Fallegur birkiskógur

Birkiskógur í góðu ástandi. Skógrækt sem miðar að endurheimt vistkerfis getur haft marvgíslegan samfélagslegan ávinning og er árangursrík langtímaaðgerð í loftslagmálum. Mynd: Borgþór Magnússon

21. október 2023 | Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Skógrækt er ekki alltaf sjálfsögð sem loftslagsaðgerð

Þessi grein birtist upprunalega í Heimildinni 20. október 2023.

Aðgerðir í loftslagsmálum eru aðkallandi. Þó að allra brýnast sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þarf einnig að huga að leiðum sem auka kolefnisbindingu. Skógrækt er ein þeirra aðgerða sem hefur verið haldið á lofti sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum og vissulega getur hún verið liður í þeim aðgerðum, en þar er að mörgu að hyggja. Ef ekki er rétt að málum staðið er hætt við að ný og oft ófyrirséð vandamál skapist. Skógrækt sem loftslagsaðgerð er því ekki sjálfsögð hvar og hvernig sem er. 

Áður en lengra er haldið er rétt að draga upp stóru myndina.

Stóra hnattræna myndin 

Líffræðileg fjölbreytni er breytileiki alls lífs, allt frá erfðafræðilegum breytileika lífvera til breytileika meðal búsvæða og vistkerfa, og er því grunnurinn að tilvist mannkyns hér á jörð. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir gífurlegu tapi líffræðilegrar fjölbreytni vegna ofnýtingar náttúruauðlinda, hnignunar vistkerfa, mengunar, ágengra tegunda og síðast en ekki síst vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Framtíð mannkyns hér á jörð er því ógnað ef ekkert verður að gert. Það er því gott til þess að hugsa að í nafni Sameinuðu þjóðanna hafa verið gerðir þrír samningar sem miða að samhæfðum aðgerðum þjóða heims til bregðast við vandanum. Þetta eru samningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni (UNCBD), loftslagssamingurinn (UNFCCC), og eyðimerkursamningurinn (UNCCD) um verndun og endurheimt landgæða fyrir sjálfbæra framtíð mannkyns. Samningarnir þrír eiga í innbyrðis samskiptum og á Ísland aðild að þeim öllum.

En það er flókið að takast á við þessi víðfeðmu vandamál og finna viðunandi lausnir til að vernda líffræðilega fjölbreytni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stöðva landeyðingu, því þar koma saman ólíkir hagsmunir þjóða og þjóðfélagshópa, nokkuð sem við finnum einnig fyrir hér í okkar litla landi. Þess vegna miðar okkur hægt. Hér læt ég nægja að nefna að í desember n.k. verður haldinn 28. fundur loftslagssamningsins, en þrátt fyrir alþjóðlega samninga er losun gróðurhúsalofttegunda enn að aukast, bæði hér á landi og hnattrænt.

Bruni jarðefnaeldsneyta stendur fyrir langstærstum hluta árlegrar losunar gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, en um um 14–20% losunarinnar orsakast af margvíslegri ósjálfbærri landnýtingu. Vistkerfi sjávar og lands binda nú þegar ríflega 50% af árlegri losun og þá er eðlilegt að spyrja hvort ekki megi auka þá bindingu enn frekar. Í hnattrænu samhengi er svigrúm til aukinnar vistkerfisbindingar hins vegar takmarkað vegna eðlis- og vistfræðilegra þátta. Því er mun vænlegra til árangurs að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvort sem það er gert með minni brennslu jarðefnaeldsneyta eða stöðvun losunar frá skemmdum vistkerfum á landi. Aukin binding kolefnis í vistkerfum verður því alltaf eins konar „bónus“ frekar en töfralausn loftslagsvandans.

