Mynd: Sigurður H. Magnússon

6. júní 2023 | Sigurður H. Magnússon

Skaflar á nokkrum vegum í Árnessýslu

Hinn 20. desember 2022 ók ég um nokkra vegi í Árnessýslu til að kanna hvar snjór hefði
einkum safnast fyrir. Þá hafði verið mikill skafrenningur á landinu sem staðið hafði í nokkra daga, einkum á Suðvesturlandi og Suðurlandi. Þessa daga hafði vegum því víða verið lokað, aðallega í neðri hluta Árnessýslu og á Reykjanesskaga.

Þótti mér áhugavert að kanna hvar og við hvaða aðstæður hefði dregið í skafla. Hér að
neðan sést hvaða vegi ég kannaði en alls skoðaði ég um 95 km af vegum. Rétt er að taka fram að þetta eru vegir sem ekki höfðu verið hreinsaðir mjög vandlega og því var unnt að greina skafla við veg og á vegi. Ég skoðaði einnig vegi nær Selfossi en þar var búið að hreinsa snjó og/eða ýta honum það mikið út að ég treysti mér ekki til að greina hvar skaflar hefðu myndast.

Aðferðir

Fór ég fyrst frá Flúðum eftir Skeiða- og Hrunamannavegi (vegur 30) að Laugarási eftir Skálholtsvegi (vegur 31). Vegurinn var greiðfær nema á tveimur stöðum á Skálholtsvegi, þ.e. við Reyki á Skeiðum og á hæð sunnan við Iðu í Biskupstungum. Verið var að hreinsa veginn við Iðu og þurfti ég að bíða í stutta stund meðan verið var að ryðja braut í gegnum skaflinn. Seinna um daginn fór ég frá Flúðum eftir Bræðratunguvegi (vegur 359) um brúna á Hvítá við Grámel og yfir Tungufljót við Pollengi og síðan upp Biskupstungur eftir Biskupstungnabraut (vegur 35) upp að Múla. Þaðan fór ég eftir Laugarvatnsvegi (vegur 37) vestur undir Brúará og eftir Reykjavegi (vegur 355) að Biskupstungnabraut við Torfastaði. Þaðan ók ég um Reykholt að Bræðratunguvegi þar sem ég snéri við og ók til baka eftir Biskupstungnabraut að Soginu

Á þessum leiðum kannaði ég hvar skafla var að finna á og við veginn og tók ljósmyndir á hverjum stað. Reyndi ég jafnframt að meta hvað hefði valdið því að dregið hafði í skafla. Rétt er að nefna að á ferð minni að Laugarási um morguninn tók ég ekki myndir af sköflum því að ekki var orðið bjart á þeim tíma en það gerði ég hins vegar síðar um daginn. Á kortinu sem hér fylgir sést hvaða vegir voru kannaðir (1. mynd) og hvar skaflar höfðu safnast fyrir.

1. mynd. Kort sem sýnir þá vegi sem kannaðir voru, alls um 95 km. Númer vísa til staða þar sem skaflar höfðu safnast fyrir og myndir voru teknar.

Niðurstöður

Miðað við legu skaflanna hefur megináttin verið norðaustlæg en sums staðar hefur áttin verið norðanstæðari, eins og t.d. við Heiði í Biskupstungum þar sem skaflar lágu nánast frá norðri til suðurs. Skaflar fundust á og við vegi á 14 stöðum og voru þeir flestir í nágrenni við Reykholt í Biskupstungum (1. mynd). Niðurstöðurnar benda til þess að trjágróður hafi valdið mestu um að skaflar mynduðust á vegum en tré komu við sögu á alls 11 stöðum af 14. Sums staðar voru tré nánast það eina sem skýrt gat mikla skafla. Má þar nefna asparskjólbelti við Múla (5. mynd) og við Torfastaði (10.-11. mynd). Skilti og vegrið geta haft mikil áhrif en þau voru talin koma við sögu á alls fjórum stöðum. Byggingar geta augljóslega myndað skjól og valdið því að snjór safnast fyrir en samtals var þeirra getið á þremur stöðum. Þá skal ekki vanmeta aðrar aðstæður, svo sem landslag og ýmiss konar ójöfnur í landi, eins og hæðir og skurði, en þessir þættir voru nefndir til sögu á þremur stöðum.

