Röskun gróins lands til skógræktar veldur tapi á kolefni, sem kemur til frádráttar við útreikning raunverulegrar kokefnisbindingar. Mynd: Sigurður H. Magnússon
16. mars 2023 | Andrés Arnalds
Ábyrg kolefnisbinding – Forsendur og vottun
Þessi grein birtist upprunalega á Heinildinni 12 mars 2023
Málefni kolefnisbindingar eru í afar sérkennilegum farvegi hér á landi. Stjórnvöld hafa sett markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er, m.a. er stefnt að því að hætta sem fyrst notkun jarðefnaeldsneytis. Jafnframt fær kolefnisbinding stórt hlutverk í þessu metnaðarfullu markmiði og er ætlað að brúa bilið þar til tekist hefur að draga nægilega úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þetta er brýnt viðfangsefni og fjölmargir geta lagt þar sitt af mörkum í baráttunni gegn ofurhlýnun jarðar.
Verkefni á sviði kolefnisbindingar í þessum tilgangi spanna mikla breidd, en skógrækt er þar umsvifamest bæði í fjölda og umfangi. Vaxandi markaður fyrir vottaðar kolefniseiningar hefur vakið upp miklar væntingar í þessum hagsmunageira, gullið tækifæri sem ekki megi missa af. Í ákafanum við að fylgja eftir þeirri draumsýn hefur hins vegar margt farið úrskeiðis og margvísleg gæðasjónarmið farið halloka fyrir þröngri sýn á uppbyggingu skógarauðlindar.
Vottun og veruleiki
Hér á landi sem annars staðar eru gerðar vaxandi kröfur um gæði kolefniseininga sem fara á markað. Slíkar áherslur birtast skýrt í vottunarstöðlum. Veruleikinn er hins vegar annar. Það vantar útfærslu á mörgum mikilvægum vottunarþáttum og það veldur því að kerfið endurspeglar ekki gæði kolefnisbindingar með nógu marktækum hætti.
Á þessu stigi byggir vottun kolefnisbindingar hér á landi fyrst og fremst á staðfestingu viðarvaxtar. Þrátt fyrir að lögð sé áhersla á að skógræktarverkefnin séu unnin í sátt við náttúruna fer afar lítið fyrir raunverulegum tengslum þar á milli. Ef samlíking er sótt í orkugeirann væri vottun á svo þröngum forsendum hliðstæða þess að nær ekkert tillit þyrfti að taka til náttúruverndar og umhverfisáhrifa við undirbúning, uppbyggingu og rekstur vatnsaflsvirkjana.
Þetta kemur hvað skýrast fram í því að vottunin nær ekki til þeirra miklu umbreytinga á náttúru Íslands sem takmarkalítil gróðursetning barrtrjáa veldur. Raunar væri farsælla að „sía“ slík verkefni frá á forstigum undirbúnings. Hleypa þeim ekki á framkvæmdastig.
Áhrif á botngróður Fyrirheitna landið? Hver eru langtímaáhrif barrskógræktar á botngróður og þar með það mikla kolefni sem moldin geymir? Mynd: Sigurður H. Magnússon
Eru landspjöllin þess virði?
Þau miklu svöðusár í grónu landi sem blasa við sjónum víða um land vegna jarðvinnslu til nýskógræktar eru táknmynd þess hve brýnt er að koma málefnum gæðavottaðrar kolefnisbindingar í betra horf. Raunsanna lýsingu á sumum upphafsferlum kolefnislosunar vegna slíkrar röskunar er að finna í frétt sem Skógræktin birti fyrir allnokkru á vef sínum um gróðursetningu í frjótt land. Þar kom fram hvernig tækin „… fjarlægja einangrandi lag gróðurþekjunnar og hækka þannig hitastig jarðvegsins sem leiðir af sér aukið niðurbrot lífrænna efna í rotnandi gróðurmottunni sem flett hefur verið af.“
Meðal þeirra margþættu áhrifa sem jarðvinnsla hefur á kolefnisbúskap og taka þarf tillit til í vottunarferlinu eru:
- Þegar gróðurþekjan veikist dregur úr þeirri kolefnisbindingu sem fyrir er og hún jafnvel stöðvast þar sem landið opnast. Hve mikil áhrif hefur raskið á bindingu þess gróðurs sem fyrir er á ræktunarsvæðinu?