Aðgerðir sem beinast að því að ýmist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vistkerfum eða auka vistkerfisbindingu, m.a. með skógrækt, gætu almennt fallið undir svo kallaðar náttúrumiðaðar lausnir (e. nature-based solutions, NbS)1

Náttúrumiðaðar lausnir og loftslagsváin 

Náttúrumiðaðar lausnir felast í náttúruvernd, sjálfbærri nýting auðlinda og endurheimt náttúrulegra og umbreyttra vistkerfa, sem miða að því að takast á við samfélagslegar áskoranir á borð við loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir, og tryggja þar með velferð mannsins og verndun líffræðilegrar fjölbreytni (skilgreining Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, IUCN)2. Á síðustu áratugum hefur verið lögð ríkari áhersla á náttúrumiðaðar lausnir í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum því samtímis stuðla þær að verndun líffræðilegrar fjölbreytni og leiða til bætts ástands vistkerfa og auka mannlega hagsæld. Rannsóknir sýna að hagkvæmustu og árangursríkustu lausnirnar til að stemma stigu við vistkerfislosun gróðurhúsalofttegunda og auka vistkerfisbindingu eru vernd óraskaðra vistkerfa, góð nýtingarstjórnun lands og endurheimt náttúruskóga og votlendis1,3. Hafa ber í huga að náttúrumiðaðar lausnir eru langtímalausnir í loftslagsmálum, því það tekur yfirleitt langan tíma að ná varanlegum árangri. 

Losun frá landi er hlutfallslega mikil hérlendis og því álitlegt að beita náttúrumiðuðum lausnum sem loftslagsaðgerð. Það er hins vegar margt að varast því veruleg hætta er á að aðgerðir hafi öfug áhrif til lengri tíma litið ef ekki er rétt að þeim staðið, og á það jafnt við skógrækt og aðrar aðgerðir2. Það er eðlilegt að bændur sem eru að hverfa frá hefðbundnum búskap reyni að afla tekna af jörðum sínum með öðrum hætti. Hingað til hefur skógrækt með ríkisstyrkjum verið ein af tekjulindum þeirra. Með tilkomu kolefnismarkaða eygja sumir enn frekari tekjumöguleika, og geta því freistast til að gróðursetja hraðvaxta framandi trjátegundir í fullkomlega heilbrigð og kolefnisrík vistkerfi sem eru að binda kolefni og geyma mikla líffræðilega fjölbreytni. Afleiðingin verður aukin losun fyrstu árin og aftur eftir nokkra áratugi þegar skógur fer að eldast. Auk þess tapast líffræðilegri fjölbreytni oft langt út fyrir sjálfan skógræktarreitinn. Hér þurfa stjórnvöld því að huga að betri beitingu efnahagshvata til bænda og landeigenda svo aðgerðir þeirra samræmist betur náttúrumiðuðum lausnum. 

Jarðvegur beraður. Skógrækt í nafni loftslags á vel grónu landi hefst oftast á herfingu gróðurþekjunnar á stórum mælikvarða þar sem lífrænn jarðvegur er beraður. Afleiðingin verður aukin heildarlosun koltvísýrings sem tekur all mörg ár að vega upp auk taps á líffræðilegri fjöllbreytni. Mynd Sigurður H. Magnússon

Til að stemma stigu við rangri beitingu náttúrumiðaðra lausna settu IUCN fram staðla til að leiðbeina stjórnvöldum og hagsmunasamtökum um hvernig tryggja megi sem bestan samfélagslegan árangur, og hafa þessir staðlar öðlast almenna alþjóðlega viðurkenningu1,2. Í fyrsta lagi þarf að skilgreina þær áskoranir sem takast þarf á við og meta umfang vandans sem á að leysa. Beita á sjálfbærniviðmiðum, þar með talið vistkerfisnálgun og greina nauðsynlegar málamiðlanir. Einnig þarf að tryggja sífellda endurskoðun aðferða í ljósi nýrrar þekkingar (e. adaptive management) og, að lokum, tryggja að lausnirnar samræmist stefnumörkun stjórnvalda og alþjóðlegum samningum. 

Skógrækt sem loftslagsaðgerð 

Vísindamenn hafa varað við þeirri ofuráherslu sem lögð hefur verið á skógrækt til kolefnisbindingar1,3. Eitt helsta áhyggjuefnið er að þetta leiði athyglina frá nauðsyn þess að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis auk þess sem aukin skógrækt í nafni loftslagsaðgerða kunni að ganga á kolefnisrík og fjölbreytt náttúruleg vistkerfi. Með tilkomu kolefnismarkaða, ekki síst valkvæðs markaðar, eykst hættan enn frekar þar sem þau gildi sem falla undir náttúrumiðaðar lausnir eru sjaldnast vegin inn í kolefniseiningarnar.

Ræktun skóga getur haft margvísleg markmið og ef skógrækt á að samræmast stöðlum náttúrumiðaðra lausna þarf að byrja á því að skilgreina markmiðin vel. Rétt tré þarf að vera á réttum stað. Það er því afar óheppilegt að fjalla um alla skógrækt undir einum hatti eins og oftast er gert hér á landi. Markmiðin verða óljós, sjálfbærniviðmið og vistkerfisnálgun ómarkviss og þar af leiðandi ekki hugað að nauðsynlegum málamiðlunum eða endurskoðun aðferða sem eykur hættuna á að skógræktin samræmist illa alþjóðlegum viðmiðum og samningum.  Stundum fer vel að sameina fleiri en eitt skógræktarmarkmið en það gerir þá enn ríkari kröfu um að þau markmið séu vel skilgreind í upphafi. Skoðum aðeins nánar hver þessi mismunandi markmið skógræktar eru og hvernig þau nýtast sem loftslagsaðgerð.

Framandi tegundir . Skógrækt í nafni loftslags fer oftast fram með einrækt framandi trjátegunda sem skapar einsleit vistkerfi. Ef notaðar eru tegundir sem reynast ágengar eins og t.d. stafafura hefur það neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni langt út fyrir skógræktarreitinn. Mynd Sigurður H. Magnússon

Skógrækt sem miðar að endurheimt vistkerfis samræmist almennt vel náttúruvernd, getur haft marvíslegan samfélagslegan ávinning og er árangursrík langtímaaðgerð í loftslagmálum. Vegna ósjálfbærrar landnýtingar fyrri alda eigum við verk fyrir höndum hérlendis við endurheimt illa farinna og hruninna vistkerfa, m.a. skóga. Endurheimt stöðvar losun gróðurhúsalofttegunda úr skemmdum vistkerfum og góð aldursdreifing trjáa með náttúrulegri nýliðun eykur líffræðilega fjölbreytni og bindingu kolefnis í vistkerfinu til lengri tíma bæði ofan jarðar og neðan. 

Annað skógræktarmarkmið er ræktun útivistarskóga í nálægð við þéttbýli. Ávinningurinn er fyrst og fremst félagslegur, en útivistarskógar geta einnig haft jákvæð áhrif á loftslag og líffræðilega fjölbreytni ef vel er að staðið. 

Skógrækt sem hefur það að markmiði að framleiða timbur eða aðrar viðarafurðir mætti flokka sem eina grein landbúnaðar og getur tæplega talist sem bein loftslagsaðgerð. Staðsetning og umhirða slíkra skóga þarf að samræmast stöðlum um sjálfbæra nýtingu lands sem felur m.a. í sér að losun gróðurhúsalofttegunda verði ekki umfram bindingu t.d. þegar afurðir eru nýttar. Enn fremur þurfa skógarnir að falla inn í heildarskipulag lands innan hvers sveitarfélags í sátt við aðra ræktun, t.d. til matvælaframleiðslu. Tryggja þarf að skógurinn ógni ekki líffræðilegri fjölbreytni stærri svæða m.a. með því að nota ekki ágengar tegundir sem gætu dreifst út fyrir ræktunarsvæðið. 

Skógrækt sem hefur það beinlínis að markmið að binda kolefni og framleiða kolefniseiningar er hins vegar gífurlega vandasamt að samræma stöðlum um náttúrumiðaðar lausnir. Slík skógrækt er því ekki sjálfsögð sem loftslagsaðgerð. 

Af hverju er skógrækt sem loftslagsaðgerð ekki sjálfsögð hér á landi? 

Skógrækt í nafni loftslags fer yfirleitt fram án þess að fullnægjandi úttekt sé fyrst gerð á ástandi landsins, sem fælist í mælingum á hve mikið kolefni er þegar bundið í gróðri og jarðvegi og hvort auka megi bindingu með einfaldari aðgerðum, úttekt á þeirri líffræðilegu fjölbreytni sem vistkerfin hafa að geyma og mati á víðtækari afleiðingum skógræktarinnar, m.a. fyrir búsvæði mófugla. Þess vegna er skógrækt sem loftslagsaðgerð ekki sjálfsögð.