2. mynd. Skaflar á Bræðratunguvegi (vegur 359) við brúna yfir Tungufljót. Hér hafa vegrið einkum orsakað skaflamyndun.

3. mynd. Vegamót Biskupstungnabrautar (vegur 35) og Bræðratunguvegar (vegur 359). Hér er líklegt að nærliggjandi skurðir, skilti og uppbygging vegamótanna valdi því að snjór safnast fyrir. Á þessum stað virðast tré ekki hafa haft mikil áhrif.

4. mynd. Skafl á vegi við bæinn Heiði í Biskupstungum. Hér valda trén við bæinn og byggingarnar því að snjór hefur safnast fyrir í allmiklum mæli.

5. mynd. Við bæinn Múla í Biskupstungum hafði allmikill og langur skafl safnast fyrir á vegi í skjóli við asparskjólbelti sem er þarna norðaustan Biskupstungnabrautar (vegur 35).

6. mynd. Skaflar á Reykjavegi (vegur 355) við brúna á Fullsæl. Orsakir að öllum líkindum vegrið.

7. mynd. Skafl á Biskupstungnabraut (vegur 35) á móts við bæinn Vegatungu. Meginorsök skaflamyndunar er skógarlundur skammt frá vegi.

8. mynd. Skafl á Biskupstungnabraut (vegur 35) suðaustan við bæinn Vegatungu. Orsakir skaflamyndunar eru að stærstum hluta tré við veg.

9. mynd. Snjór safnast fyrir við hringtorg á Biskupstungnabraut (vegur 35) við Reykholt í Biskupstungum. Meginorsakir skafla eru að öllum líkindum tré, byggingar og skilti.

10. mynd. Skaflar á Biskupstungnabraut (vegur 35) við Torfastaði í Biskupstungum. Megináhrifavaldur er hér asparskjólbelti.

11. mynd. Skaflar á Biskupstungnabraut (vegur 35) við Torfastaði í Biskupstungum. Myndin er tekin á stað nokkru vestar með veginum en sýndur er á 10. mynd. Megináhrifavaldur er hér asparskjólbelti með vegi.

12. mynd. Skaflamyndun á Biskupstungnabraut (vegur 35) við Borg í Grímsnesi. Hér eru helstu orsakir sennilega trjágróður, byggingar og skilti.

13. mynd. Skafl við vegamót Skeiða- og Hrunamannavegar (vegur 30) og Skálholtsvegar (vegur 31). Trjágróður við veg er hér megináhrifavaldur. Skilti hafa sennilega einhver áhrif.

14. mynd. Skafl við Skálholtsveg (vegur 31) á Reykjum á Skeiðum. Skjólbelti veldur því að snjór hefur hlaðist í myndarlegan skafl.

15. mynd. Skafl við Skálholtsveg (vegur 31) sunnan við Iðu í Biskupstungum. Orsakir má sennilega rekja til trjágróðurs við veg og skjóls af lágri hæð sem er þarna norðaustan vegar (sést ekki á myndinni).

Lokaorð

Niðurstöður þessarar litlu könnunar koma ekki á óvart enda löngu þekkt að tré mynda skjól og geta því valdið mikilli skaflamyndun á vegum sé þeim ekki valinn staður af kostgæfni. Aðrir þættir, eins og byggingar, vegrið, skilti og landslag, geta haft veruleg áhrif á hvar snjór safnast fyrir. Í ljósi þess að greiðar samgöngur eru mikilvægar og að mikill kostnaður getur hlotist af því að halda vegum opnum er nauðsynlegt að hanna vegi þannig að snjósöfnun verði sem minnst enda er það gert í ríkum mæli. Nú þegar trjárækt er að aukast er æskilegt að settar verði samræmdar reglur um hvar og hvernig skuli staðið að gróðursetningu trjáa með vegum, bæði til að draga úr kostnaði við að halda vegum opnum og til að draga úr slysahættu sem getur stafað af trjám sem sett eru við vegi. Þá má nefna að illa ígrunduð gróðursetning trjáa með vegum spillir útsýni þeirra sem ferðast um vegi landsins.

21. desember 2022
Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur, fyrrverandi sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.