Mynd: Andrés Arnalds

28. febrúar 2023 | Ingimundur Gíslason

Fagur er fjallahringur

Þessi grein birtist upprunalega á frettabladid.is 28. febrúar 2023

Suðurlandsundirlendið er stærsta samfellda landsvæðið undir 400 metra hæðarlínu á Íslandi. Umfang þess telst vera um það bil 3.400 km². Allt Ísland er 103.125 km² að flatarmáli.

Þegar ekið er um Suðurland á góðviðrisdegi frá Hveragerði til Víkur blasir við fjallahringur að heita má í allar áttir ef Vestmannaeyjar ásamt með Surtsey eru taldar með. Hvergi á Íslandi er útsýni til fjalla eins og hér.

Ég get endalaust talið upp fjöllin sem sjást frá þjóðvegi eitt frá Ingólfsfjalli til Surtseyjar. Læt þau hæstu og frægustu duga: Botnssúlur, Kálfa­tindar, Efstadalsfjall, Högnhöfði, Hlöðufell, Langjökull, Bjarnarfell, Jarlhettur, Búrfell, Bláfell, Þríhyrningur, Hekla, Tindfjallajökull, Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull, Vestmannaeyjar og Surtsey.

En þetta er allt að breytast. Að hluta til á kostnað skattgreiðenda. Adam virðist vera að hörfa úr paradís. Um er að ræða stórfelldar landslagsbreytingar án nokkurs skipulags. Víða sést ekki lengur til fjalla vegna trjáræktar meðfram þjóðvegum landsins. Og þetta versnar með hverju ári sem líður. Trén stækka óðfluga og ræktunarsvæðum fjölgar. Er þetta það sem viljum? Almenningur er aldrei spurður.

Þegar ekið er frá Skáni í Svíþjóð í norðurátt um Smálöndin er sáralítið útsýni til að geta notið landslagsins. Leiðin liggur um trjágöng með háum trjám til beggja hliða og útsýni aðeins beint fram á við, á malbikaðan veg. Munu ferðamenn halda áfram að sækja Ísland heim? Munu þeir vilja borga fyrir ferðalag í gegnum þétta skóga og án þess að geta notið hins fagra landslags sem Ísland hefur upp á að bjóða?