Skógrækt í nafni loftslags á vel grónu landi hefst oftast á herfingu gróðurþekjunnar þar sem lífrænn jarðvegur er beraður. Afleiðingin verður aukin heildarlosun koltvísýrings. Hér á landi eru ekki til áreiðanlegar tölur yfir hver nettó-losunin getur orðið, en ef litið er til upplýsinga erlendis frá getur það tekið allmörg ár áður en gróðursett tré hafa bundið jafn mikið kolefni og losnaði við jarðvinnsluna. 

Skógrækt í nafni loftslags fer oftast fram með einrækt framandi trjátegunda sem skapar einsleit vistkerfi með einsleitri aldursdreifingu trjáa sem dregur úr líffræðilegri fjölbreytni ekki síst á stórum mælikvarða, eykur líkur á áföllum eins og skógareldum og sjúkdómum, leiðir til samtíma öldrunar alls skóglendisins og minnkandi bindingar eftir nokkra áratugi. Hún getur að lokum náð því marki að losun vegna öndunar yfirstígi bindingu með ljóstillífun. Þess vegna er skógrækt sem loftslagsaðgerð ekki sjálfsögð.

Skógrækt í nafni loftslags hér á landi fer fram að stórum hluta með tegundum sem eru ágengar í nágrannalöndum okkar og víðar um heim (t.d. stafafura). Notkun slíkra tegunda dregur ekki einungis úr líffræðilegri fjölbreytni sjálfs skógræktarlandsins heldur ógnar einnig öðrum búsvæðum langt út fyrir skógræktarreitinn. Við okkur blasir að við þurfum í náinni framtíð að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að hefta útbreiðslu stafafuru til verndar náttúrulegum vistkerfum.

Skógrækt í nafni loftslags með umfangsmikilli notkun framandi tegunda breytir ásýnd landsins úr opnu fjölbreyttu landi í einsleitan þéttan og lokaðan skóg, oftast barrskóg. Að stuðla að frekari útbreiðslu barrskóga hér á landi, einnar víðfeðmustu vistgerðar Jarðar, á kostnað vistgerða sem hafa fengið að þróast hér frá lokum ísaldar við einstakar aðstæður eldvirkni, jarðhita og jökla og síðan mótast af búsetu mannsins í þúsund ár, er ógn við líffræðilega fjölbreytni, ekki einungis hér á landi heldur einnig í hnattrænu samhengi. Þess vegna er skógrækt sem loftslagsaðgerð ekki sjálfsögð.

Niðurlag

Ég skora á yfirvöld og sveitarfélög að endurskoða aðgerðaráætlanir sínar og skipulag um landnýtingu með það í huga að stöðva ósjálfbæra skógrækt í nafni loftslags. Í þeirri vinnu hvet ég þau til að beita stöðlum náttúrumiðaðra lausna sem felast m.a. í vistkerfisnálgun. Enn fremur hvet ég stjórnvöld og  sveitarfélög til að huga að öðrum náttúrumiðuðum lausnum en skógrækt, því eins og bent var á í upphafi er stöðvun vistkerfislosunar aðkallandi. Þar er efst á blaði endurheimt votlendis en einnig endurheimt annarra illa farinna vistkerfa vegna ósjálfbærrar nýtingar lands. Þá mætti huga að efnahagslegum hvötum fyrir þannig lausnir.  Að lokum þarf að leggja ríkari áherslu á sjálfbæra nýtingu lands með bættri nýtingarstjórnun hvort sem um er að ræða ræktun, þar með talin nytjaskógrækt, eða búfjárbeit. Það mun hafa jákvæð áhrif á loftslag.

Höfundur er prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.

  1. Seddon, N. Og fleiri 2021. Getting the Message Right on Nature-Based Solutions to Climate Change. Global Change Biology 27 (8): 1518–46. https://doi.org/10.1111/gcb.15513.
  2. IUCN 2020. Standards for nature based soulutions. https://portals.iucn.org/library/sites/library/files/documents/2020-020-En.pdf
  3. Girardin, Cécile A.J., Stuart Jenkins, Nathalie Seddon, Myles Allen, Simon L. Lewis, Charlotte E. Wheeler, Bronson W. Griscom, and Yadvinder Malhi. 2021. “Nature-Based Solutions Can Help Cool the Planet – If We Act Now.” Nature 593 (7858): 191–94. https://doi.org/10.1038/d41586-021-01241-2.