Barrskógar: Niðurstaða nýrrar rannsóknar er að til að ná sem bestum árangri í skógarkolefnisbindingu þurfi að taka endurskin með í reikninginn og miklu máli skiptir í hvers konar land er plantað og hvaða tegundum. Mynd: Ágúst Guðmundsson

18. apríl 2024 | Ólafur Sigmar Andrésson

Viðhorfsbreytingar í skógrækt

Þessi grein birtist upprunalega í Heimildinni 18. apríl 2024.

Margþætt áhrif skógræktar á loftslag

Hlýnandi loftslag, með tilheyrandi öfgum í veðurfari, stafar einkum af því að magn koltvísýrings (CO2) í lofti eykst sífellt. Gróður bindur koltvísýringinn og þess vegna getur skógrækt unnið á móti loftslagshlýnun og er klárlega góður kostur, ekki síst þar sem hægt er að endurheimta fyrri skóga líkt og á Íslandi. Hérlendis er því lögð áhersla á endurheimt birkiskóga en nytjaskógrækt með innfluttum tegundum getur, auk koltvísýringsbindingar, einnig verið grunnur að verðmætri atvinnugrein. Þá verður að hyggja að áhrifum innfluttu tegundanna á innlend vistkerfi, lífbreytileika þeirra, fuglastofna, einkum mófugla, og einnig hvort plönturnar séu líklegar til að dreifa sér út fyrir afmörkuð skógræktarsvæði.

Samspil sólarljóss og yfirborðs lands skiptir máli við skógrækt. Ljóst land eða snævi þakið endurkastar sólarljósinu að miklu leyti en dökkt land sogar í sig sólarljós og sú sólarorka breytist að miklu leyti í varma sem veldur hlýnun. Þegar meta skal loftslagsáhrif skógræktar er því ekki nóg að reikna út hve mikið skógurinn hafi bundið af CO2, heldur þarf einnig að skoða hvaða breytingar verða á endurskini sólarljóss þegar trjáplönturnar vaxa úr grasi. Endurkast af grónu landi, t.d. graslendi og sinu, er töluvert meira en af barrskógi og þéttum stæðum lauftrjáa. Þetta á ekki síst við þegar land er snævi þakið og skógartré standa dökk upp úr snjónum. Barrskógar geta þá sogað í sig miklu meira af sólarljósi en óplantað land og sú sólarorka breytist að mestu leyti í varma og vegur að einhverju eða jafnvel miklu leyti upp kælingaráhrifin sem verða af kolefnisbindingu trjánna.

Nýleg umfjöllun í vísindaritum

Undanfarin ár hafa þessi andstæðu loftslagsáhrif skógræktar töluvert verið til umfjöllunar meðal vísindamanna eins og sjá má í greinasafni Vina íslenskrar náttúru, natturuvinir.is. Hasler og samverkafólk birtu 26. mars 2024 grein í tímaritinu Nature Communications með titlinum „Accounting for albedo change to identify climate-positive tree cover restoration“ (Útreikningar á endurkasti sólarljóss notaðir við að velja hentug svæði til að endurheimta skóga til loftslagsbóta). Þar var metið hvar vænlegast væri að stunda skógrækt til loftslagsbóta og komist að þeirri niðurstöðu að mjög ólíkt væri frá einu svæði til annars hversu mikið endurskin sólarljóss upphefur áhrifin af CO2 bindingu.

Þannig eru áhrif endurskins lítil eða engin á flestum heitum og heittempruðum svæðum en veruleg á norðlægum slóðum og á þurrlendissvæðum þar sem endurskin getur algjörlega vegið upp áhrif kolefnisbindingar. Þegar núverandi skógræktarsvæði í heiminum voru skoðuð sérstaklega kom í ljós að endurskinsáhrifin upphófu yfir 50% CO2 bindingar í þriðjungi tilvika. Niðurstaðan er að til að ná sem bestum árangri í skógarkolefnisbindingu þurfi að taka endurskin með í reikninginn og miklu máli skiptir í hvers konar land er plantað og hvaða tegundum.

Dæmi frá Íslandi

Heimsúttektir tímaritanna Nature, Science o.fl. ná einnig til Íslands. Vel er hægt að meta áhrif endurskinsbreytinga hér sem annars staðar enda þótt nokkuð skorti á haldgóðar upplýsingar um endurskin ýmiss konar gróðurlenda sem algengt er að planta trjám í hérlendis. Í grein minni „Barrtré, snjóhula og hitafar“ sem birtist á vefnum natturuvinir.is í febrúar 2023 er gerð tilraun til að meta áhrif af breyttu endurskini sólgeislunar við skógrækt og útskýrt hvers konar reikniaðferðir eru notaðar bæði við það og við mat á loftslagsáhrifum kolefnisbindingar. Í útreikningunum er byggt á áralöngum gögnum Veðurstofu Íslands um snjóhulu á nærri 100 stöðum á Íslandi. Þvert á það sem mætti halda, þá hefur tíðni snjódaga ekki breyst marktækt á sumum athuganastöðunum undanfarna áratugi!

Í stuttu máli er niðurstaðan sú, að á mörgum svæðum norðan- og austanlands leiðir ræktun sígrænna barrtrjáa ekki til kælingar lofthjúpsins, heldur hlýnar hann. Slík áhrif eru miklu minni þegar lauftré og lerki eru ræktuð, og líka minni á snjóléttum svæðum og þar sem vetur eru tiltölulega hlýir t.d. á Suðurlandi. Við ábyrga skógrækt og kolefnisbindingu þarf að hyggja vel að áhrifum á loftslag og vistkerfi til að vel fari.

Ólafur S. Andrésson, lífefnafræðingur.