Skógarbotn í stafafuruskógi. Mynd: Sigurður H. Magnússon

29. ágúst 2024 | Sveinn Runólfsson

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðinu 29. ágáust 2024.

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtækið Yggdrasill Carbon hefur látið rústa ríkulegu mólendi, með gnægð aðalbláberja og fuglalífi í landi Saltvíkur í Norðurþingi. Komið hefur fram að markmið landeigandans (sveitarfélagsins) sé að búa til útivistarskóg og sveitarfélagið hafi síðan leitað til Yggdrasils til að fá hjálp við að fjármagna verkefnið með framleiðslu og sölu á kolefniseiningum. Stafafura sem er framandi ágeng tegund er þar í meirihluta. Óhætt er að fullyrða að umrætt berjaland er með mikilli líffræðilegri fjölbreytni og háu kolefnisinnihaldi. Botngróður stafafuruskóglendis er tegundafár og ömurlegur á að líta og í verkefnum þar sem framleiða á kolefniseiningar má gera ráð fyrir að grisjun verði lítil. Skógrækt til útivistar og kolefnisbinding með einræktun trjáa eiga lítið sameiginlegt

Þetta land mun með tímanum breytast í skógarbotninn á myndinni að ofan.
Mynd: Þorkell Lindberg Þórarinsson

Almenningur telur væntanlega að þetta náttúruníð í Saltvík sé einsdæmi hér á landi. Því miður fer því víðs fjarri. Þetta sama fyrirtæki er á allra síðustu árum að rækta skóga með svipuðum hætti á allnokkrum stöðum á landinu. Alls hefur verið gróðursett í stór svæði undir fána Skógarkolefnis, sem er í umsjá Lands og skógar, á að minnsta kosti 20 stöðum á landinu, oft með herfingu eins og í Saltvík. Vissulega ekki alltaf í jafnríkt mólendi eins og þar, en allt undir merkjum framleiðslu kolefniseininga til sölu. Engar raunverulegar mælingar hafa verið gerðar á gróðursetningarsvæðunum hvað varðar kolefnisinnihald jarðvegs, né á losun eða bindingu fyrir og eftir jarðvinnslu. 

Stefna stjórnvalda – Líf og land

Líf og land er opinber stefna stjórnvalda sem stofnuninni Land og skógur ber að vinna eftir. Þar segir meðal annars: „Gróður og jarðvegur geyma mikið kolefni. Með því að stuðla að frekari bindingu kolefnis og koma í veg fyrir að kolefni losni úr gróðri og jarðvegi er dregið úr áhrifum landnotkunar á loftslag. Ýmis annar ávinningur getur fylgt slíkum aðgerðum sé rétt að þeim staðið, s.s. efling líffræðilegrar fjölbreytni, bætt miðlun vatns, jarðvegsvernd og aukin framleiðni lands“. 

Ennfremur segir í Lífi og landi: „Í samræmi við þessar áherslur (stefnunnar) er mikilvægt að huga að áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á líffræðilega fjölbreytni, sérstaklega fuglastofna“. Ísland ber ábyrgð á fuglategundum sem þrífast best á bersvæði. Aukin skógrækt hefur neikvæð áhrif á afkomu þessara tegunda og upplýsingar um þessi áhrif eru grundvöllur að upplýstri ákvarðanatöku hvað varðar breytingar á landnotkun. Markmið stjórnvalda er að samþætta stefnu í loftslagsmálum, jarðvegsvernd og um líffræðilega fjölbreytni. Í ljósi stefnu stjórnvalda um eflingu aðgerða í þágu loftslagmála þarf m.a. að huga að því hvort notkun framandi tegunda í skógrækt hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Því er talin ástæða til að unnið verði áhættumat um notkun algengustu trjátegunda í skógrækt og að útbúnar verði leiðbeiningar um notkun þeirra, hvernig haga eigi vali á landi og að hverju þurfi að gæta. Val á landi til skógræktar þarf ávallt að taka tillit til náttúruverndar, minjaverndar, landslags og skógrækt skal vera í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga“. 