- Umfang röskunar. Hve mikið CO2 berst út í andrúmsloftið þegar niðurbrotsferlar ná tökum á lífrænu efni sem bundið er í gróðri og jarðvegi vistkerfanna? Myndirnar bera með sér að hér hefur umbylting gróðurs og jarðvegs orðið veruleg.
- Ef jarðvinnslan veldur jafnframt uppfoki jarðvegs eða vatnsrofi margfaldast tap lífræns efnis.
- Einnig þarf að meta til frádráttar losun CO2 (ígilda) vegna þeirra tækja sem notuð voru við að vinna landið, svo og vegna aksturs og annars í tengslum við undirbúning, áburðargjöf, framkvæmd, eftirlit og vöktun.
Jarðvinnsla vegna margvíslegar ræktunar er meðal stærstu orsakavalda heimsins í losun gróðurhúsalofttegunda og ferlarnir eru vel þekktir. Í tengslum við almennar gæðakröfur og vottun kolefnisbindingar er því mikilvægt að gaumgæfa þau áhrif sem slíkir starfshættir valda. Það á ekki síst við vegna þess að bæði tap kolefnis og skerðing bindigetu eiga að koma til frádráttar við útreikning á raunverulegri kolefnisbindingu skógræktarverkefna.
Skilvirk leið eða skálkaskjól
Það er knýjandi að leysa úr ýmsum álitamálum sem varða raunverulega kolefnisbindingu, markaðsmál og gæði þeirra vottuðu eininga sem selja á til kolefnisjöfnunar. Kröfur um raunveruleg gæði kolefniseininga og notkun þeirra munu aukast. Spurningum fjölgar. Hver verður fórnarkostnaðurinn ef einhliða áhersla er lögð á „framleiðslu“ kolefniseininga? Er verið að sannreyna hve mikið af kolefni verkefna er viðbót við það sem orðið hefði hvort eð var án skógræktar? Hvert verður raunverulegt framlag slíkra verkefna gagnvart markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040?
Eftirspurn eftir kolefniseiningum tengist olíuiðnaðinum beint og óbeint. Er hætta á að Ísland fái á sig stimpil „grænþvottastöðvar“, skálkaskjóls fyrir sölu aflátsbréfa sem seinkað gætu eiginlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda? Er það ásættanlegt að kolefnisbinding sem keypt hefur verið til að koma til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda skuli ekki skila sér að fullu fyrr en eftir marga áratugi. Þá verður stór hluti kaupendanna kominn undir græna torfu. Skyldu viðskipti á slíkum grunni vera algeng í öðrum geirum þjóðfélagsins?
Umbóta er þörf
Þróun skógræktarstarfsins virðist hafa lent í afar sérkennilegum farvegi hér á landi. Það einkennist af sjálfræði, þröngri sýn á hlutverk starfsins og gætni og varúðarreglur virðast hafa gleymst. Öflun þekkingar og gagna vegna skógræktar og tengdrar kolefnisbindingar er að mestu í höndum hagsmunaaðila og Skógræktin kemur beint og óbeint að mótun stefnu, regluverks, viðmiða og starfsemi. Sama gildir um undirbúning, framkvæmd og eftirlit með verkefnum ásamt þróun staðla og jafnvel þátttöku í vottunarferlinu. Svokallað „armslengdarlögmál“ hlutleysis er þar víðs fjarri. Með breytingu á skilgreiningu á sjálfbærri skógrækt, sem hagsmunaaðilar í skógrækt stóðu að 2013, voru allar tegundir trjáa gerðar jafngildar svo lengi sem þær stuðluðu að uppbyggingu „skógarauðlindar“. Þetta mótar mjög starfið. Ábendingum og gagnrýni er illa tekið, hatursorðræðan virkjuð, aðhaldsmöguleikar eru óvirkir.
Það ógagnsæja og hagsmunatengda kerfi sem nú er við lýði, og kemur hvað skýrast fram í skógrækt vegna kolefnisbindingar, er ekki boðlegt í samfélagi nútímans. Afleiðingarnar eru víðtækar. Þetta kerfi þarf að stokka upp með faglegri aðkomu þeirra ýmsu hagaðila sem þessi stóru mál varða. Í því ferli þarf umfram allt að tryggja hlutleysi og skýra sýn gagnvart langtímaáhrifum skógræktar í náttúru Íslands.
Höfundur er áhugamaður um verndun íslenskrar náttúru.