Mynd: Borgþór Magnússon

11. mars 2023 | Sigfús Bjarnason

Samanburður á Skógarkolefni og UK Woodland Carbon Code – Kolefnislosun vegna jarðvinnslu

Greinin var uppfærð 16 mars 2023, sjá viðauka.

Skógarkolefni er gæðastaðall fyrir vottun á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Staðallinn er byggður á breskum staðli – UK Woodland Carbon Code (WCC) – sem Skógræktin aðlagaði að íslenskum aðstæðum.

Með tilkomu íslensks staðals fyrir vottun skógræktarverkefna skapaðist möguleiki fyrir miðlæga skráningu á útgáfu kolefniseininga, viðskiptum með slíkar einingar og afskráningu þeirra þegar þær eru nýttar til kolefnisjöfnunar, eins og Loftslagsráð lagði til í október 2020.

Aðlögun WCC að íslenskum aðstæðum vekur þó nokkrar spurningar um hvað betur mætti fara til að Skógarkolefni geti talist fullgildur staðall með alþjóðlegan gæðastimpil. Í þessum pistli lít ég bara á einn þátt, þ.e.a.s. mat á kolefnislosun úr jarðvegi vegna jarðvinnslu.

Ein af kröfum Skógarkolefnis er að meta skuli losun sem verður vegna röskunar á gróðri og jarðvegi við undirbúning/jarðvinnslu fyrir gróðursetningu. Þessi losun er síðan dregin frá kolefnisbindingu á fyrsta ári. Ekki er nánar fjallað um hvernig þetta mat á að fara fram en talsmenn Skógræktarinnar telja að þessi losun sé oft mjög lítil.

WCC gerir sömu kröfur en notar einnig reiknilíkan til að meta losun vegna jarðvinnslu. Við jarðvinnslu sem svipar til þeirrar sem oft er notuð hér á landi er gert ráð fyrir að 10% af kolefnisforða jarðvegs niður að 30 cm dýpi tapist. Þessa kolefnislosun á að draga frá á fyrsta ári verkefnisins. Í reiknilíkani WCC er ekki reiknað út hve mikið af þessu kolefni binst aftur.

Línuritið hér að neðan sýnir sviðsmynd þar sem kolefnisbinding í skógræktarverkefni í uppsveitum Suðurlands er áætluð með aðferðafræði Skógarkolefnis annars vegar og WCC hins vegar. Markmiðið með þessari sviðsmynd er einungis að sýna mismuninn á aðferðafræðinni. Þessum þætti í kolefnisbúskap skógræktarverkefna þyrfti að bæta inn í aðferðafræði Skógarkolefnis.

Ef útreikningar WCC eru réttari en útreikningar Skógarkolefnis er um nettólosun kolefnis að ræða fyrstu 18-19 árin í þessu dæmi í stað nettóbindingar. Sjá fleiri dæmi í viðaukanum.

Það gæti þó verið vandkvæðum bundið að aðlaga þessa útreikninga WCC að íslenskum aðstæðum vegna skorts á rannsóknum. En þangað til fleiri rannsóknarniðurstöður liggja fyrir verður alltaf hægt að draga í efa útreikninga á heildarbindingu í íslenskri kolefnisrækt. Að mati höfundar er því besta lausnin að nota aðra aðferð sem WCC býður upp á, þ.e.a.s. að mæla nákvæmlega kolefnisforða jarðvegs við upphaf hvers verkefnis og síðan í hvert sinn sem votta á nýjar kolefniseiningar.

Áætluð CO2 binding (tonn á hektara) í skógrækt á grónu mólendi í uppsveitum Suðurlands samkvæmt Skógarkolefnisreikni (meðaltal fyrir alaskaösp, sitkagreni, stafafuru og ilmbjörk) og WCC. Gert er ráð fyrir að kolefnisforði efsta hluta jarðvegs sé 272 tonn á hektara eða sem mótsvarar um 1000 tonnum CO2.

