Jarðvinnsla með TTS herfi í Saltvík. Mynd: Þorkell Lindberg Þórarinsson
25. ágúst 2024 | Sigfús Bjarnason
Kolefnislosun vegna jarðvinnslu í kolefnisbindingarverkefnum
Fyrirtækið Yggdrasill Carbon vinnur að framleiðslu vottaðra kolefniseininga í náttúru Íslands og notar í flestum sínum verkefnum Skógarkolefni sem vottunarstaðal. Skógarkolefni var þróað af Skógræktinni eftir breskri fyrirmynd (UK WCC) og er nú í umsjá Lands og skógar.
Skógræktarsvæði Skógarkolefnis eru flest undirbúin fyrir gróðursetningu með svo kölluðu TTS-herfi og varð sú aðferð einnig fyrir valinu í Saltvík. Samkvæmt Skógarkolefni skal „meta losun sem verður vegna röskunar á gróðri og jarðvegi við undirbúning/jarðvinnslu fyrir gróðursetningu og draga hana frá á fyrsta ári“. Í þeim þremur Skógarkolefnisverkefnum sem vottuð hafa verið þegar þetta er skrifað var það ekki verið gert, en vottunarstofan (iCert) telur samt að fullnægjandi gögn liggi fyrir og að þessi krafa Skógarkolefnis sé uppfyllt.
Í hvert sinn sem kolefnislosun vegna jarðvinnslu skógræktarverkefna kemur til umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum stígur einhver talsmaður Skógarkolefnis fram og segir að losunin sé svo lítil að það þurfi ekki að reikna með henni við útreikninga á loftslagsávinningi verkefnanna. Þetta sýni íslenskar rannsóknir!
Úlfur Óskarsson á skrifstofu Skógarkolefnis hjá Landi og skógi undirstrikaði þetta nýlega í grein í Heimildinni um áhrif jarðvinnslu til nýskógræktar á kolefnisbindingu. Í greininni er ágætis almennur fróðleikur um jarðvinnslu við skógrækt og kolefnislosun vegna hennar. Í lok greinarinnar dregur hann svo þá ályktun að „hérlendar iðufylgnirannsóknir gefa vísbendingar um að áhrif losunar vegna jarðvinnslu séu lítil og skammvinn“. Máli sínu til stuðnings vísar hann til tveggja rannsókna.
Ekki ætla ég að draga í efa ágæti þessara rannsókna en mér er hins vegar fyrirmunað að skilja hvernig niðurstöður þeirra sé hægt að nota til að draga þessa ályktun og að starfsmenn Lands og skógar haldi þessu svo stíft fram sem algildum sannleik að vottunarstofan taki það sem góð og gild rök fyrir því að verkefnin uppfylli kröfur Skógarkolefnis.
Rannsóknirnar sem um er að ræða eru iðufylgnimælingar á kolefnisjöfnuði lerkiskógar í Vallarnesi, 12–14 árum eftir jarðvinnslu með TTS herfi, og asparskógar í Gunnarsholti, sjö árum eftir gróðursetningu á landi þar sem túnþökur höfðu verið fjarlægðar.
Iðufylgnimælingar gefa mynd af kolefnisflæði vistkerfisins það ár sem rannsóknin var gerð. Þær segja ekkert um hversu langt kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi er komin á leið með að vinna upp þá kolefnislosun sem jarðraskið olli í upphafi. Áhrif jarðvinnslu á niðurbrot lífrænna efna í jarðvegi eru að mestu horfin eftir 12–14 ár svo að niðurstöður rannsóknarinnar í Vallarnesi segja ekkert til um upphafleg áhrif jarðvinnslunnar.
Rannsóknin í Gunnarsholti er nær „jarðvinnslunni“ í tíma en þar reyndist bindingin í vistkerfinu vera 3,7 tonn CO2/ha. Samkvæmt reiknivél Skógarkolefnis er áætluð binding í asparskógi á þessu svæði um 6,5 tonn CO2/ha á sjöunda ári. Annað hvort hafa því aspirnar orðið fyrir einhverjum áföllum eða vistkerfið er enn að losa kolefni vegna „jarðvinnslunnar“. Það er þó frekar ólíklegt þar sem verulegur hluti kolefnisins var fluttur af svæðinu með túnþökunum og er þar með ekki með í mælingunum!
Í kvöldfréttum RÚV þann 21. ágúst var viðtal við prófessor Bjarna Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ekki dreg ég það í efa það sem hann sagði að skógrækt auki oft kolefnisforða jarðvegs þegar til lengri tíma er litið. Það svarar þó ekki spurningunni um hve fljótt má búast við að kolefnisbinding bæti fyrir kolefnislosun vegna jarðvinnslu eins og þá sem framkvæmd var í Saltvík.
Skógrækt að hætti Yggdrasils og Skógarkolefnis er vafasöm loftslagsaðgerð þó ekki væri fyrir annað en að engin trygging er fyrir því að endurskinsbreytingar vegi ekki upp mikið af kolefnisbindingunni og að kolefnið losni ekki út í andrúmsloftið aftur að verkefnistímanum liðnum. Að verkefnin valdi þar að auki töluverðri losun kolefnis í upphafi verkefnistímans bætir ekki úr skák. Í bresku fyrirmynd Skógarkolefnis er losun kolefnis vegna jarðvinnslu tekin alvarlega og áætluð losun dregin frá þegar heildarloftslagsáhrif verkefnanna eru metin.