Mynd: Andrés Arnalds
4. nóvember 2021 | Andrés Arnalds og Sveinn Runólfsson
Rétt tré á réttum stað
Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðinu 4 nóvember 2021.
Ólíkt hafast þjóðir að. Á sama tíma og gróðursetning barrtrjáa hér á landi hefur verið að aukast verja Nýsjálendingar milljörðum króna í að uppræta sumar þessara sömu tegunda utan afmarkaðra ræktunarsvæða. Margt má læra af reynslu þeirra. Það á ekki síst við um nauðsyn þess að sjá fyrir langtímaáhrif skógræktar með framandi tegundum til að auðvelda okkur að forðast þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið á Nýja-Sjálandi.
Innflutt tré og andvaraleysi
Það er margt líkt með Íslandi og Nýja-Sjálandi og í báðum löndunum er sérstæð fegurð náttúrunnar ein af meginundirstöðum öflugrar ferðaþjónustu. Um bæði gildir einnig að vistkerfin eru viðkvæm og því getur innflutningur nýrra tegunda haft afdrifaríkar afleiðingar.
Fyrstu barrtrén voru flutt til Nýja-Sjálands upp úr 1880. Hin innfluttu tré voru gróðursett í margvíslegum tilgangi, svo sem til að byggja upp verðmætan timburiðnað, að draga úr jarðvegsrofi í ofbeittum hlíðum og til skjóls fyrir menn, búfé og ræktun. Ríkið varði miklum fjármunum til slíkra verkefna, líkt og hér.
Smám saman fóru þessar nýju tegundir að búa um sig, þroskast og bera fræ. Gallinn var hins vegar sá að fræ af sumum tegundanna virtu hvorki landamörk né aðrar afmarkanir og sjálfsáðar plöntur tóku að vaxa upp utan þeirra staða og svæða þar sem þeim var ætlað að vera. Ótti við langtímaáhrif þessara tegunda fór að byggjast upp, ekki síst vegna áhrifa á þau vistkerfi sem fyrir voru og breytingar á einstæðu landslagi og þar með eina af meginforsendum ferðaþjónustunnar. Viðhorf tóku að breytast og farið að ræða um barrtré utan afmarkaðra ræktunarsvæða sem „villibarr“ (wilding conifers) eða „villitré“ (wildings).
Stafafurunni hafnað
Seinagangur við að bregðast við þessari sjálfsáningu barrtrjánna leiddi til þess að útbreiðsla þeirra náði að stigmagnast. Þegar lögin um vernd líffræðilegrar fjölbreytni (Biosecuriy Act) voru sett 1993 var því þrengt mjög að notkun innfluttra trjátegunda sem reynst höfðu ágengar. Stafafura (Pinus contorta) var þar á meðal.
Samkvæmt lögunum var stafafuran yfirlýst óæskileg lífvera á Nýja-Sjálandi og bannað að kynbæta, fjölga, dreifa eða selja þessa tegund, nema þá með ströngum skilyrðum. Það er umhugsunarefni að þessi tegund skuli í dag vera einna mest notaða tréð í skógrækt hér á landi.
Vörsluskylda og ágeng barrtré
Vandamálin héldu áfram að hrannast upp og árið 2011 kom út skýrsla sem dró upp skýra en dökka mynd af stöðunni (Wilding Conifers in New Zealand: Status Report). Þar kom m.a. fram að ef ekki væri brugðist við dreifingu „villibarrtrjáa“ myndi kostnaðurinn við að ná tökum á útbreiðslu þeirra aukast með veldisvaxandi hraða. Mælt var með þróun stefnumótunar og aðgerða á landsvísu til að hindra frekari dreifingu þessara trjáa og uppræta „villitré“. Það myndi einnig auðvelda áframhaldandi nytjaskógrækt og samstarf landeigenda um „vörsluskyldu“ því trén virtu engin mörk.
Vandinn vegna villitrjáa var að mestu til kominn vegna trjáræktarverkefna sem höfðu verið skipulögð og kostuð af ríkisvaldinu. Það þótti því eðlilegt að ríkið stæði undir kostnaði við að bregðast við umhverfisskaða sem af þeim hefði hlotist.
Í flokki ágengra innfluttra barrtegunda hafði stafafuran reynst sú langskæðasta og hana var að finna á um 60-70% þeirra svæða þar sem „villitré“ höfðu áhrif. Bent var á að lítill fengur væri í því að láta þau tré vaxa til nytja. Þótt þessi tegund gæti verið verðmæt á sínum heimaslóðum í Norður-Ameríku hefðu afurðir hennar ekki náð því að verða almennileg söluvara í Nýja-Sjálandi. Virði „villitrjáa“ til timbur- og trefjaframleiðslu væri lítið; tegundin hentaði yfirleitt ekki til þeirra hluta og trén á röngum stað, dreifð, illa vaxin og langt frá vinnslustöð.
