
Stafafura að breiðast út í Steinadal í Suðursveit. Ritrýnd grein í NeoBiota eftir Pawel Wasowicz, Guðrúnu Óskarsdóttur og Þóru Ellen Þórhallsdóttur sýnir fram á að stafafura er verulega ágeng tegund á Íslandi. Ljósm. Pawel Wasowicz
12. júní 2025 | Sveinn Runólfsson
Rétt tré á réttum stað
Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðinu 12. júní 2025.
Á undanförnum misserum hafa verið sett fram stórtæk áform um að auka skógrækt hér á landi. Þessum áformum er það yfirleitt sameiginlegt að þau eru sett fram sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Fyrir liggur vilji erlendra aðila til að hefja stórfellda skógrækt hérlendis í þeim tilgangi. Með nútíma vélvæðingu við jarðvinnslu og gróðursetningu er víða hægt að ná miklum afköstum í skógrækt.
Því er að mörgu að hyggja í þessum efnum, sérstaklega fyrir sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvald hver á sínu svæði því þau veita framkvæmdaleyfi til skógræktar. Hins vegar sýnir reynslan að alltof víða hafa verið veitt leyfi til skógræktar sem skaða verulega líffræðilega fjölbreytni og er í andstöðu við alþjóðlega samninga. Mikilvægt er að átta sig á að ræktun skóga gerbreytir ásýnd lands og þeim vistkerfum sem fyrir eru. Þetta á ekki síst við um skóga með hávöxnum, framandi tegundum eins og alaskaösp, sitkagreni og stafafuru.
Samband íslenskra sveitarfélaga benti nýlega á í umsögn sinni um skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um viðskipti með kolefniseiningar. „Til að geta tekið vel upplýstar ákvarðanir um í hvaða tilvikum sé æskilegt að veita leyfi og hvenær ekki er nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi aðgang að fræðsluefni um framleiðslu kolefniseininga (m.t.t. kosta, galla og áhættu) og skýrum leiðbeiningum um hvaða kröfur verkefni þurfa að uppfylla til að gefa megi út leyfi. Einnig þurfa sveitarfélög að vita hvaða sérfræðiþekkingu þau geta sótt í til að taka upplýstar ákvarðanir um áhrif verkefna á náttúru, loftslag og aðra þætti.“
Rétt tré á réttum stað
Félagið Vinir íslenskrar náttúru, VÍN, hefur frá árinu 2023 unnið að því að útbúa leiðbeiningar fyrir hagaðila um val á landi til skógræktar. Við höfum nú birt leiðbeiningarnar á vefsíðu félagsins undir heitinu Rétt tré á réttum stað.
Sigurður Hjalti Magnússon plöntuvistfræðingur leiddi þróun þessa verkefnis og á vegum VÍN hefur verið unnin rafræn vefsjá til að auðvelda skógræktarfólki og sveitarstjórnum að afla sér faglegra upplýsinga þannig að gróðursetningin yrði í sátt við náttúruna.
Í ljósi ráðgjafarhlutverks Náttúruverndarstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Minjastofnunar Íslands og náttúrustofa og að á stofnunum er víðtæk þekking á náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda sérstöðu hennar, þá þótti VÍN eðlilegt að vísa skógræktarfólki, skógræktarfyrirtækjum og sveitarfélögum til þessara stofnana um ráðgjöf og leiðbeiningar um hvar unnt sé að stunda skógrækt í sátt við náttúru landsins.
VÍN hefur sent öllum sveitarstjórnum landsins bréf um skipulag skógræktar með leiðbeiningum um val á landi til skógræktar. Vonast er til að með þessu verklagi verði hægt að draga úr þeim neikvæðu breytingum sem eru að verða á náttúru landsins vegna óheftrar skógræktar.
Val á landi til skógræktar
Leiðbeiningar VÍN um val á svæðum til skógræktar byggja á mati á verndargildi nokkurra grunnþátta í náttúru og sögu landsins. Við mat á svæðum þarf að líta til þess að verndargildi er metið m.t.t. ólíkra viðfanga, s.s. vistkerfa, tegunda, jarðmyndana og landslags. Það þarf því að skoða samverkan þessara þátta innan hvers svæðis og milli svæða innanlands en einnig með tengingu við umheiminn, þ.e. alþjóðlegt mikilvægi. Í þessu sambandi ber sérstaklega að taka mið af 2. og 3. gr. laga um náttúruvernd þar sem rakin eru verndarmarkmið fyrir annars vegar vistgerðir, vistkerfi og tegundir og hins vegar fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni.
Til að tryggja að tegundir nái að viðhalda sér þarf að vernda náttúruleg búsvæði þeirra. Þetta er eitt af grunnmarkmiðum laganna til að vernda líffræðilega fjölbreytni, en gildir ekki um framandi tegundir hvort sem um er að ræða ágengar tegundir eða ekki. Almennt vinna framandi tegundir gegn ofangreindum markmiðum. Við framangreint bætist að vernda skal menningarminjar og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða eins og segir í lögum um menningarminjar. Rétt er að benda á að leit eftir ráðgjöf skuli hefjast áður en hin eiginlegu lögbundnu ferli fara af stað, svo sem umsagnarferli og leyfisveitingar. Það flýtir fyrir afgreiðslu sveitarstjórna.
