Mynd: Tómas Grétar Gunnarsson
9. febrúar 2023 | Jón Gunnar Ottósson
Verndum mófuglana
Þessi grein birtist upprunalega á frettabladid.is 9. febrúar 2023
Mófuglarnir okkar, sérstaklega heiðlóan og spóinn, eiga hug og hjörtu okkar Íslendinga. Sama er að segja um aðrar ábyrgðartegundir okkar eins og lóuþræl, stelk og jaðrakan, en yfir 20% af Evrópustofni þessara tegunda eiga sér varplönd á Íslandi. Þessir vinir okkar hafa flestir verið friðaðir í marga áratugi, allir friðaðir frá 1914 nema spóinn sem var loksins friðaður 1954 þegar ný lög voru sett með vísun í Parísarsamkomulagið svokallaða um fuglavernd. Eini mófuglinn sem leyft hefur verið að veiða tímabundið á hverju ári er rjúpan. Á síðustu öld var hún þó stundum alfriðuð þegar stofninn var í lágmarki. Enginn ágreiningur hefur verið um friðun mófuglanna þótt deilt hafi verið um veiðitíma á rjúpu, sérstaklega á síðari árum. Íslendingar vilja að við verndum þessa sambýlinga okkar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.
Það skýtur því skökku við að við skulum ekki vernda heimili þessara fugla. Það dugir ekki að banna skotveiðar eða dráp einstaklinga með öðrum hætti ef við verndum ekki búsvæði þeirra eins og við höfum skuldbundið okkur til að gera með aðild að alþjóðlegum samningum. Nú ber svo við að íslensk stjórnvöld boða herferð gegn heimilum þessara vina okkar með loftslagsvána til réttlætingar. Það á að rústa mólendinu til að rækta skóga með framandi ágengum tegundum eins og stafafuru og sitkagreni sem gætu skilað „skógarafurðum“; nýrri „auðlind“ auk þess að binda kolefni úr andrúmslofti. Það á sem sagt bæði að eiga kökuna og éta hana.
Vilja Íslendingar þessa boðuðu vegferð stjórnvalda eða vernda heimili mófuglanna okkar og ásýnd landsins, sem mun breytast verulega með skógum stórvaxinna barrtrjáa? Ég held ekki. Við elskum mófuglana okkar og mólendin. Við viljum ekki að óprúttnir aðilar selji heimkynni fuglanna okkar til aðila sem vilja búa til kolefniseiningar með því að rústa mólendinu til að fegra aðra skítugri starfsemi sína. Það er umhugsunarvert að opinber stofnun, Skógræktin, skuli hafa forgöngu um að draga hingað erlenda aðila í þessum tilgangi. Siglt er undir fölskum flöggum með loforðum um kolefnisjöfnun og vottun kolefniseininga (sbr. upplýsingar á vefnum natturuvinir.is). Sé vilji til að halda lóunni og spóanum hér megum við ekki láta skógræktaræðið, sem byggt er á mjög vafasömum forsendum, spilla heimilum þeirra.
En það er fleira en búsvæði fugla sem mun breytast við skógrækt með stórvöxnum framandi tegundum. Það þarf ekki að fara víða um landið til að sjá að ásýnd landsins mun gerbreytast. Þá er ljóst að skógrækt mun hafa gríðarleg áhrif á jarðfræðilega og líffræðilega fjölbreytni, ekki síst á þá fjölbreytni landslags sem Ísland er þekkt fyrir. Ekki má gleyma að skógrækt getur einnig haft mikil áhrif á minjar og menningarlandslag.
Allt þetta sem hér hefur verið nefnt er að öllum líkindum undirstaða þess að ferðamenn hafa um langa hríð haft mikinn áhuga á landinu. Við skógrækt er því margt í húfi og eins og Sigurður H. Magnússon og Hans H. Hansen benda á í nýlegri grein sem birt hefur verið á vefnum natturuvinir.is þarf að fara fram með mikilli gát og nauðsynlegt að skipuleggja skógræktina vandlega ef ekki á illa að fara. Þar eiga ekki aðeins áhugamenn um skógrækt að ráða för heldur einnig og ekki síður þeir sem þekkingu og skilning hafa á þeim þáttum sem hér hafa verið nefndir.
Sýnum skynsemi og höfum varúðarregluna að leiðarljósi.