Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

17. desember 2024 | Ólafur S. Andrésson

Ný viðhorf í skógrækt á norðurslóðum

Nýlega birtist viðhorfsgrein í vísindaritinu Nature Geoscience undir titilinum “Tree planting is no climate solution at northern high latitudes” (Skógrækt á norðurslóðum er ekki lausn á loftslagsvanda). Þar kemur fram að takmarkaður ef nokkur loftslagsávinningur virðist vera af nýskógrækt á norðlægum slóðum. Ýmislegt spilar inn í; breytingar á endurskini, tap á jarðvegskolefni, röskun á rótgrónum vistkerfum og samfélögum, losun á metani o.fl. Fjallað hefur verið um mörg af þessum atriðum á íslensku í greinum sem finna má hér á vef Vina íslenskrar náttúru. Stutt umfjöllun er um greinina á vefsíðum Landbúnaðarháskóla Íslands með viðtal við einn höfunda greinarinnar, Isabel C. Barrio, prófessor í vistfræði.

Hér að neðan er lausleg þýðing á útdrætti greinarinnar:

Í greininni er rifjað upp að skógrækt sé vinsæl lausn til að vinna gegn loftslagshlýnun vegna þess að tré binda koltvísýring (CO2) og lækka þannig styrk þessarar gróðurhúsalofttegundar í andrúmslofti. Með hlýnun batna víða skilyrði fyrir trjávöxt á norðurslóðum og meira verður um skógrækt. Ýmislegt hefur þó komið í ljós sem mælir gegn skógrækt á norðurslóðum sem aðgerð til að vinna gegn hlýnun. Bæði í barrskógabeltinu og á heimskautasvæðum getur skógrækt valdið endurskinsbreytingum og jarðvegsbreytingum sem vega upp áhrif kolefnisbindingar í trjám, einkum þar sem lífmassi er lítill og seigla vistkerfa takmörkuð.

Komið hefur í ljós að trjávöxtur hefur umtalsverð áhrif á kolefnisbúskap í jarðvegi, en hvergi er bundið eins mikið kolefni í jarðvegi og á köldum svæðum Jarðar. Einnig hefur aukinn útbreiðsla skóga á þessum svæðum mikil áhrif á rótgróið lífríki og afkomu fjölda lífvera. Margvísleg óæskileg áhrif skógræktar á norðurslóðum hafa lengi verið þekkt, en með stórauknum áherslum á bindingu kolefnis fremur en á takmörkun losunar á gróðurhúsalofttegundum er fullt tilefni til að vara við þeirri þröngu nálgun á úrbætur í loftslagsmálum sem skógrækt á norðurlóðum er.

Í stað þess er hvatt til heildrænnar hugsunar um loftslagslausnir sem byggja á skilningi á öllum þeim þáttum sem mynda loftslagskerfi Jarðar og hvernig þeir hafa áhrif þar, einkum á orkujafnvægi og hitafar. Slík hugsun vinnur gegn árangurslitlum aðgerðum og mótlæti í loftslagsaðgerðum á norðurslóðum.

Í greininni er vitnað til kunnuglegra heimilda varðandi áhrif breytinga á endurskini (albedo) en umfjöllun um þetta efni má lesa hér á vef VÍN. Í Nature Geoscience greininni er einnig minnt á að mikið lífrænt kolefni er bundið í þykkum freðmýrum, og að megnið af því kolefni mun losna við hlýnun, bæði sem CO2 og sem metan (CH4). Sjá meðal annars greinarnar Large amounts of labile organic carbon in permafrost soils of northern Alaska og Climate change and the permafrost carbon feedback.

Það þarf ekki að fara norður fyrir heimskautsbaug til að sjá dæmi þar sem skógrækt virðist ekki bæta kolefnisjöfnuð. Friggens og samverkafólk (2020) báru saman heildarkolefni í trjáreitum á skoskum heiðum og báru saman við nærliggjandi beitilyngsmóa. Eftir 12 og 39 ár var ekki marktækt meira af kolefni í fjórum trjáreitum en undir beitilyngsbreiðunum þegar jarðvegskolefni og trjákolefni var lagt saman, og í einum trjáreit var það minna. Þetta aukna tap á jarðvegskolefni vegna rótarmikilla plantna er m.a. rakið til aukinnar virkni örvera, sérstaklega í tengslum við svepprót (mycorrhiza), auk þess sem trjáþekja veldur oftast hlýnun í jarðvegi og auknu niðurbroti á lífrænum efnum (sjá t.d. Kauper o.fl. 2020).

Auk þessa er bent á að víðfeðmir skógar verða í sívaxandi mæli fyrir áföllum svo sem skógareldum, ágangi skordýra og sveppaplágum. Jafnframt verður að taka tillit til áhrifa skógarhöggs, en það dregur verulega úr standandi kolefnismassa til langs tíma. Einnig skal bent á hlutverk grasbíta svo sem hreindýra, sem eru háð stórum opnum beitarsvæðum og eiga stóran þátt í að hindra framrás kjarrlendis og skóga. Hreindýrin hafa verið meginviðurværi þjóða á norðurslóðum, og eru það enn.

Það eru því margar gildar ástæður til að fara varlega og yfirvegað í skógrækt og aðrar stórfelldar breytingar á norðurslóðum.

Ólafur S. Andrésson, lífefnafræðingur og fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands