Kvíaból í Þingeyjarsveit. Eru skattborgarar sáttir við að opinberum fjármunum sé varið í skógrækt með stafafuru í snarbrattri fjallshlíð með ríkulegri líffræðilegri fjölbreytni?

20. nóvember 2025 | Sveinn Runólfsson

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Það er betra að beina fjármagni í verndun og endurheimt vistkerfa

Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðiinu 20. nóvember 2025.

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðkast á síðustu árum, er vaxandi ógn við líffræðilega fjölbreytni, búsvæði fugla, landslag, ásýnd og minjar.

Gróðursetning trjáa fylgir mikil ábyrgð. Hér á landi eru svæði í vaxandi mæli þakin gróðursettum skógum. Slík skógrækt hefur fyrst og fremst það markmið að hámarka timburframleiðslu eða framleiðslu kolefniseininga. Það er gert með því að gróðursetja mikið magn af hraðvaxta trjám af framandi tegundum einkum af barrtegundum.

Kolefnisskógrækt hefur sætt mikilli gagnrýni hérlendis sem og erlendis. Skógrækt með framandi hraðvaxta viðartegundum í nafni kolefnisbindingar er orðin meginógn við íslensk vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytni. Fjármagn streymir til slíkra framkvæmda, sem hefur leitt til uppkaupa á bújörðum m.a. frá erlendum aðilum.

Styrkir til nytjaskógræktar hafa einnig verið gagnrýndir samanber niðurstöðu skosku þjóðarakademíunnar við úttekt á skógrækt í Skotlandi, þar sem ályktað er að hætta beri opinberum styrkjum til viðarskógræktar en beina fjármagninu m.a. til verndunar og endurheimtar vistkerfa.

Ofangreind þróun í átt til kolefnisskógræktar og ríkisstyrktar nytjaskógræktar með framandi tegundum er afar óheppileg. Brýnast er að endurheimta náttúruleg skóglendi og vistkerfi, og gæta þess ávallt að réttar trjátegundir verði gróðursettar á réttum stöðum og með réttum hætti.

Stefna stjórnvalda er að auka skógrækt hér á landi og miklu máli skiptir að búa landsmenn og skóga okkar undir framtíðina í samræmi við Land og líf – Landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt. Með samvinnu og almennri umræðu getum við mótað og innleitt skógarstefnu sem gagnast jafnt náttúrunni sem og fólkinu í landinu. En því er ekki að heilsa í dag því miður. Þó er sem betur fer mikið gróðursett árlega af birki til endurheimtar landgæða. Val á landi til skógræktar og sú stefna sem hér hefur ríkt í áratugi að nota fyrst og fremst framandi tegundir mun hafa neikvæð áhrif á jarðveg, líffræðilega fjölbreytni, búsvæði fugla og landslag. Þetta stafar af því að oft er verið að nota vel gróið land, náttúruleg vistkerfi, með fjölbreytt lífríki. Þessi tegund skógræktar er að hluta fjármögnuð með ríkisstyrkjum. Betra væri að verja þessu fé til að stuðla að vandaðri gróðursetningu trjátegunda sem ætlað er að standa til lengri tíma og endurheimta náttúrulegra skóga sem binda og geyma kolefni, efla líffræðilega fjölbreytni, styðja við ferðaþjónustu og bæta lífsgæði og landslag.til kolefnisskógræktar og ríkisstyrktar nytjaskógræktar með framandi tegundum er afar óheppileg. Brýnast er að endurheimta náttúruleg skóglendi og vistkerfi, og gæta þess ávallt að réttar trjátegundir verði gróðursettar á réttum stöðum og með réttum hætti.

Banna á gróðursetningu í kolefnisríkan jarðveg

Heilbrigður jarðvegur er grundvöllur alls lífs á landi. Hann hefur umtalsvert meiri tegundaauðgi en lífríkið ofan yfirborðs og geymir oft mun meira kolefni en finna má í gróðri. Magn kolefnis er misjafnt eftir jarðvegsgerð og þegar jarðvegi er spillt, t.d. sem undanfari gróðursetningar kolefnisskóga, losnar kolefni. Brýnt er að fyrir allar jarðvegsgerðir sé notast við gróðursetningaraðferðir, umhirðu og nýtingu skóga sem lágmarka jarðvegsrask. Alls ekki ætti að heimila gróðursetningu í kolefnisríkan jarðveg og koma þar með í veg fyrir kolefnistap vegna jarðvegsrasks.

Við verðum að endurheimta votlendirðveg

Kolefni í jarðvegi losnar bæði við gróðursetningu og skógarhögg. Uppskeran úr nytjaskógum losar stærstan hluta kolefnis síns aftur út í andrúmsloftið þegar viðarafurðir eru brenndar sem eldsneyti. Megnið af því kolefni sem eftir er losnar á nokkrum árum til dæmis í stóriðjuverum. Aðeins lítill hluti uppskerunnar mun skila sér í afurðum sem tryggja langtímabindingu kolefnis.

Núverandi fjárhagshvatar, bæði beinir styrkir stjórnvalda til nytjaskógræktar og erlent auðmagn til kolefnisbindingar, eru rangsnúnir eða skaðlegir efnahagshvatar sem skaða umhverfið. Slíkir hvatar eru meðal helstu vandamála í umhverfismálum samtímans.

Innleiða verður ráðstafanir sem virka til að endurheimta votlendi. Slíkar aðgerðir tryggja kolefnisbindingu og -geymslu til langs tíma, efla líffræðilega fjölbreytni og auðga landslag.

Saltvík í Norðurþingi. Gróðursetning framandi ágengra tegunda sækir hart að hinum einstöku lyng- og votlendisheiðum Þingeyinga og skaðar líffræðilegri fjölbreytni.

Mat á umhverfisáhrifum

Sveitarstjórnir hafa víðtækt skipulagsvald þar á meðal þegar kemur að veitingu framkvæmdaleyfa fyrir skógrækt og bera því mikla ábyrgð. Misjafnt er í aðalskipulagi sveitarfélaga hvernig farið er með leyfisveitingar fyrir skógrækt. Í sumum sveitarfélögum eru nánast öll skógrækt heimiluð, jafnt á lögboðnum verndarsvæðum og á kolefnisríkum jarðvegi. Önnur sveitarfélög vilja vanda sig betur, en það hjálpar ekki þegar umsagnir Lands og skógar í matsáætlunum fyrir stór skógræktarsvæði, t.d. aðliggjandi Þingvallavatni, telja ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum. Það gengur þvert á stefnu stjórnvalda í skógrækt í Landi og lífi sem áður er getið.

Nýleg úttekt á sjálfsáningu stafafuru sýnir að hún er að sá sér út frá mörgum skógarreitum með stafafuru og enginn ber ábyrgð á að fjarlægja hana þegar hún dreifir sér inn á land með kolefnisríkan jarðveg og mikilli líffræðilegri fjölbreytni. Þeir skógræktaraðilar sem ætla sér að gróðursetja stafafuru og/eða sitkagreni ættu skilyrðislaust að leggja fram tryggingarfé hjá viðkomandi sveitarfélagi áður en gróðursetning hefst. Þar með væri unnt að kosta fjarlægingu þessara trjátegunda sem sækja út fyrir heimiluð skógarmörk í samræmi við mengunarbótaregluna. Á komandi árum mun stafafuran sækja inn á land annarra landeiganda sem oftar en ekki eru ekki í skógrækt.

Í dag er öll skógrækt sem nær 200 ha marki tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu. Fyrir það fyrsta eru þess mörk alltof víð og auk þess þarf að lögfesta að skógrækt yfir ákveðnum mörkum skuli ávallt vera háð mati á umhverfisáhrifum. Hvar þau mörk eiga nákvæmlega að liggja þarfnast opinnar umræðu. Mörkin gætu t.d. verið mismunandi eftir hvaða tegundir á að rækta og hvar. Mörkin mætti t.d. setja eftir undangengið áhættumat. Skógarreitir jafnt sem stærri skógræktarsvæði hafa áhrif á landslag, vistkerfi, þ.m.t. búsvæði dýra og plantna, gæði jarðvegs, vatnafar og minjar. Löggjafinn og umráðamenn lands verða að fara að gera sér grein fyrir því að óheft skógrækt mun koma til með að gjörbylta landinu á komandi áratugum, draga úr möguleikum íslenskrar náttúru til að þróast eftir eigin lögmálum og auka samkeppni um gott land til matvælaframleiðslu. Með notkun framandi ágengra tegunda s.s. stafafuru í skógrækt er verið að höggva skarð í náttúrulegt lífríki landsins og möguleika náttúrunnar til að endurnýja sig.

Stafafuru og sitkagreni eru oftast gróðursett í kolefnisríkan jarðveg með mikilli líffræðilegri fjölbreytni, sem ber skaða af. Erlendis eru afleiðingar þess iðulega nefnd græn eyðimörk.

Opin svæði eru líka nauðsynleg

Stór opin svæði eru mikilvægur þáttur í íslensku landslagi og þarfnast verndar á láglendi og á jöðrum hálendisins. Margar innlendar fuglategundir eru háðar opnum svæðum til að dafna. Slík svæði eru jafnframt eitt helsta aðdráttarafl landsins og eru mikils metin af bæði íbúum og ferðamönnum. Því er mikilvægt að skerða ekki slík svæði með skógrækt. Umhverfismat ætti alltaf að sýna fram á að tekið hafi verið tillit til hagsmuna nærliggjandi opinna svæða.

Sitkagreni getur skaðað líffræðilega fjölbreytni

Stafafuran er hraðvaxta, ágeng, framandi tegund og er talin ágengasta trjátegund á norðurhveli jarðar. Yfirleitt er hún farin að mynda fræ fimmtán árum eftir gróðursetningu og stundum fyrr. Þeir sem ferðast um landið okkar með opin augum þurfa ekki fleiri ritrýndar innlendar greinar og rannsóknir til að taka undir að við erum að eiga hér við ágenga tegund. Sitkagreni er einnig hraðvaxta, ágeng, framandi tegund sem breiðist hraðar út en nokkur önnur plöntutegund til dæmis á Bretlandi. Eftir 40 ár frá gróðursetningu er hún farin að sá sér verulega í aðliggjandi svæði. Hún dreifir sér mjög hratt, m.a. í votlendi þar sem hún skaðar líffræðilega fjölbreytni og getur aukið kolefnislosun vegna þornunar. Skosk stjórnvöld greiða nú um 3.800 pund á hektara til að fjarlægja sitkagreni úr votlendi. Áætlaður heildarkostnaður er nú talinn verða yfir milljarð punda og vandinn vex stöðugt. Sömu sögu er að segja frá Nýja Sjálandi, þar sem kostnaðurinn er enn meiri, og í Noregi og víðar. Við verðum að gera ráð fyrir að sitkagrenið hagi sér nákvæmlega eins hér á landi á komandi árum. Ekki ætti að þurfa að verja því takmarkaða fé sem veitt er til náttúruverndar til þess að stöðva það tjón sem skógrækt með ágengum, framandi tegundum veldur. Öll framkvæmdaleyfi til gróðursetningar þurfa að krefjast útfærslu sem lágmarkar hættu á sjálfsáningu ágengra, framandi tegunda. þarfnast verndar á láglendi og á jöðrum hálendisins. Margar innlendar fuglategundir eru háðar opnum svæðum til að dafna. Slík svæði eru jafnframt eitt helsta aðdráttarafl landsins og eru mikils metin af bæði íbúum og ferðamönnum. Því er mikilvægt að skerða ekki slík svæði með skógrækt. Umhverfismat ætti alltaf að sýna fram á að tekið hafi verið tillit til hagsmuna nærliggjandi opinna svæða.

Hættum að styrkja gróðursetningu framandi ágengra tegunda

Það er sanngjörn krafa okkar skattgreiðenda að stjórnvöld hætti nú þegar að greiða styrki til gróðursetningar á stafafuru og sitkagreni. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggur nú ríka áherslu á að móta og framfylgja stefnu í vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Á sama tíma getur hann ekki varið að styrkja gróðursetningu fyrrgreindra tegunda, sem iðulega eru gróðursettar í kolefnisríkan jarðveg og rýra þar með líffræðilega fjölbreytni á skógræktarsvæðinu og aðliggjandi svæðum.

Niðurstaða: Núverandi framkvæmd skógræktarstefnu er skaðleg

Ísland er eitt þeirra landa í heiminum þar sem hvað mest hefur verið gengið á náttúruna. Við erum enn að spilla náttúrunni, skaða loftslagið og heilsu okkar í áður óþekktum mæli. Núverandi skógrækt og starfshættir þjóna hvorki íslensku þjóðinni né umhverfinu. Brýnt er að skógrækt á Íslandi verði stjórnað með það að markmiði að draga úr skaða hennar á lífríki landsins og að auka umhverfis- og samfélagslegan ávinning sem hún getur og á að veita.

Skógar eiga að vera griðarstaður náttúru og fólks, fjölbreyttir og þolnir, og sjá okkur fyrir skjóli þar sem það á við með sjálfbærum hætti. Við þurfum öll að vinna saman að því sameiginlega markmiði að tryggja skógrækt sem hámarkar almannaheill og verndar líffræðilega fjölbreytni.

Sveinn Runólfsson, fyrverandi landgræðslustjóri og formaður VÍN, Vina íslenskrar náttúru.