Framkvæmdirnar í Saltvík 

Við framkvæmdirnar í Saltvík voru þessar áherslur stjórnvalda að engu hafðar. Markmið stefnunnar 2022-2031 eru skýr: „Til að tryggja að vistkerfi verði heil og fjölbreytt og stuðli að auknum umhverfisgæðum á borð við jarðvegsvernd, aukna útbreiðslu náttúruskóga og vernd og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, verði unnið að eftirfarandi markmiðum til ársins 2031 ……. Efla verndun heilla vistkerfa og gróðurleifa. Efla og vernda líffræðilega fjölbreytni og takmarka rask vistkerfa af völdum aðgerða á sviði landgræðslu, skógræktar og við endurheimt votlendis og gróðurleifa“.

Lög og alþjóðasamningar

Það er ekki bara þessi stefna stjórnvalda sem Yggdrasill hefur að engu, heldur eru þessar skógræktarframkvæmdir í Saltvík í engu samræmi við markmið laga um náttúruvernd og stríða gegn alþjóðlegum samningum um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. 

Í 2. gr. laga um náttúruvernd er fjallað um verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir. Í stuttu máli er meginmarkmiðið að viðhalda fjölbreytni vistgerða/vistkerfa og búsvæða og viðhalda útbreiðslusvæðum þeirra, tegundafjölbreytni og vistfræðilegum ferlum. Einnig að tryggja virkni vistkerfa til framtíðar, m.a. með því að ábyrgjast ákjósanlega verndarstöðu þeirra. Í greininni segir sérstaklega að þessi markmið eigi ekki við framandi tegundir. 

Þessi grein náttúruverndarlaganna byggir á alþjóðasamningum, s.s. samningnum um vernd líffræðilegar fjölbreytni og Bernarsamningnum sem er grundvallarsamningur Evrópuríkja um vernd lífríkis í Evrópu bæði innan og utan Evrópusambandsins. ESB hefur svo sínar eigin tilskipanir til að fullnusta vernd lífríkis, m.a. með neti vistfræðilegra verndarsvæða, Natura 2000. 

Tilgangslaus verkefni

Þeir sem standa fyrir og bera ábyrgð á þessum hernaði gegn náttúru landsins með óheftri skógrækt til kolefnisbindingar verða að svara hvers vegna þeir stunda þessa harkalegu jarðvinnslu. Þeim ætti að vera ljóst að þegar tegundaríku landi með kolefnisríkum jarðvegi er rústað og engar raunverulegar mælingar gerðar á kolefnisbúskap eða úttekt á líffræðilegri fjölbreytni munu skógræktarverkefnin ekki uppfylla þær gæðakröfur sem krafist er til vottunar. Án vottunar verða engar söluhæfar kolefniseiningar framleiddar og landeigandinn fær ekki tekjur af verkefninu. 

Það er með ólíkindum að fyrirtæki og jafnvel sveitarstjórnir skuli láta blekkjast til að fjárfesta í kolefnisbindingu sem engin trygging er fyrir að muni fá vottun sem byggir á faglegum og mælanlegum grunni. Fyrir hverja er þá verið að misþyrma landinu eins og gert hefur verið við Húsavík? 

Skógrækt í mólendinu við Húsavík er dæmi um þá staðreynd að hér á landi er virk náttúruvernd utan friðlýstra svæða nánast engin. Það er kominn tími til að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu og setji reglur sem koma í veg fyrir landníðslu af þessu tagi. 

F. h. stjórnar VÍN, vina íslenskrar náttúru
Sveinn Runólfsson, formaður stjórnar. 

Áskrift
Notify of
guest
1 Comment
Elst
Nýjast
Inline Feedbacks
Skoða allar athugasemdir
Hjörtur Gíslason
Hjörtur Gíslason
13 days ago

Þarna er verið að drepa íslenska náttúru.