7. febrúar 2025 | Sveinn Runólfsson
Kolefnisskógrækt á villigötum
Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðinu 6. febrúar 2025.
Á samfélagsmiðlinum Vísi birtist umfjöllun um skógræktina á Þverá og í Saltvík í SuðurÞingeyjarsýslu þann 30. janúar sl. undir fyrirsögninni „Hvað næst, RÚV?“ Þar kvartar Hilmar Gunnlaugsson, einn af stofnendum og nú starfandi framkvæmdastjóri Yggdrasils Carbon, YGG, yfir nýlegri umfjöllun RÚV af umdeildri skógrækt nærri Húsavík.
Það er rétt hjá Hilmari að það er ekki samhljómur í fyrirsögn fréttarinnar á RÚV um að ekki hafi verið farið að lögum og segja svo að niðurstöðu sé að vænta á næstu dögum eða vikum. En það kom ekki fram í fréttinni að líklega hefðu verið framin fleiri lögbrot við þessar skógræktarframkvæmdir.
YGG rústaði ríku mólendi
Fyrirtæki í kolefnisbindingar- skógrækt eru aftur farin að berja sér á brjóst og fullyrða að þau bjóði til sölu vottaðar kolefniseiningar, en sannleikurinn er sá að því fer víðs fjarri.
Það eru einkum tvö veigamikil atriði í aðsendri grein Hilmars til Vísis sem undirritaður formaður stjórnar VÍN, Vina íslenskrar náttúru, gerir alvarlegar athugasemdir við.
Hið fyrra er að Hilmar segir: „Reyndar er það svo að YGG gengur í verkefnum sínum lengra en áður hefur almennt verið gert í að huga að líffræðilegum fjölbreytileika, vernda votlendi og safna gögnum um ástand svæða fyrir framkvæmdir og á líftíma verkefnanna.“ Þessi fullyrðing er fjarri öllum sanni því í verkefnunum nærri Húsavík, það er í Saltvík og á Þverá, er YGG að rústa ríku mólendi með mikilli líffræðilegri fjölbreytni og skilar meirihluta skógræktarsvæðanna eftir með skógarbotni sem er nær lífvana eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Botngróður í stafafuruskógi. Hvernig getur Hilmar haldið því fram að skógrækt á vegum YGG í Saltvík og Þverá verndi þá líffræðilegu fjölbreytni sem þar var? Mynd / Sigurður Hjalti Magnússon.
Ekki í samræmi við alþjóðlega samninga
Skógræktarframkvæmdir YGG ganga þvert gegn öllum megin grundvallarreglum í vernd íslenskrar náttúru, sérstaklega lífríkis, samkvæmt lögum um náttúruvernd og landgræðslu og eru í engu samræmi við alþjóðlega samninga um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og meðal annars þegar litið er til verndar ábyrgðartegunda mófugla og búsvæða þeirra.
Síðara atriðið í óvönduðum skrifum Hilmars snýr að því að hann stærir sig af því að YGG safni gögnum um ástand svæða fyrir framkvæmdir. En það láðist að mæla einn afar þýðingarmikinn þátt, sem veldur því að allar fullyrðingar um vottum verkefnisins með tilliti til framleiðslu kolefniseininga verða rangar. YGG mældi einfaldlega ekki hvort landið sem gróðursett var í var að losa eða binda kolefni. Eftir þessa miklu jarðvinnslu þá mældu YGG ekki heldur hve mikið landið var að losa eftir aðgerðirnar, eins og Sigfús Bjarnason bendir á í grein sinni á vef Náttúruvina.
Þar af leiðandi mun fyrirtækið aldrei geta reiknað út með ásættanlegri vissu hvenær skógurinn er búinn að bæta fyrir tapið á kolefni er varð við jarðvinnsluna og hvenær skógurinn er farinn að binda meira kolefni en áður var, það er fyrir upphaf skógræktarframkvæmdanna.
Mælingar verður að gera á staðnum
YGG getur ekki skýlt sér á bak við að það séu til mælingar á bindingu/losun kolefnis á allt öðrum stöðum og ef til vill mælingar á losun frá jarðvinnslu í öðrum jarðvegi á öðrum svæðum. Alvörumælingar verður að sjálfsögðu að gera nákvæmlega á þeim stöðum þar sem gróðursetningin fer fram. Annað er falsvottun.
Þrátt fyrir að YGG telji sig hafa nú þegar vottaðar kolefniseiningar til sölu, þá fer því fjarri að sú vottun geti talist faggild og óháð aðkomu hagaðila. Engin alvöru, sómakær alþjóðleg vottunarstofa mun votta þessar framkvæmdir sem hér er lýst og þær kolefniseiningar sem þessi tvö tilgreindu verkefni kunna að skila verða verðlausar. Þar með taldar þær einingar sem YGG ætlar að greiða sveitarfélaginu Norðurþingi í mútur fyrir framkvæmdaleyfi í Saltvík á komandi árum.
Stöðva þarf þennan skógræktargrænþvott
Það er með ólíkindum að íslensk og/ eða erlend fyrirtæki séu að greiða fyrir annars vegar kolefnisbindingu sem alls engin vissa er fyrir að verði eins og lofað er, og þó svo að hún verði einhver þá verður það ekki fyrr en eftir áratugi. Og hins vegar að gera það með því að rústa fullkomnlega góðu og lífríku gróðurlendi með meðal annars meintum ágengum tegundum eins og stafafuru.
Það þarf að stöðva þennan skógræktargrænþvott tafarlaust og stofnanir ríkisins og aðrir eiga að snúa sér að því að endurheimta náttúruleg vistkerfi, þar með talið votlendi, og nota aðrar áreiðanlegar aðgerðir í kolefnisbúskap til að binda kolefni og draga úr losun þess.
Höfundur var landgræðslustjóri frá árinu 1972 til 2016.