Mynd: Sigurður H. Magnússon

19. janúar 2023 | Sigfús Bjarnason

Kolefnisrækt, kolefnisjöfnun og grænþvottur

Uppfærsla 10. mars 2023: Kolviður hefur uppfært textann sem sýndur er á skjáskoti í þessari grein og notar ekki lengur hugtakið kolefnisjöfnun.

Skógrækt mun sjöfaldast hér á landi á næstu árum,” segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í Fréttablaðinu 8. desember 2022 og nefnir þrjár ástæður sem vega þyngst í þessari framtíðarsýn:

  • Stóraukið fjármagn frá stjórnvöldum vegna stefnunnar í loftslagsmálum.
  • Íslensk fyrirtæki sem vilja bjóða upp á kolefnisjafnaða vöru og þjónustu.
  • Einkaaðilar sem huga að skógrækt til að selja kolefniseiningar í grænt bókhald fyrirtækja um allan heim.

Trausti Baldursson skrifaði harðorða grein um framtíðarsýn Skógræktarinnar sem birtist á vef Fréttablaðsins 19. desember og fékk um hæl svar frá Pétri Halldórssyni kynningarstjóra Skógræktarinnar í Fréttablaðinu 27. desember.

Í grein Péturs kemur fram að skipta megi skógræktarverkefnum þar sem kolefnisbinding er aðaldriffjöðrin í tvo flokka:

  • Verkefni þar sem unnið er með ábyrgum hætti samkvæmt viðurkenndum stöðlum.
  • Verkefni sem ekki falla undir þá skilgreiningu.

Í fyrri flokknum eru kolefniseiningarnar ekki notaðar í grænt bókhald fyrr en þær eru vottaðar og raungerðar en í seinni flokknum eru framtíðar kolefniseiningar oft seldar einstaklingum og fyrirtækjum í nafni kolefnisjöfnunar.

Pétur skrifar að hvað varðar seinni flokkinn sé „ástæða til að taka undir varnaðarorð Trausta um mögulegan grænþvott.“

Framleiðsla á vottuðum kolefniseiningum er rétt að byrja og „öll þau verkefni sem hafin eru eða eru komin í undirbúningsferli hérlendis má kynna sér á vefnum carbonregistry.com,“ skrifar Pétur. Samanlagt eru, þegar þetta er skrifað, sex verkefni skráð á þeim vef, þar af aðeins eitt (Yggdrasill Carbon) með skráðar kolefniseiningar. Þetta eru fyrstu og einu vottuðu íslensku kolefniseiningarnar á markaðnum í dag og því dreg ég þá ályktun að öll önnur verslun með kolefniseiningar úr skógrækt á Íslandi, þar sem kaupandi og seljandi tala um kolefnisjöfnun og sjálfbærni, falli undir hugtakið grænþvott.

Grænþvottur

Í kynningarblaði Fréttablaðsins 17. nóvember 2022 um hreina orku kynna sig tveir aðilar sem bjóða til sölu kolefniseiningar úr skógræktarverkefnum:

Kolviður er stærstur á þessum markaði og hefur selt fjölmörgum fyrirtækjum kolefnisjöfnun í gegnum árin. Súrefni er ungt fyrirtæki sem hefur vottun að kjörorði sínu og vinnur eftir aðferðafræði Skógarkolefnis (skilyrði Skógræktarinnar fyrir kolefnisbindingu með skógrækt til vottunar). Skógræktarverkefni fyrirtækisins er samt sem áður ekki að finna á carbonregistry.com þegar þetta er ritað og þar með ekki heldur nokkrar vottaðar kolefniseiningar. Samt selur fyrirtækið sínar „kolefniseiningar í bið” sem vottaðar.

Kolefnisjöfnun

Kolviður hefur reiknivél á vef sínum þar sem reikna má út hve mörg tré þarf að gróðursetja til að kolefnisjafna bíl, flugfar eða kolefnislosun samkvæmt kolefnisbókhaldi.

Um kolefnisjöfnun er náttúrulega ekki að ræða því einingarnar sem seldar eru verða ekki til fyrr en á næstu áratugum. Það hindrar þó ekki fyrirtæki sem kaupa einingar af Kolviði, t.d. Toyota og Icelandair, að markaðssetja sig og sínar vörur og þjónustu sem kolefnisjafnaða, enda hefur Kolviður farið frjálslega með hugtakið kolefnisjöfnun.

Sjálfbærni

Súrefni kolefnisjöfnun ehf. notar í sinni markaðssetningu að viðskiptavinurinn kaupi sjálfbærni hjá þeim. Fyrirtækið bauð til dæmis upp á sjálfbærar jólagjafir nú um jólin. Kaupi maður skógræktarpakka frá þeim sem kallaður er Kagginn fær maður sem kvittun fyrir kaupunum „staðfesta kolefnisbindingu” fyrir sparneytinn bíl sem keyrður er 11.000 km á ári.

