Mynd: Ágúst Guðmundsson
6. mars 2024 | Ólafur Sigmar Andrésson
Loftslagsáhrif skógræktar eru margþætt – útdráttur úr umfjöllun í vísindaritinu Science
Þann 23. febrúar birtist í Science grein undir titlinum „Chemistry-albedo feedbacks offset up to a third of forestation’s CO2 removal benefits“ (Afturkast vegna breytinga á efnafræði og endurskini vega upp allt að þriðjungi af loftslagsbótum skógræktar vegna bindingar koltvísýrings), en fyrsti höfundur er James Weber við háskólann í Sheffield í Englandi.
Þessari tæknilegu rannsóknagrein fylgir einnig stutt viðhorfsgrein rituð af óháðum fagaðila, Garry Hayman við bresku vistfræði og vatnafræðistofnunina í Wallingford, „Forestry is not an easy fix“ (Skógrækt er ekki auðveld lausn). Þar eru m.a. rifjaðar upp svipaðar rannsóknir þar sem líkleg áhrif stórfelldrar skógræktar og annars konar ræktunar á loftslag eru metin með líkanagerð. Í þeim var ályktað að endurheimt skógar og skógrækt á gróðursnauðum svæðum gæti bundið allt að fjórðung þess koltvísýring sem mannkyn losar árlega. Í þeirri líkanasmíð var þó ekki tekið tillit til áhrifa vegna rokgjarnra lífrænna efna sem skógar gefa frá sér og breytinga á varmaáhrifum sólgeislunar við breytingar á endurkasti sem verða við skógrækt.
Í grein Weber og samstarfsfólks er aftur notuð líkanasmíð af loftslagi Jarðar til að meta líkleg áhrif víðtækrar skógræktar og eldsneytisakuryrkju, en bætt við líklegum áhrifum rokgjarnra lífrænna efna og breytinga á endurkasti sólarljóss. Niðurstöðurnar benda til að þessir tveir viðbótarþættir geti vegið upp loftslagsáhrif stórfelldrar skógræktar um nærri einn þriðja sé horft á Jörðina sem heild. Áhrif rokgjörnu efnanna eru hvað mest í hitabeltinu og á heittempruðum svæðum, en áhrif endurskinsbreytinga verða hvað mest á norðlægum slóðum. Vísindamenn hafa áður bent á að við barrskógrækt á svæðum þar sem snjóþekja er veruleg, þá geta ætlaðar loftslagsbætur vegna skógræktar orðið litlar eða engar vegna þess hve mikil breyting verður á endurskini. Barrskógar draga vel í sig sólgeislun og hita svo umhverfi sitt, en snjór endurkastar megninu af sólarljósinu og dregur í sig miklu minni varma (sjá grein Ólafs S. Andréssonar á vef VÍN; „Barrskógar, snjóþekja og hitafar – getur barrskógur valdið hækkun á hita?”
Í viðhorfsgrein Hayman’s er einnig bent á að veðurfarsþættir og breytt veðurfar, svo sem miklir þurrkar, ásamt plágum af völdum örvera og skordýra, geti haft áhrif á skóga og þar með loftslag, en býsna erfitt er að sjá það fyrir með líkönum. Þess vegna er vissara að fara varlega og meta vandlega líkleg og sérstaklega fyrirsjáanleg áhrif af stórfelldri skógrækt. Og það er fleira sem getur hangið á spýtunni sbr. grein Ingibjargar Svölu Jónsdóttur á vef VÍN: „Skógrækt er ekki alltaf sjálfsögð sem loftslagsaðgerð”.
Tilvísanir:
- Weber o.fl., Science 383, 860–864 (2024). Chemistry-albedo feedbacks offset up to a third of forestation’s CO2 removal benefit.
- Hayman, G., Science 383, 833–834 (2024). Perspective: Forestry is not an easy fix.
- Friedlingstein o.fl. 2023. Earth System Science Data 15, 5301–5369 (2023). Global carbon budget 2023.
Viðbót 9. apríl 2024:
Grein með svipaðar niðurstöður í tímaritinu Nature Communications
Í grein eftir Hasler og samverkamenn sem birtist 26. mars 2024 í tímaritinu Nature Communications með titlinum “Accounting for albedo change to identify climate-positive tree cover restoration” (Reiknað með breytingum á endurkasti til að finna skógarendurheimt með jákvæð loftslagsáhrif) er beitt svipuðum aðferðum og greint er frá hér að ofan, og komist er að svipuðum niðurstöðum, m.a. að það sé einkum á barrskógabeltinu og á mjög þurrum svæðum (“drylands”) sem jákvæð áhrif vegna kolefnisbindingar við skógrækt eru vegin upp af hlýnun vegna breytinga á endurkasti. Það er því mikilvægt að taka breytingar á endurkasti með í reikninginn þegar nýta skal skógarendurheimt til að vega á móti hlýnun lofthjúpsins. Jafnframt er bent á að í dag er megnið af slíkri kolefnisbindingu með skógrækt á fremur heppilegum svæðum þar sem endurkastsbreytingar vega ekki upp meir en 20% af áhrifum kolefnisbindingar.
Hasler, N., Williams, C.A., Denney, V.C. et al. Accounting for albedo change to identify climate-positive tree cover restoration. Nat Commun 15, 2275 (2024). https://doi.org/10.1038/s41467-024-46577-1