með skógrækt, er ástæða til að hafa uppi sérstök varnaðarorð varðandi tvo þætti sem oft virðast sniðgengnir í umræðunni:

1. Tímaþátturinn

Eins og fram hefur komið binda tré kolefni svo lengi sem þau eru í vexti. Hérlendis er algengt að miðað sé við 50-100 ára vaxtartíma í þessu samhengi og gjarnan miðað við að á þessum tíma nái hvert tré að binda sem samsvarar u.þ.b. 100 kg koldíoxíðígilda (CO2íg). Í samræmi við það er gjarnan miðað við að gróðursetja þurfi 10 tré til að binda 1 tonn CO2íg og að þar með sé búið að kolefnisjafna losun upp á 1 tonn. Í þessu sambandi er afar mikilvægt að undirstrika að kolefnisjöfnunin á sér ekki stað þegar umrædd 10 tré eru gróðursett, heldur þegar trén eru fullvaxin. Tíu tré sem gróðursett eru gagngert á árinu 2022 til að binda 1 tonn af koldíoxíði, t.d. úr útblæstri bifreiðar það sama ár, ná sem sagt ekki að ljúka því hlutverki sínu fyrr en að 50-100 árum liðnum. Þá fyrst er hægt að tala um að búið sé að kolefnisjafna umrætt tonn.

2. Líffræðileg fjölbreytni

Svo virðist sem ekki sé gefinn nægur gaumur að líffræðilegri fjölbreytni í umræðunni
hérlendis um kolefnisjöfnun með skógrækt. Þessi veikleiki á sér einkum tvær
birtingarmyndir:

  • Annars vegar virðist oft skorta nokkuð á rannsóknir á grunnástandi þess lands sem ætlunin er að taka undir skógræktina. Þetta á reyndar bæði við um rannsóknir á því lífríki sem fyrir er (lágplöntur, háplöntur, jarðvegslífverur, skordýr, fuglar o.s.frv.) og um kolefnisbúskap þessa sama lands. 
  • Hins vegar má draga í efa að næg aðgát sé höfð varðandi gróðursetningu innfluttra tegunda sem að einhverju leyti er óvíst hvernig muni haga sér við nýjar aðstæður. Þetta á bæði við um áhrif þessara tegunda á það lífríki sem fyrir er að óbreyttu og um hættuna á að þessar tegundir verði ágengar í íslenskri náttúru samfara öðru umhverfisbreytingum, sem gæti síðar leitt til verulegrar útbreiðslu og neikvæðra áhrifa á líffræðilega fjölbreytni utan þeirra svæða sem upphaflega var ætlunin að taka undir skógræktina.

Hvað tímaþáttinn varðar (fyrra atriðið hér að framan) er ástæða til að vara við villandi markaðssetningu sem höfð hefur verið uppi af einhverjum þeirra aðila sem bjóða til sölu kolefnisjöfnun með skógrækt, annað hvort beint eða sem hluta af öðrum viðskiptum (svo sem kaupum á eldsneyti). Gefið hefur verið í skyn að með því að greiða fyrir gróðursetningu og vöktun trjáa sem ná að binda tiltekið magn koldíoxíðs á líftíma sínum sé búið að jafna út tiltekna kolefnislosun greiðandans á einu ári. Nýverið hafa verið gerðar endurbætur á heimasíðum þar sem boðið er upp á viðskipti að þessu tagi, þannig að þar er nú alla jafna talað um kaup á kolefnisbindingu á móti tiltekinni losun þar sem áður var talað um kolefnisjöfnun. Eftir sem áður virðist lítil sem engin áhersla lögð á að fyrirbyggja þann hugsanlega misskilning kaupandans að bindingin eigi sér stað strax eftir að gengið hefur verið frá kaupunum.

Mikilvægi þess að hafa tímaþáttinn í huga hefur aldrei verið meira en nú, þegar ljóst er að draga þarf mjög verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Binding í skógrækt gerir vissulega sitt gagn, en árið 2030 verður tré sem gróðursett er á þessu ári aðeins búið að binda óverulegan hluta þeirra 100 kg sem því er ætlað að binda á líftíma sínum.

Gera verður þá kröfu til allra þeirra sem fjalla um kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun, þ.m.t. stjórnvalda, opinberra stofnana og seljenda kolefnisbindingar, að gerður sé skýr greinarmunur á bindingu sem þegar hefur átt sér stað og bindingu sem búið er að leggja drög að og mun raungerast á næstu árum eða áratugum. Þessi munur endurspeglast í útgefnum kolefniseiningum, sem skiptast í „kolefniseiningar í bið“ (ex-ante) annars vegar og „varanlegar kolefniseiningar“ (ex-post) hins vegar. Varanlegu einingarnar (ex-post) fela í sér staðfestingu á að bindingin hafi átt sér stað og eru þar af leiðandi einu einingarnar sem hægt er að nota til kolefnisjöfnunar í bókhaldi einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila, enda séu þær vottaðar af óháðum aðila og afskráðar úr opinberri kolefnisskrá um leið og þær eru færðar til bókar sem mótvægi við losun.

Hér að framan hefur verið minnst á óháða vottun. Rétt er að undirstrika að til að vottun geti talist óháð þarf bæði staðallinn sem fylgt er og aðilinn sem tekur út fylgni aðila við staðalinn að vera óháður bæði seljanda og kaupanda hins vottaða, hvort sem um er að ræða kolefniseiningar eða aðra vöru. Auk þess þarf sá sem veitir vottunina að vera faggiltur til þess af þar til bæru stjórnvaldi. Í þessu sambandi er ekki nægjanlegt að úttektaraðilinn sé óháður kaupandanum og seljandanum ef úttektin felst í að ganga úr skugga um að t.d. seljandinn hafi fylgt þeim reglum og viðmiðum sem hann hefur sjálfur sett sér.

Eins og staðan er í dag verður að gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að kolefniseiningar sem keyptar eru til kolefnisjöfnunar í bókhaldi einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila, hvort sem um er að ræða einingar úr skógrækt eða öðrum verkefnum, séu ex-post einingar með vottun sem viðurkennd er af ICROA (Alþjóðasamtökum seljenda kolefnisvottorða (International Carbon Reduction and Offset Alliance)). Nánar tiltekið þurfa einingarnar að vera vottaðar af aðila með faggildingu frá ICROA (sjá lista á https://www.icroa.org/organisations) samkvæmt staðli sem viðurkenndur er af samtökunum (sjá lista á https://www.icroa.org/standards). 

Tekið saman 14. mars 2022 

Stefán Gíslason
Environice
Hvanneyri