Mynd: Erica Caldvell

25. október 2025 | Roger Crofts

Vandi Íslands til framtíðar – hugleiðingar erlends vinar

Þessi grein birtist upprunalega í Morgunblaðinu 25. október 2025 og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Morgunblaðsins.

Í þrítugustu og fimmtu heimsókn minni til Íslands sl. sumar tók ég eftir því að í umræðunni um náttúruvernd annars vegar og uppbyggingu endurnýjanlegrar orku hins vegar hefur síðarnefnda sjónarmiðinu vaxið verulega fiskur um hrygg. Grundvallarspurningum er ekki svarað og nýjar nálganir hafa ekki verið ákvarðaðar.

Í hverju felst vandinn?

Ekki hefur tekist að útkljá langvinnar deilur um verndun svæða annars vegar og raforkuframleiðslu hins vegar. Núverandi nálgun byggist fyrst og fremst á verkefnum sem framkvæmdaaðilar leggja til, einkum Landsvirkjun, og nú einnig vindorkufyrirtæki í erlendri eigu. Með því er byrjað á öfugum enda. Byrja þarf á því að greina innlenda raforkuþörf til þess að grundvalla ramma um mat á einstökum umsóknum.

Fólksfjölgun, aukinn fjöldi ferðamanna, orkuskipti og vaxandi umsvif gagnavera og í fiskeldi eru allt þættir sem valda því að raforkuþörfin er að aukast. Mikil óvissa felst þó í því hvort álver í erlendri eigu, sem nota um 80% af þeirri raforku sem framleidd er, muni halda áfram rekstri.

Núverandi valdhafar eru hallir undir frekari orkuuppbyggingu, bæði af hálfu ríkisfyrirtækja og erlendra fjárfesta. Þetta ójafnvægi þrífst vegna þess að aðhald og mótvægi í ákvarðanatöku skortir. Ákvarðanir kunna að vera teknar núna sem erfitt getur reynst að snúa við þegar hinn pólitíski pendúll sveiflast á annan veg. Andstaða við aukna raforkuframleiðslu er máttlaus, bæði í opinberri umræðu og á vettvangi stjórnmálanna, og beinist einkum að tilteknum framkvæmdastöðum, fremur en framtíðaráskorunum á landsvísu. Einnig skekkir það stöðuna að umhverfismál og orkumál séu á höndum sama ráðuneytis auk þess sem ekki er komin reynsla á starfsemi Lands og skógar og Náttúruverndarstofnunar.

Hvað ber að gera?

Hér á eftir eru nokkrar tillögur um hvernig takast má á við hinn tvíþætta vanda vegna loftslagsbreytinga og hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni um leið og komið er til móts við réttmæta orkuþörf framtíðarinnar.

  1. Óháðum aðilum verði falið að gera úttekt á framtíðarorkuþörf þar sem settar verði fram sviðsmyndir bæði með og án núverandi og hugsanlegra framtíðarstórnotenda í stóriðju.
  2. Skorað verði á vísindasamfélagið að leggja fram hlutlægt mat á því hvaða afleiðingar núverandi efnahagsþróun hefur fyrir úrlausn hins tvíþætta vanda. Greina þarf bæði það sem er á réttri braut og það sem er skaðlegt.
  3. Skorað verði á vísindasamfélagið að leggja fram hlutlægt mat á því hvaða afleiðingar núverandi efnahagsþróun hefur fyrir úrlausn hins tvíþætta vanda. Greina þarf bæði það sem er á réttri braut og það sem er skaðlegt.
  4. Færa þarf áherslu frá ofansæknum lausnum sem líta fram hjá þörfum og væntingum heimamanna og kalla fram andstöðu þeirra yfir í neðansæknar lausnir.
  5. Ríkisstofnanir á sviði náttúruverndar þurfa allar að sinna samþættum og fjölþættum verkefnum sem eru meiri að umfangi en sem nemur verkefnum hinna upprunalegu stofnana og takast jafnframt sérstaklega á við hinn tvíþætta vanda. Þetta hefur ekki verið raunin þar sem sameiningunum hefur ekki fylgt rökstuðningur fyrir breytingunum, né hefur þeim verið fylgt eftir með skýrri stefnu, markvissri stefnumótun og aðgerðaáætlunum á vegum stjórnvalda, að Landi og skógi undanskildu. Jafnframt hafa þessar sameiningar ekki gengið nægilega langt. Þegar framtíðarstefna hefur verið samþykkt ætti að íhuga að koma á fót einni heildstæðri stofnun, Auðlindastofnun.
  6. Stjórnvöld ættu að endurskoða ferlið við rammaáætlun til að meta heildarmyndina fyrir Ísland. Halda ber áfram starfi sérfræðihópa en beina því að nýjum markmiðum og bæta sérstaklega starfsemi vinnuhópa 3 og 4. Vinna þarf orkustefnu sem mætir þörfum um land allt með hliðsjón af efnahagslegum tækifærum um leið og brugðist er með jákvæðum hætti við kröfum EES-samningsins og annarra alþjóðlegra skuldbindinga í tengslum við loftslagmál og líffræðilega fjölbreytni.
  7. Vinna þarf nýjar stefnur og verklag til að vinda ofan af hólfaskiptingu innan stjórnsýslunnar. Þær þurfa að ná yfir nýtingu náttúruauðlinda, þarfir og ávinning samfélaga og almennings og verndun íslenskrar náttúru.
  8. Taka ber hlutverk Landsvirkjunar til gaumgæfilegrar endurskoðunar til að tryggja að stjórnarhættir, hlutverk, ábyrgð og stefna fyrirtækisins séu skilgreind af stjórnvöldum og að það beri fulla opinbera ábyrgð.
  9. Stjórnvöld ættu að móta framtíðarstefnu um verndun náttúru og náttúruauðlinda með hliðsjón af minnkandi landnýtingu til landbúnaðar, hækkandi meðalaldri bænda, breyttu mataræði íbúa og gesta, fjölgun fólks af erlendum uppruna og vaxandi ferðaþjónustu.
  10. Ríkisstjórnin ætti að skoða hvernig aðild Íslands að EES verði nýtt með markvissari hætti til að styðja við verndun náttúru og auðlinda, t.d. með innleiðingu vatnatilskipunar ESB, kerfis sem er hliðstætt við Natura 2000 og aðra alþjóðasamninga um náttúru, þar á meðal um Ramsarsvæði.

Höfundur er ráðgjafi um umhverfisvernd og félagi í VÍN.

Áskrift
Notify of
guest
0 Comments
Elst
Nýjast
Inline Feedbacks
Skoða allar athugasemdir