Áætlaður bindingartími er 50 ár svo í raun og veru er það bíllinn sem keyrður verður árið 2072 sem kannski verður sjálfbær. En fyrirtækið býður líka upp á áskrift að þessum pakka. Ef maður kaupir hann ár eftir ár, munu þá ekki bílarnir að lokum vera orðnir kolefnisjafnaðir og sjálfbærir? Hefur maður þá ekki lagt sitt á vogarskálarnar til að hjálpa til við að ná markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040?
Skoðum það örlítið nánar:

Gagnrýni byggð á réttum tölum

Pétur fagnar í grein sinni gagnlegu aðhaldi í skógræktarmálum, sérstaklega „gagnrýni sem er byggð á réttum tölum og sannindum.” Eftirfarandi útreikningar eru byggðir á gögnum á Skógarkolefnisreikni Skógræktarinnar sem Pétur vísar til í sinni grein. Ég nota Kaggapakkann og Súrefnisskóginn sem dæmi. Súrefnisskógurinn er í nágrenni við brúna yfir Markarfljót og ég nota tölur á Skógarkolefnisreikninum um áætlaða árlega kolefnisbindingu alaskaaspar og sitkagrenis á þeim stað.

Samkvæmt áætlun Súrefnis kolefnisjöfnunar ehf. munu 13 tré binda 1,6 tonn koltvísýrings á 50 árum. Samkvæmt tölunum á Skógarkolefnisreikninum um árlega bindingu verður bindingin árið 2040, þegar Ísland á að vera orðið kolefnishlutlaust land, orðin tæplega 0,24 tonn, eða tæplega 15% af þessum 1,6 tonnum. Eftir 33 ár, árið 2055, verður bindingin orðin helmingurinn af losun bílsins. Og árið 2072 fær maður svo vonandi vottaða staðfestingu frá fyrirtækinu um að sú binding sem maður keypti árið 2022 hafi raungerst.

Áætluð uppsöfnuð árleg binding í Súrefnisskóginum þegar áætluð heildarbinding á 50 árum er 1,6 tonn koltvísýrings.

En verður þetta ekki sjálfbærara og aksturinn fljótlega kolefnisjafnaður ef maður gerir þetta ár eftir ár og kaupir Kaggapakkann í áskrift? Skoðum það aðeins nánar: 

Að 50 árum liðnum eru skógræktarreitirnir orðnir 50 – einn sem búinn er að ná 50 ára aldri, annar sem er 49 ára og svo framvegis, allar götur niður í eins árs gamla nýskógrækt. Hér þarf því að reikna uppsafnaða bindingu allra reita. Samanlagt er þá áætluð binding orðin tæplega 30 tonn eftir 50 ár eins og línuritið hér að neðan sýnir. Á sama tíma er bíllinn búinn að losa 80 tonn, svo þrátt fyrir árleg kaup á kolefnisbindingu sem samsvarar losun bílsins er kolefnisskuldin orðin 50 tonn.

Áætluð uppsöfnuð árleg binding á 50 reitum (nýr reitur á hverju ári) í Súrefnisskóginum þegar áætluð heildarbinding í hverjum reit er 1,6 tonn koltvísýrings á 50 árum. Losun bílsins er 1,6 tonn á ári.

Ef við lítum aftur til ársins 2040, þegar Ísland á að vera orðið kolefnishlutlaust, verður bíllinn búinn að losa 28,8 tonn frá 2022 og skógurinn búinn að binda tæplega 1,7 tonn, eða tæplega 6% af losuninni.

En verður aksturinn þá aldrei kolefnishlutlaus? Jú, 50 árum eftir síðasta ökutúrinn mun áframhaldandi vöxtur trjánna sjá til þess að hafa kolefnisjafnað aksturinn eins og línuritið hér að neðan sýnir. Það er að segja ef, og það er stórt EF, ekkert af kolefninu sem trén hafa bundið á þessum 50 árum losnar út í andrúmsloftið aftur.

Áætluð uppsöfnuð árleg binding á 50 reitum í 100 ár (nýr reitur á hverju ári fyrstu 50 árin) í Súrefnisskóginum þegar áætluð heildarbinding í hverjum reit er 1,6 tonn koltvísýrings á 50 árum. Losun bílsins er 1,6 tonn á ári fyrstu 50 árin.

Kolefnislosun vegna jarðvinnslu

Pétur segir það vera ósannindi í grein Trausta að skógar sem plantað er nú, fari ekki að binda kolefni fyrr en eftir rúman áratug. „Góð gögn eru einnig til um að jarðvinnsla til nýskógræktar leiðir til lítillar sem engrar kolefnislosunar. Skógurinn leiðir fljótt til bindingar sem vegur upp þá litlu mögulegu losun,“ segir hann.

Þetta er ekki rétt. Það er ekki til nógu mikið af góðum gögnum um áhrif jarðvinnslu á kolefnislosun úr íslenskum jarðvegi til að draga þessa ályktun.

Í dæminu hér að ofan er koltvísýringsbinding í trjánum eftir 10 ár orðin 5,5% af áætlaðri heildarbindingu á 50 árum, eða gróflega áætlað sem samsvarar 27,5 tonnum á hektara. Magn kolefnis í jarðvegi er mjög breytilegt, sjá t.d. kort af áætluðum kolefnisforða í jarðvegi í riti LBHI um Loftslag, kolefni og mold, bls. 13.  Ef við tökum sem dæmi jarðveg sem inniheldur 250 tonn kolefnis á hektara þá samsvarar það 916 tonnum koltvísýrings. Ef jarðvinnslan veldur meira en 3% minnkun kolefnisforðans á 10 árum verður heildarútkoma áratugsins nettólosun kolefnis – en ekki nettóbinding.

Við munum fjalla nánar um þetta í komandi færslum á þessum vef.