Mynd: Sigurður H. Magnússon

19. janúar 2023 | Sigurður H. Magnússon og Hans H. Hansen

Skógrækt á Íslandi – hversu stór svæði eru tiltæk fyrir nýja skóga?

Niðurstaða höfunda þessarar greinar bendir til þess að neðan 300 m hæðarmarka séu að hámarki 13.000 ferkílómetrar lands þar sem hugsanlega mætti rækta skóg og er þá ekki tekið tillit til hvaða tegundir (framandi eða innlendar) eru notaðar. Við matið var reynt að taka tillit til margs konar landnýtingar og verndunar. Það er hins vegar ljóst að matið er mjög takmarkað. Kemur þar margt til. Ekki var reynt að meta áhrif skógræktar á búsvæði ábyrgðartegunda fugla, eða áhrif skógræktar með framandi tegundum á landslag og ásýnd lands, á menningarminjar, áhrif á búsvæði plantna og dýra eða á líffræðilega fjölbreytni. Allir þessir þættir geta breyst verulega við skógrækt. Það er því ljóst að margt er enn óunnið en jafnframt að land til skógræktar er aðeins hluti þessara 13.000 km2. Hversu stór er enn óþekkt.

Inngangur

Það dylst fáum sem kynnt hafa sér gróðursögu landsins að verulegar breytingar hafa orðið á gróðri frá landnámi. Talið er að landið hafi þá verið gróið að stórum hluta og birkiskógur eða kjarr hafi þakið um 24.000 km2. Skóginum var eytt á nokkrum áratugum en mólendi og graslendi stækkaði. Með tímanum hófst mikil gróður- og jarðvegseyðing og melar og annað lítt gróið land jókst verulega. Nú er birkiskóg og kjarr einungis að finna á um 1.500 km2.

Á síðustu áratugum hefur gróður breyst enn á ný og má rekja það til breyttra beitarhátta, hlýnandi veðurfars, aukinnar landgræðslu, skógræktar og til þéttbýlismyndunar. Sýnilegasta breytingin er að öllum líkindum aukinn trjágróður. Þessar breytingar sjást mjög víða, einkum á láglendi.

Nú eru uppi mikil áform um að stækka skóga landsins þar sem megináhersla er að auka bindingu kolefnis með skógrækt. Áætlað er að auka flatarmál birkiskóga verulega á næstu árum en einnig skóga með framandi tegundum, þá einkum stafafuru, sitkagreni, lerki og alaskaösp (Land og líf – ágúst 2022).

Í þessari grein er gerð tilraun til að meta gróflega stærð og staðsetningu þeirra svæða sem helst koma til greina til skógræktar. Byggt er á vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar Íslands. 2. útg. des. 2018. Gefnar eru þrjár sviðsmyndir þar sem mismunandi skilyrði um val á landi eru sett fram.

Hlutfallstölur

Skógræktarmenn hafa gjarna lagt mikla áherslu á hversu litlir skógar landsins séu. Þeir nefna að heildarþekja náttúrlegra og ræktaðra skóga sé aðeins um 2.000 km2 sem sé einungis um 2% af flatarmáli landsins. Það er vissulega rétt að skógar á Íslandi eru ekki víðáttumiklir. Þó virðist sem menn geri hér vísvitandi sem minnst úr núverandi skógarþekju. Skógur verður aldrei ræktaður á jöklum eða í ám og vötnum. Þar að auki verður varla mikill skógur ræktaður á stærstum hluta hálendisins við núverandi aðstæður. Það er því í hæsta máta villandi að miða við heildarflatarmál landsins. Mun réttara væri að miða við það land þar sem skógur fær þrifist. Þá má nefna að í þeim tölum um skógarþekju sem Skógræktin gefur upp er hvorki talin trjárækt í þéttbýli né við frístundabyggð og ekki heldur skjólbelti meðfram vegum, við tún og akra eða tré við bændabýli. Það má því fullyrða að heildarskógarþekja landsins sé vanmetin.

Samkeppni um land 

Aðstæður í landinu eru hins vegar gjörbreyttar frá því sem var við landnám. Þótt gróðurskilyrði séu nú hugsanlega nokkuð svipuð er mikið af því landi sem áður var skógi vaxið nýtt til annars nú á dögum, svo sem undir tún og akra, sem beitiland eða undir ýmiss konar mannvirki, svo sem vegi og byggingar. Við skógrækt þarf einnig að taka tillit til fleiri takmarkandi þátta eins og kemur fram í lögum um náttúruvernd. Má þar nefna þjóðgarða og mörg önnur friðlýst svæði þar sem skógrækt með framandi tegundum er óheimil. Nokkur vistkerfi og jarðminjar njóta einnig sérstakrar verndar, eins og votlendi, eldvörp, eldhraun, gervigígar og hraunhellar, einnig fossar og nánasta umhverfi þeirra, svo og hverir og aðrar heitar uppsprettur. Í lögunum er tiltekið að vernda þurfi bakkagróður þannig að sem minnst röskun verði við bakka og næsta umhverfi vatna. Sömuleiðis er tekið fram að markmið laganna sé að vernda til framtíðar líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Það ber einnig að stuðla að viðgangi svokallaðra ábyrgðartegunda (fuglar) vegna þess að stór hluti útbreiðslusvæðis þeirra í Evrópu- eða á heimsvísu er hér á landi. Ljóst er að skógrækt getur haft veruleg áhrif á minjar og menningarlandslag sem við plöntun trjágróðurs getur spillst verulega.

