Mynd: Sigurður H. Magnússon

19. mars 2023 | Sigfús Bjarnason og Sigurður H. Magnússon

Kolefnisrækt, kolefnisjöfnun og vottun

Þessi grein birtist upprunalega í Heimildinni 18 . mars 2023.

Á Rauða borðinu á Samstöðinni 28. febrúar s.l. var viðtal við Jón Gunnar Ottósson, fyrrum forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, um kolefnisbindingu með skógrækt.

Í viðtalinu gagnrýnir Jón Gunnar annars vegar sölu á óvottaðri kolefnisbindingu sem hingað til hefur oftast verið markaðssett sem kolefnisjöfnun. Hins vegar fjallar hann um gæðastaðal Skógræktarinnar, Skógarkolefni. Hann hrósar Skógræktinni fyrir framtakið en nefnir nokkur atriði sem betur mættu fara.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, svarar gagnrýninni í grein í Heimildinni 8. mars og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í Ríkisútvarpinu 12. mars.

Í grein Reynis hefur hann eftir Jóni Gunnari að gróðursetning í dag sé ekki „að skila bindingu fyrr en eftir 50-80 ár“, sem hann réttilega segir að sé rangt. Það er náttúrlega augljóst að tré binda kolefni um leið og þau fara að vaxa. En þetta er slitið úr samhengi því Jón Gunnar er hér að ræða um hvenær trén séu búin að skila þeirri bindingu sem samsvarar þeirri losun sem kaupandinn ætlaði sér að kolefnisjafna.

Í nýlegum pistli á vef Vina íslenskrar náttúru (Kolefnisrækt, kolefnisjöfnun og grænþvottur) eru sýnd nokkur dæmi um hve fjarlægt það er kolefnisjöfnun að kaupa kolefnisbindingu sem raungerist ekki fyrr en að mörgum árum liðnum.

Reynir segir að Kolviður selji kolefnisbindingu en ekki kolefnisjöfnun. Kolviður, var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd árið 2007 með markmiðið að „hvetja Íslendinga til að kolefnisjafna útblástursáhrif samgöngutækja sinna með skógrækt“ og hefur lengst af notað hugtakið kolefnisjöfnun í kynningu á starfsemi sinni. Vef Kolviðar hefur nýlega verið breytt þannig að ekki er lengur talað um kolefnisjöfnun heldur kolefnisbindingu, sem er mjög til bóta og leiðir vonandi til þess að fyrirtæki, eins og til dæmis þau sem Jón Gunnar nefnir (Icelandair og Toyota), hætti einnig að selja vörur sínar og þjónustu sem kolefnisjafnaða.

Reynir segir einnig að kolefnisbinding Kolviðar sé unnin samkvæmt alþjóðlegum staðli (ISO-14064-2). Kolviður hefur þó ekki fengið vottun á því. Til að ná tilganginum með sölu á gróðursetningu til kolefnisbindingar þyrfti Kolviður að taka upp aðferðafræði Skógarkolefnis, eða aðferðafræði einhvers alþjóðlegs staðals, og við gróðursetningu einungis selja kolefniseiningar í bið. Fyrst eftir að mælingar og sannprófun vottunaraðila hafa sýnt að bindingin hafi raungerst verða þær að virkum einingum sem hægt er að nota til kolefnisjöfnunar.

Þröstur tekur undir gagnrýni Jóns Gunnars og telur fyrirtæki „fara heldur frjálslega með hugtakið kolefnisjöfnun þegar þau bjóða viðskiptavinum að setja fé í óvottuð verkefni sem óljóst er hvað skili mikilli bindingu.“

Hann vísar hins vegar á bug gagnrýni Jóns Gunnars um að Skógræktin hafi í Skógarkolefni dregið úr vottunarkröfum miðað við breska staðalinn sem Skógarkolefni byggir á (UK Woodland Carbon Code). Á carbonregistry.com má finna lista yfir þau verkefni sem hafa fengið vottun eða bíða vottunar. Eftir að verkefnin hafa verið vottuð (sem hingað til er aðeins eitt) er hægt skoða vottunargögn og sannprófunarskýrslu vottunarstofunnar. Lítil reynsla er því komin á þetta ferli, t.d. hvernig tekið verður á áhrifum nýskógræktar á umhverfisgæði svo sem á líffræðilega fjölbreytni, landslag o.fl.

Reynir hefur eftir Jóni Gunnari að jarðvinnsla „skapi losun næstu 10-20 árin“ sem hann telur alrangt. Það er ekki rangt að okkar mati og enn síður alrangt. Hér var verið að fjalla um umfangsmikla jarðvinnslu með herfi sem notað er í mörgum stærri kolefnisræktarverkefnum. Ef aðferðafræði UK Woodland Carbon Code væri notuð í verkefnum sem fylgja Skógarkolefnisstaðlinum gæti áætluð losun kolefnis úr jarðvegi yfirgnæft bindingu trjánna fyrstu 10-20 árin, eins og sýnt er á sviðsmyndum í grein um málið á natturuvinir.is.

Það er auðvitað ekki hægt að yfirfæra bresk gögn og útreikninga beint yfir á íslenskar aðstæður en það er ljóst að þetta er þáttur sem þarf að taka með í reikninginn þegar heildarávinningur af kolefnisrækt er áætlaður.

Þangað til fleiri íslenskar rannsóknaniðurstöður liggja fyrir er það að okkar mati besta lausnin fyrir Skógarkolefni að láta mæla nákvæmlega kolefnisforða jarðvegs við upphaf hvers verkefnis og síðan í hvert sinn sem votta á nýjar kolefniseiningar. Þá væri síður hægt að draga í efa útreikninga á heildarbindingu í íslenskri kolefnisrækt.

Önnur lausn væri að búa land undir skógrækt með vægari aðferðum. Við gerum ráð fyrir að í verkefnum Kolviðar sé farið mildari höndum um landið en með mikilli jarðvinnslu þannig að kolefnislosun vegna vinnu við gróðursetningu og í kjölfar hennar sé fremur lítil. Myndin sem fylgir þessari grein sýnir ekki verkefni á vegum Kolviðar.

Sigfús Bjarnason, fyrrverandi deildarstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu
Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur, fyrrverandi sérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands