Ný vísindagrein um ágengni stafafuru á Íslandi: Lodgepole pine (Pinus contorta Douglas ex Loudon) invasion in subarctic Iceland: evidence from a long-term study.
30. janúar 2025
Greinin, sem er eftir Pawel Wasowicz, Guðrúnu Óskarsdóttur og Þóru Ellen Þórhallsdóttur, birtist í tímaritinu NeoBiota og fjallar um breytingar á útbreiðslu stafafuru í Steinadal í Suðursveit og áhrif hennar á líffræðilega fjölbreytni og innlend plöntusamfélög. Stafafuru var fyrst plantað í Steinadal uppúr miðri síðustu öld og um 1985 var hún tekin að breiðast út fyrir skógræktarreitinn. Rannsóknin byggir á gögnum sem Hanna Björg Guðmundsdóttir safnaði á tuttugu og fjórum 100 m löngum beltasniðum árið 2010 og endurtekningum á þeim mælingum árið 2021 en þá var útbreiðsla stafafurunnar í Steinadal einnig kortlögð.
Niðurstöðurnar sýna að á einum áratug tífaldaði stafafuran útbreiðslusvæði sitt í Steinadal og þéttleiki plantna sjöfaldaðist. Meðalútbreiðsluhraði hækkaði frá 8,5±2,4 m/ári á tímabilinu 1985-2010 og upp í 61,1±40,2 m/ári á tímabilinu 2010-2021. Hæst var stafafura skráð í 170 m y.s. árið 2021. Tegundaauðgi æðplantna var miklu lægri í upphaflega skógræktarreitnum en í óröskuðu í birkikjarri og mólendi í Steinadal og sama gilti fyrir kvarða Shannons sem notaður var til að meta fjölbreytni.
Höfundar greinarinnar segja stafafuruna í Steinadal sýna öll helstu einkenni ágengrar tegundar sem hefur neikvæð áhrif á innlent lífríki. Þau telja stafafuruna líklega til að hegða sér með svipuðum hætti víða þar sem henni hefur verið plantað hérlendis og niðurstöður rannsóknarinnar bendi ótvírætt til þess að hún geti auðveldlega dreift sér um innlend vistkerfi. Höfundar undirstrika mikilvægi þess að auka vitund, gæta varúðar og grípa til aðgerða til að stýra útbreiðslu stafafuru, sérstaklega í ljósi áforma um verulega aukna skógrækt á næstu árum.