Á undanförnum árum hafa nokkur sveitarfélög flokkað land eftir hæfni til ræktunar og gefnar hafa verið út leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands. Tilgangur þessa er að hafa möguleika á að skipuleggja landnotkun en land sem er vel fallið til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmæt auðlind. Mikilvægt er að slíku landi sé ekki ráðstafað til annarra nota, svo sem til skógræktar.

Hvar á að rækta nýja skóga?

Þau svæði landsins sem helst koma til greina til skógræktar eru flest neðan við 400 m hæðarmörk. Birki getur vissulega vaxið ofar, einkum þar sem skilyrði eru best. Við ræktun skóga með framandi tegundum er sennilega réttara að miða við 300 m hæðarlínu, enda eru flest slík skógræktarsvæði neðan þeirra marka.

Aðferðir

Til þess að meta stærð og staðsetningu lands til skógræktar neðan 300 m hæðarmarka voru sett fram ákveðin skilyrði, misjöfn eftir sviðsmyndum (1. tafla).

Í sviðsmynd I voru undanskilin svæði þar sem skógrækt er ekki möguleg, svo sem á jöklum eða í ám og vötnum en einnig vistgerðir þar sem vaxtarskilyrði til trjáræktar eru erfið eins og í eyravist (blautar áreyrar), í skriðum og klettum og í eyðihraunavist. Þá voru einnig undanskildar strandvistgerðir (nema grashólavist) en í flestum strandvistgerðum eiga tré erfitt uppdráttar, einkum vegna seltu og óstöðugleika yfirborðs. Einnig voru ýmsar vistgerðir og svæði undanskilin sem njóta verndar með einhverjum hætti, svo sem votlendi (ath. hrossanálarvist var ekki undanskilin), hverasvæði og friðlýst svæði (nema fólkvangar). Að lokum var undanskilið land sem annað hvort er nú þegar vaxið skógi, nýtt undir skógrækt, tilheyrir þéttbýli eða er nýtt sem tún eða akurlendi. Svæði vaxin lúpínu voru hins vegar ekki undanskilin því að skilyrði til skógræktar eru þar víða góð.

Í sviðsmynd II eru til viðbótar undanskildar vistgerðir sem flokkast undir mela og sandlendi en einnig moldir en á þess konar landi eru vaxtarskilyrði trjáa víða erfið. Þá voru einnig undanskildar fléttuhraunavist og mosahraunavist en þessar vistgerðir eru í mörgum tilfellum á nútímahraunum og njóta því sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Í sviðsmynd III er gerð tilraun til að taka frá besta landbúnaðarlandið. Miðað var við land undir 100 m hæðarmörkum þar sem landhalli er frekar lítill, eða <5° og þar sem land tilheyrði annað hvort mólendi eða graslendi.

Tafla 1. Yfirlit yfir þrjár sviðsmyndir um land til skógræktar undir 300 m hæðarmörkum. Miðað er við að allt land komi til greina til skógræktar nema það sem er sérstaklega undanskilið. Meginröksemdir fyrir því að land er undanskilið eru gefnar í hverju tilviki.

Vistlendi/Vistgerðir
/Landgerðir
Röksemdir
Sviðsmynd I – undanskilið er
Skriður og klettarVaxtarskilyrði erfið 
Hélumosavist Vaxtarskilyrði erfið 
Eyravist (blautar áreyrar) Vaxtarskilyrði erfið 
Eyðihraunavist Vaxtarskilyrði erfið, auk þess sem vistgerðin tilheyrir eldhraunum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum 
Strandlendi, nema grashólavist Vaxtarskilyrði erfið. Grashólavist er yfirleitt nokkuð frá sjó og er ákveðið framvindustig gróðurs við strönd. Vistgerðin var álitin koma til greina til skógræktar 
Votlendi, nema hrossanálarvist Vaxtarskilyrði trjáa erfið, auk þess sem votlendi nýtur sérstakrar verndar. Hrossanálarvist er á mörkum votlendis og þurrlendis og því var skógrækt talin koma þar til greina 
Skóglendi Land vaxið trjágróðri 
Hverasvæði Vaxtarskilyrði erfið, gróður sérstæður. Hverir njóta sérstakrar verndar 
Jöklar Vaxtarskilyrði ekki til staðar 
Aðrar landgerðir (þéttbýli, tún og akurlendi, skógrækt), nema lúpína Land ýmist nýtt til skógræktar eða með öðum hætti. Lúpínusvæði ekki undanskilin en þar eru skógræktarskilyrði víða góð 
Friðlýst svæði, nema fólkvangar Um er að ræða þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti og sérstök búsvæði. Fólkvangar eru útivistarsvæði fyrir almenning þar sem skógrækt er yfirleitt heimil. Ath. stærstu friðlýstu svæðin eru ofan 300 m. Við útreikning var miðað við kort yfir friðlýst svæði frá því í okt. 2021 
Sviðsmynd II – sama og II nema undanskilið er
Melar og sandlendi, moldir Vaxtarskilyrði erfið 
Fléttuhraunavist, mosahraunavist Vistgerðirnar eru yfirleitt á nútímahraunum sem njóta sérstakrar verndar 
Sviðsmynd III – sama og II nema undanskilið er
Graslendi og mólendi undir 100 m, halli <5° Landbúnaðarland 