Heimildir

 1. Skógarkolefni
 2. Skógarkolefni – Skilyrði fyrir kolefnisbindingu með skógrækt til vottunar (PDF bæklingur)
 3. Skógarkolefnisreiknir
 4. Álit Loftslagsráðs um ábyrga kolefnisjöfun – október 2020 (PDF skjal)
 5. UK Woodland Carbon Code (WCC)
 6. UK Woodland Carbon Code: The Standard Version 2.2 – April 2022 (PDF bæklingur)
 7. Woodland Carbon Code – Standard and Guidance –– Carbon in the soil
 8. WCC Carbon Calculation Guidance V2.4 March 2021 (PDF skjal)
 9. Soil Carbon and the Woodland Carbon Code (PDF skjal)
 10. WCC Carbon Calculation Spreadsheet V2.4 March 2021 (Excel skjal)
 11. Tool for estimation of change in soil organic carbon stocks due to the implementation of A/R CDM project activities

Viðauki – Útreikningar og fleiri sviðsmyndir

Við gerð línuritsins hér að ofan var Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar notaður til að reikna áætlaða kolefnisbindingu í trjám á hverju ári í 50 ár og síðan var reiknuð uppsöfnuð binding.

 • Svæði: Uppsveitir Suðurlands
 • Hæðarbil: 0-150 m
 • Meðaltal fyrir alaskaösp, sitkagreni, stafafuru og ilmbjörk
 • Vel gróið þurrlendi
 • Enginn áburður

Tölurnar á Skógarkolefnisreikninum innihalda einnig 1,3 tonna CO2 binding í jarðvegi á hektara og ári, sem bætt er við áætlaða bindingu í trjám.

Línan fyrir UK Woodland Carbon Code var reiknuð með því að draga 100 tonn CO2 frá þessu tölum á fyrsta ári og engar aðrar breytinga gerðar (þ.e.a.s 1,3 tonna CO2 bindingu í jarðvegi er bætt við öll 50 árin).

UK Woodland Carbon Code notar eftirfarandi lista til að áætla losun vegna mismunandi jarðvinnsluaðferða, sem á að draga frá á fyrsta ári. Tölurnar eru prósent af kolefnisforða jarðvegs í organo-mineral soils – topsoil 0-30 cm.

 • Hand screefing: 0%
 • Drains at 250m/ha – 360° excavator with a draining bucket: 5%
 • Drain mounding – 360° excavator with a drainage bucket: 5%
 • Trench mounding + drains @250m/ha – 360° excavator: 5%
 • Turfing – Double throw rotary mouldboard, shallow, plough: 10%
 • Patch scarification: 10%
 • Turfing – Double throw mouldboard, shallow, plough: 10%
 • Disc trencher/scarifier: 10%
 • Turfing – Double throw mouldboard, deep, plough: 20%
 • Turfing – Single throw mouldboard plough: 20%
 • Tine – Double throw mouldboard plough: 20%
 • Tine – Single throw mouldboard plough: 20%
 • Agricultural ploughing: 40%

Náttúrulega er ekki er hægt að færa þessar bresku tölur beint yfir á íslenskar aðstæður og ekki er til nóg af íslenskum gögnum til að geta með vissu valið prósentustig fyrir íslensku aðferðafræðina. Í öðrum sviðsmyndum, með öðrum prósentutölum, er fjölda ára þangað til kolefnisbinding trjánna hefur vegið upp kolefnislosun jarðvegs eftirfarandi:

 • Losun á 5% kolefnisforðans: 13 ár
 • Losun á 2.5% kolefnisforðans: 9 ár
 • Losun á 1% kolefnisforðans: 6 ár

Í fyrstu útgáfunni af þessari grein var kolefnisbindingu í jarðvegi bætt við WCC tölurnar í samræmi við reiknilíkan UNFCCC Clean Development Mechanism (CDM) í staðinn fyrir að bæta við þeirri kolefnisbindingu sem Skógarkolefnisreiknirinn reiknar með. Þessu var breytt til að betur sýna eingöngu muninn á Skógarkolefni og WCC hvað varðar mat á kolefnislosun vegna jarðvinnslu.