Fróðlegt í miðlum
Jarðvegstilskipun Evrópu
Anna María Ágústsdóttir skrifar um Lög um eftirlit með jarðvegi, Jarðvegstilskipun Evrópusambandsins (ESB), sem tóku formlega gildi 16. desember 2025 og marka fyrstu löggjöf ESB sem helguð er jarðvegsvernd. Markmið hennar er að allur jarðvegur innan ESB verði heilbrigður fyrir árið 2050.
Náttúrufræðistofnun 2. desember 2025
Mikilvægt innlegg í umræðu um útbreiðslu stafafuru á Íslandi
Í tímaritinu New Forests var í dag var birt svargrein eftir hóp íslenskra sérfræðinga þar sem fjallað er um vistfræðilegar afleiðingar útbreiðslu stafafuru (Pinus contorta) á Íslandi og brugðist við nýlegri grein eftir Riege o.fl. (2025), sem fjallar um vöxt og kolefnisbindingu tegundarinnar. Höfundar leggja áherslu á að niðurstöður um hraðan vöxt og lífmassa stafafuru verði ekki túlkaðar án þess að tekið sé tillit til umfangsmikilla upplýsinga um vistfræðileg áhrif tegundarinnar. Rannsóknir sýna að stafafura er þegar farin að breiðast hratt út úr skógræktarlöndum og ryður sér inn í náttúruleg vistkerfi þar sem hún dregur úr fjölbreytileika æðplantna, breytir gróðurfari og hefur áhrif á búsvæði fugla.
Bann við grænþvotti 2026
Þann 17. janúar sl. samþykkti Evrópuþingið nýja tilskipun um neytendamál þar sem lagt er bann við að markaðssetja vörur og þjónustu með villandi upplýsingum um kolefnisjöfnun. Þessa tilskipun eiga lönd evrópska efnahagssvæðisins að innleiða í sína löggjöf ekki síðar en 2026.

Þetta ætti að binda enda á þann grænþvott sem átt hefur stað hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum í samvinnu við Kolvið. Það er hægt að kaupa gróðursetningu trjáa hjá Kolviði, og þar með framtíðar kolefnisbindingu, en það þýðir ekki að kaupandinn hafi kolefnisjafnað starfssemi sína. Flutningabíllinn hér að ofan hefur ekki verið kolefnisjafnaður!
Aukin meðvitund um þetta hefur orðið til þess að t.d. Icelandair hefur lagt niður reiknivél sína um kolefnisjöfnun flugferða og Toyota hefur lokað síðunni Sporlaus þar sem sagt var að kaupendur hybrid-bíla gætu notið þess að aka án þess að skilja kolefnisspor eftir sig. Vonandi mun Stjórnarráðið gera hið sama á þessu ári eftir ábendingu VÍN um grænþvott síðustu ára.
Rétt er að taka það fram að Kolviður notar ekki lengur hugtakið kolefnisjöfnun i markaðssetningu. En viðskiptavinirnir verða líka að hætta að gera það. Sölufélag garðyrkjumanna vinnur sjálfsagt vel að umhverfismálum en staðhæfingar þeirra um kolefnisjöfnun standast ekki skoðun.
Sigfús Bjarnason
sigfus@natturuvinir.is