Vörsluskylda og ágeng barrtré
Árið 2014 var samþykkt afar áhugaverð stjórnunaráætlun „The right tree in the right place – New Zealand Wilding Conifer Management Strategy“ sem gildir fyrir tímabilið 2015-2030. Þessi stefnumótandi áætlun myndi nýtast vel sem fyrirmynd fyrir Ísland.
Kjörorð þessarar þjóðaráætlunar eru „Rétt tré á réttum stað“ og markmiðið er að koma í veg fyrir útbreiðslu villibarrs og útrýma slíkum trjám á svæðum þar sem þau hafa komið sér fyrir. Skýrt er tekið fram í stefnumótuninni að á sama tíma og villibarr sé plága sé vel skipulögð skógrækt verðmæt auðlind sem skipti miklu máli fyrir þjóðina. Skógræktendur verði hins vegar að bera ábyrgð á því að trén dreifist ekki út fyrir þau afmörkuðu ræktunarsvæði sem tilgreind eru.
Stríðið gegn illgresi barrtré
Samhliða þessari áætlun hófst þjóðarátakið „stríðið gegn illgresi“ (The war against weeds) til að efla varnir gegn fjölda aðfluttra tegunda sem reynst höfðu ágengar og voru að umturna vistkerfum og valda alvarlegum breytingum á landslagi eyjanna. Þar við bættist ört vaxandi ótti við skógarelda, nokkuð sem þarf að taka ríkara tillit til á Íslandi.
Ákall var sent út til þjóðarinnar um að taka þátt í þessu átaki í verndun náttúrunnar. Baráttan gegn villibarri er eitt af forgangsverkefnunum og ber forsíða kynningarrits um verkefnið, sem skartar ungri stúlku með „feng sinn“, þess glögg merki (sjá mynd 2).
Baráttan við óvelkomin barrtré fór vel af stað. Árið 2016 samþykkti ríkisstjórnin um 1,5 milljarða kr. viðbótarframlag til að efla vinnu við fyrsta hluta áætlunarinnar, sem beint var að forgangssvæðum. Við gerð fjárlaga fyrir 2020-2021 samþykkti ríkisstjórn Nýja-Sjálands rúmlega 9 milljarða kr. fjárveitingu til næstu fjögurra ára. Þar af um 3,5 milljörðum kr. til að útrýma stafafuru og öðru „villibarri“ á þessu ári Þetta er umfangsmikið verkefni og var fjöldi ársverka um 550. Drjúg atvinnusköpun það.
Ísland og dýrkeypt mistök Nýsjálendinga
Reynslan af langtímaáhrifum skógræktar með innfluttum tegundum sem reynast ágengar í nýju umhverfi á mikilvægt erindi til Íslendinga. Gæti verið að hér á landi sé verið að gera sömu mistök og gerð voru á Nýja-Sjálandi fyrr á árum? Barrtrjám sem hafa náð kynþroska fjölgar hratt og þar með plöntum sem vaxa upp af fræi. Það blasir við að stafafura og fleiri barrtré eru að nálgast veldisvaxandi útbreiðslu víða um land. Langtímaáhrif þessara tegunda á önnur vistkerfi, líffræðilega fjölbreytni og landslag, svo fátt eitt sé nefnt, verða mikil, sjá mynd 3 – línurit).
Hér á landi ríkir andvaraleysi gagnvart áhrifum slíkrar skógræktar á náttúruna og ætti reynslan frá Nýja-Sjálandi að vera okkur víti til varnaðar ef ekkert er að gert. Línuritið (mynd 3) sýnir útbreiðslu villibarrs þar á tímabilinu 1900-2014 og það gefur afar skýra mynd af þeirri þróun sem hér gæti orðið.
Ekki eru til gögn til að meta þróunina hér á landi, en brýnt er að afla þeirra. Ýmislegt bendir til að stafafuran sé víða í svokölluðum taffasa, að búa um sig. Ekki kæmi á óvart ef einhver svæði væru á svipuðu stigi og Nýja-Sjáland var á um 1970, við upphaf stökkbreytingarinnar miklu í útbreiðsluhraða sem birtist svo ljóslifandi í línuritinu. Tvennt mun verða til að hraða þessu ferli hér frá því sem verið hefur. Annars vegar hve víða þessar tegundir hafa verið gróðursettar. Hins vegar hlýnandi loftslag og þar með styttra kynslóðabil, meiri fræmyndun og minni afföll.
Ábyrg skógrækt
Áríðandi er að óháðir aðilar leggi hlutlaust mat á langtímaáhrif skógræktar með innfluttum trjátegundum á náttúru Íslands og fjölmargt annað. Jafnframt að meta hve vel er staðið við alþjóðlega samninga sem þessu tengjast. Mikilvægt er að horfa þar til mun lengri tíma en Íslendingar eru vanir, t.d. til næstu 200 ára.
Mótun nýrrar stefnu í notkun innfluttra tegunda í skógrækt hér á landi þarf að byggja á slíkum grunni. Ef upp koma álitamál þarf að hafa varúðarregluna í heiðri og láta náttúru Íslands njóta vafans.