Mynd: Sigurður H. Magnússon
Samþykktir afgreiddar á stofnfundi 3. nóvember 2022
1. gr.
Félagið heitir Vinir íslenskrar náttúru, skammstafað VÍN.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að fjalla um náttúruverndarmál líðandi stundar með áherslu á skaðleg áhrif ágengra og framandi tegunda í íslenskri náttúru og móta tillögur til úrbóta. Stjórnvöldum verður veitt aðhald við skipulag og framkvæmd áætlana sem varða náttúru landsins.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að halda fundi, skipuleggja aðgerðir til verndar íslenskri náttúru, miðla upplýsingum í fjölmiðlum og á veraldarvefnum um neikvæð áhrif framandi tegunda á lífríki og ásýnd landsins. Veittar verða umsagnir eftir atvikum um áætlanir, m.a. um frumvörp til laga og reglugerðir stjórnvalda er lúta að náttúruvernd.
4. gr.
Félagið styður aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og kolefnisbindingu sem ekki hefur neikvæð áhrif á náttúru Íslands. Félagið stuðlar að því að komið sé á framfæri áreiðanlegum upplýsingum um kolefnisbindingu og kolefniseiningar og leggur áherslu á að notuð séu alþjóðleg vottunarkerfi með viðurkenndum kröfum og viðmiðum, sem jafnframt taka tillit til íslenskra aðstæðna.
5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.
6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
4. Lagabreytingar.
5. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
6. Önnur mál.
7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum; formanni, varaformanni, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi. Einnig er heimilt að kjósa allt að fjóra varamenn. Hver stjórnarmaður skal kosinn til tveggja ára í senn. Annað árið ganga úr stjórninni tveir stjórnarmenn, en hitt árið þrír stjórnarmenn, það sama á við um varamenn. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Stjórn afgreiðir tillögur um nýja félaga. Komi til ágreinings um afgreiðslu innan stjórnar eða á milli stjórnar og umsækjanda má skjóta málinu til félagsfundar. Stjórnin getur boðið gestum á félagsfundi til að fjalla um einstök málefni.
8. gr.
Vinir íslenskrar náttúru eru frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni. Engin félagsgjöld verða innheimt, en félagið aflar rekstrarfjár með umsóknum um styrki og með frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Stjórnarformaður og varaformaður hafa einir prókúru fyrir félagið.
9. gr.
Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings frá félaginu.
10. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.