Niðurstöður

Samkvæmt vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar er heildarstærð landsins 103.618 km2 (1. mynd, vistgerdakort.ni.is). Heildarflatarmál lands neðan við 300 m hæðarmörkin er 34.113 km2 (2. mynd). Þar af er birkiskógur 1.407 km2 og ræktaður skógur 468 km2.

Sviðsmyndirnar þrjár um land til skógræktar gefa mjög misjafna niðurstöðu. Sviðsmynd I gefur yfirlit yfir nánast allt tiltækt land til skógræktar miðað við þær forsendur sem gefnar eru. Alls eru þetta 19.634 km2 (3. mynd). Einna stærstu svæðin eru á Suðvesturlandi, Suðurlandi og á Norðausturlandi.

Frekari takmarkanir koma fram á sviðsmynd II, en miðað við sviðsmynd I falla út hraunavistir, melar og sandlendi og moldir. Heildarflatarmál er þá komið niður í tæplega 17.000 km2 (4. mynd). Samkvæmt þessu eru stærstu mögulegu skógræktarsvæðin á Suðurlandi og Norðausturlandi.

Ef reynt er að taka frá einna besta landbúnaðarlandið breytist myndin verulega. Heildarflatarmál er þá komið niður í um 13.000 km2 (5. mynd). Stórir hlutar af láglendissvæðum á Suðvesturlandi falla út en stærstu svæðin sem nota mætti til skógræktar eru samkvæmt þessu á Norðausturlandi og í Skaftafellssýslum.

Lokaorð

Niðurstaða okkar bendir til þess að undir 300 m hæðarmörkum séu um 13.000
km2 sem helst geta komið til greina til skógræktar og er þá ekki tekið tillit til
hvaða tegundir (framandi eða innlendar) eru notaðar.

Þótt undanskilið hafi verið land sem nú þegar er nýtt með öðrum hætti svo
sem undir þéttbýli, frístundabyggð, landbúnað eða verið verndað með
einhverjum hætti er margt ótalið sem þarf að taka tillit til. Á þessum svæðum
neðan 300 m eru, t.d. víðáttumikil búsvæði ýmissa fuglategunda sem Ísland
ber sérstaka ábyrgð á sem geta orðið fyrir miklum áhrifum við skógrækt.
Skógrækt, einkum með framandi tegundum, gerbreytir landslagi og ásýnd
lands og mun því hafa gríðarleg áhrif á það menningarlandslag sem Ísland er
þekkt fyrir. Þá má einnig fullyrða að skógrækt hafi mikil áhrif á vistgerðir og
búsvæði planta og dýra og á líffræðilega fjölbreytni sem okkur ber að standa
vörð um. Sömuleiðis er hætta á að ýmsar minjar sem hér finnast í jörðu, eins
og húsarústir og garðlög sé viss hætta búin.

Það er því ljóst að við ræktun nýrra skóga þarf að fara fram með mikilli gát.
Áður en hafist er handa er nauðsynlegt að skipuleggja aðgerðir mjög
vandlega. Þar eiga ekki aðeins áhugamenn um skógrækt að ráða för heldur
ekki síður þeir sem þekkingu og skilning hafa á þeim þáttum sem hér hafa
verið nefndir. Þá er mikilvægt að nota ekki tegundir sem gæti reynst erfitt að
hemja. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa varúðarregluna að leiðarljósi.

Þótt niðurstaða okkar bendi til þess að neðan 300 m hæðarlínu séu um
13.000 km2 sem hugsanlega megi nota til skógræktar teljum við að
raunverulegt flatarmál sé aðeins hluti þessara svæða. Hversu stór er enn
óþekkt.

Mynd 1. Vistgerðakort af Íslandi (103.618 km2)

Mynd 2. Ísland. Land undir 300 m merkt með svörtum lit. (34.113 km2).

Mynd 3. Sviðsmynd I. Land tiltækt til skógræktar neðan 300 m hæðarmarka, merkt með svörtum lit. Undanskilið: sjá skýringu við mynd og 1. töflu.

Mynd 4. Sviðsmynd II. Land neðan 300 m mögulegt til skógræktar merkt með svörtum lit. Undanskilið: sjá skýringu við mynd og 1. töflu.

Mynd 5. Sviðsmynd III. Land til skógræktar neðan 300 m hæðarmarka, merkt með svörtum lit. Hér hefur verið gerð tilraun til að taka frá einna besta landbúnaðarlandið. Sjá nánar skýringu við mynd og 1. töflu.