Mynd: Lucas Davies / Unsplash

16. mars 2024 | Árni Finnson

Orkuskipti nást ekki

Þessi grein birtist upprunalega í Heimildinni 15. mars 2024.

Orkuskipti

Orkuskipti felast í að bruni jarðefnaeldsneytis minnkar og hlutfall hreinnar orku hækkar um leið og orkunýtni batnar. Nýleg greining Ember-hugveitunnar sýnir að á síðasta ári minnkaði bruni jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu um 19 af hundraði í ríkjum Evrópusambandsins. Hlutfall endurnýjanlegrar orku fór í fyrsta skipti yfir 40% (44%) og árleg framleiðsla með vindorku var 55 TWh en það er í fyrsta skipti sem vindorkuver í Evrópu framleiða meiri orku en gasorkuver. Þessi árangur jafngildir 19% minni losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 2000.

Orkuskipti á Íslandi fela í sér útfösun bruna á jarðefnaeldsneyti í vegasamgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði. Núna er orðið ljóst að Ísland nær ekki orkuskiptum í sjávarútvegi fyrir árið 2040. Tómt mál er að tala um orkuskipti í flugi enda heyrir það undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og – þið munið – Ísland fékk undanþágu frá því kerfi næstu tvö árin.

Ísland nær ekki orkuskiptum

Þar með er ljóst að markmið ríkisstjórnarinnar um „… að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja …“ næst ekki. Orkuskipti á landi ganga betur en óljóst er hvað gerist á þessu ári með upptöku styrkjakerfis fyrir rafbíla í stað skattaívilnana.
Enn fremur: Markmið ríkisstjórnarinnar um að „Ísland verði lágkolefnishagkerfi“ er enn óskilgreint.

Áform um orkuskipti og útfösun?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir jafnframt:

„Lögð verður fram þingsályktun um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis, þar sem settar verða fram aðgerðir og grunnur lagður að því að fullum orkuskiptum verði náð eigi síðar en 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.“

Ég hef ekki fundið þessa þingsályktun eða tillögu þar um á vef Alþingis. Marg um töluð orkuskipti virðast öðru fremur helgast af hörðum kröfum Landsvirkjunar o.fl. um fleiri virkjanir en ekki metnaði í loftslagsmálum.

Kolefnishlutleysi

Í skriflegu svari umhverfisráðherra við eftirfarandi spurningu Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingkonu Viðreisnar, á yfirstandandi þingi,

„Hvað felst í markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir Ísland árið 2040? Hvaða losun fellur þar undir og hver er hún nú í kílótonnum CO 2 -ígilda?“

segir

„Skilgreining á því hvað falli undir markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi liggur ekki fyrir og því ekki hægt að segja hver losun í tonnum koldíoxíðsígilda er.“

Nettólosun verði núll

Í svari umhverfisráðherra við spurningu Þorbjargar Sigríðar segir einnig:

„Hugtakið kolefnishlutleysi er notað til að lýsa ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum þannig að nettólosun verði engin eða núll.“

Hugtakið kolefnishlutleysi er því óþekkt stærð. Ekki mælanlegt og ekki tímabundið að öðru leyti en að því skal ná fyrir árið 2040. Enn fremur, engin áreiðanleg vottun á bindingu kolefnis af mannavöldum er enn fáanleg þar eð bókhald yfir bindingu kolefnis er óáreiðanlegt.

Markmið um kolefnishlutleysi

Hafa ber í huga að ríkisstjórnarflokkarnir kynntu fyrst markmið um kolefnishlutleysi við stjórnarmyndun árið 2017 og skyldi því náð árið 2050. Vorið 2021 var svo sett í lög „ … að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.“

Samkvæmt svari umhverfisráðherra hér að ofan er hann þó engu nær hvað markmiðið felur í sér. Í stað þess að setja skýr, magnbundin og tímasett markmið talar ríkisstjórnin heldur um hvað eigi að gerast eftir 16 ár en eftir 6 ár þegar fyrsta skuldbindingartímabil Parísarsamningsins rennur út.

Á næstu sex árum

Í tillögu að fjármálaáætlun fyrir 2024 – 2028 segir: „Fá samfélög eru betur sett [en hið íslenska] til að nýta sér umbyltinguna í loftslags- og orkumálum heimsins.“ Ekki skal það dregið í efa en ríkisstjórnin er fjarri því að nýta sér þessa góðu stöðu.

Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar náðist að minnka losun um 12 prósent á tímabilinu 2005 – 2021. Mat stofnunarinnar er að þegar gögn fyrir árið 2022 liggi fyrir nái samdrátturinn 11 prósentum frá 2005. Til að ná 40 prósent minni losun árið 2030 þarf því losun að minnka um 29 prósentustig á næstu sex árum.

Skuldbindingar um landsframlag

Aðildarríki Parísarsamnigsins hafa skuldbundið sig til að upplýsa með gagnsæjum hætti hversu mikið og hversu hratt þau hyggjast draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 en þá lýkur fyrsta skuldbindingartímabili samningsins. Þessi aðgerðaáætlun kallast landsframlag.

Sameiginlegt landsframlag

Aðildarríki Evrópusambandsins og EES-samningsins hafa ákveðið að skila inn sameiginlegu landsframlagi. Þegar markmið ESB var að ná 40% samdrætti fyrir 2030 varð hlutdeild Íslands 29% en frá þeim tíma hefur Ísland ekki kynnt sitt eigið landsframlag heldur segir einungis í stefnuyfirlýsingu, að:

„Sett verður sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við 2005.“ Ekkert segir í svari ráðherra um hver verði hlutdeild Íslands í sameiginlegu landsmarkmiði Evrópusambandsins um að minnka losun um 55%.

Í þeirri tilkynningu sem stjórnvöld sendu skrifstofu Loftslagssamningsins í Bonn, í febrúar 2021, um uppfærð markmið Íslands um samdrátt í losun, kom skýrt fram að enn væri ósamið um hlutdeild Íslands í markmiði Evrópusambandsins um 55% samdrátt. Ofangreind framsetning í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar virðist því miður ætluð til að rugla fólk í ríminu.

Eftirlitsstofnun EFTA

Í skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA frá í haust, ESA Climate Progress Report segir að bæði Noregur og Ísland verði að herða róðurinn töluvert til að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Í skýrslu OECD frá fyrra ári segir að litlar líkur séu til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar. Trúverðugleiki Íslands molnar.

Samfélagslosun Íslendinga

Benda má á vefsíðuna www.himinnoghaf.is, þar sem Birna Hallsdóttir leitast við að svara spurningunni: „Hvers vegna er samfélagslosun meiri á hvern íbúa hérlendis en í ríkjum ESB?“

Ný aðgerðaáætlun?

Vonir standa til að á næstu vikum verði kynnt ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ári á eftir áætlun. Gera verður kröfu um að markmiðin í verði skýr, vel skilgreind að magni, í tíma og að með fylgi trúverðug lýsing á hvernig markmiðin falli að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Á næstu sex árum.