Vefsjá VÍN
Á vefsjánni nýtum við meðal annars vistgerðakort Náttúrfræðistofnunar sem verkfæri til að skoða það land sem fyrirhugað er að taka til skógræktar – hvaða vistgerðir séu þar til staðar og hvert verndargildi þeirra sé. Við gerum okkur vel grein fyrir að vistgerðakortið er ekki alltaf nákvæmt og leggjum til í leiðbeiningunum að í leyfisveitingarferlinu verði ávallt sannreynt hvort vistgerðakortið gefi rétta mynd af fyrirhuguðu skógræktarsvæði.
Á vefsjánni birtum við einnig kort af mikilvægum fuglasvæðum, friðlýstum svæðum, náttúruminjum, fornminjum, framræsluskurðakerfi landsins, hverum og fossum og aðgengilegt kort til að afmarka skógræktarsvæði. Ennfremur eru þar ítarlegar leiðbeiningar til skógræktenda um hvernig megi rækta skóg í sátt við náttúru landsins.
Samkeppni um land
Neðan 300 m, þar sem skógræktarskilyrði eru hvað best, er vaxandi samkeppni um land. Þar er nær allt ræktað land sem til er, þéttbýli, frístundabyggð og helstu samgöngumannvirki. Þar eru einnig svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, svo sem votlendi, nútímahraun og hverasvæði og búsvæði margra fuglategunda sem við Íslendingar, samkvæmt alþjóðasamningum, berum ábyrgð á.
Víðsýni er verðmæt náttúruauðlind
Það má fullyrða að Íslendingum almennt þyki mikils um vert að það sé vítt til veggja hér á landi enda er útsýnið oft stórkostlegt. Ferðaþjónusta er ein af þremur mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi. Hlutdeild hennar í þjóðarframleiðslu er um 25%. Vegna ómengaðs og hreins lofts er útsýnið á Íslandi einstakt og líklega er víðsýni ein vanmetnasta auðlind landsins. Síbreytilegt útsýni innan sama dags, milli daga, milli árstíða og landshluta er meðal annars það sem erlendir ferðamenn sækja í að upplifa.
Því miður eru líkur á að ef áform um sívaxandi skógrækt á Íslandi ganga skipulagslítið eftir muni víðsýni á landinu minnka. Með tímanum mun landslag líkjast sífellt meir landslagi annarra landa í barrskógabeltinu. Því þarf að hafa í huga hvernig fyrirhuguð skógrækt muni breyta ásýnd lands og útsýni að 50 til 100 árum liðnum.
Mikilvægt að læra af reynslunni
Reynsla síðustu ára hér á landi og erlendis bendir til þess að trjátegundir sem notaðar eru í stórum stíl í skógrækt, eins og stafafura, séu ágengar og verði illviðráðanlegar þegar tímar líða. Víða erlendis, svo sem í Noregi, Skotlandi og alveg sérstaklega á Nýja-Sjálandi, hefur verið ráðist í kostnaðarsamar aðgerðir til að fjarlægja sitkagreni og furuskóga af stórum landsvæðum. Val á tegundum til skógræktar er því afar mikilvægt og ber að hafa varúðarregluna að leiðarljósi. Öllu máli skiptir að vernda eðlilega framþróun náttúrulegs lífríkis og að vernda sérkenni íslensks landslags, mikilvægar jarðmyndanir og menningarminjar.
Hér á landi hlýtur að koma að því að almenningur geri þá kröfu til stjórnvalda að hætt verði að veita opinberu fjármagni til að gróðursetja ágengar framandi tegundir eins og stafafuru.

Tímabært er að stjórnvöld hætti að kosta ræktun framandi ágengra tegunda er breyta landi ríku af líffræðilegri fjölbreytni í nær lífvana skógarbotn. Ljósm. .Áskell Þórisson.
Lokaorð
Þeim sem fara með skipulagsmál er falin mikil ábyrgð og ákvarðanir þeirra ráða miklu um hvernig vistkerfi og ásýnd landsins mun mótast til framtíðar. Hér að ofan eru dregin saman nokkur atriði sem við hjá Vinum íslenskrar náttúru viljum vekja athygli á. Við leggjumst ekki gegn skógrækt en teljum mikilvægt að menn átti sig á því að með stórfelldri skógrækt, einkum með framandi, hávöxnum trjátegundum, er verið að gerbreyta íslenskri náttúru. Þar skiptir skipulagning gríðarlega miklu máli og að þar sé unnið af vandvirkni og með langtímasjónarmið í huga. Einkunnarorð þessara leiðbeininga okkar eru: Rétt tré á réttum stað.
F.h. stjórnar VÍN.
Sveinn Runólfsson, formaður.