Vinir
íslenskrar náttúru

Mynd: Sigurður H. Magnússon

VÍN leggur áherslu á að koma í veg fyrir skaðleg áhrif framandi og ágengra tegunda í íslenskri náttúru. Skráðu þig til að fylgjast með starfinu og taka virkan þátt í því ef þú vilt. Engin félagsgjöld eru innheimt.

Registration form

Persónuverndarstefna VÍN

29. ágúst 2024 | Sveinn Runólfsson

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

„Þeir sem standa fyrir og bera ábyrgð á þessum hernaði gegn náttúru landsins með óheftri skógrækt til kolefnisbindingar verða að svara hvers vegna þeir stunda þessa harkalegu jarðvinnslu. Þeim ætti að vera ljóst að þegar tegundaríku landi með kolefnisríkum jarðvegi er rústað og engar raunverulegar mælingar gerðar á kolefnisbúskap eða úttekt á líffræðilegri fjölbreytni munu skógræktarverkefnin ekki uppfylla þær gæðakröfur sem krafist er til vottunar. Án vottunar verða engar söluhæfar kolefniseiningar framleiddar og landeigandinn fær ekki tekjur af verkefninu.“

25. ágúst 2024 | Sigfús Bjarnason

Kolefnislosun vegna jarðvinnslu í verkefnum Skógarkolefnis

„Í hvert sinn sem kolefnislosun vegna jarðvinnslu skógræktarverkefna kemur til umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum stígur einhver talsmaður Skógarkolefnis fram og segir að losunin sé svo lítil að það þurfi ekki að reikna með henni við útreikninga á loftslagsávinningi verkefnanna. Þetta sýni íslenskar rannsóknir!“

Fróðlegt í miðlum

Vísir 28. september 2024

Græn vindorka

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir: „Með hugtakinu græn orka hljótum við að eiga við, ekki eingöngu að orka sé endurnýjanleg, heldur hljótum við að eiga við það sem kallað er sjálfbær orka. Hugtakið sjálfbær orka felur ekki einvörðungu í sér að orkan komi úr endurnýjanlegum auðlindum, heldur jafnframt að hún sé nýtt hóflega og án verulegra neikvæðra áhrifa á umhverfi og samfélag.“

Heimildin 19. september 2024

Loftslagsaðgerðir verða að vernda líffræðilega fjölbreytni

„Al­mennt er af­ar óheppi­legt að byggja mark­að með kol­efnisein­ing­ar á bind­ingu kolt­ví­sýr­ings í vist­kerf­um“ skrifar Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands. 

Vísir 16. september 2024

Fjölbreytni í náttúru Íslands

Rannveig Magnúsdóttir, vistfræðingur hjá Landvernd og Biodice, og stjórnarmaður í VÍN, skrifar: „Líffræðileg fjölbreytni er forsenda heilbrigðra vistkerfa sem eru undirstaða lífkerfa jarðar. Ef mannkynið ætlar sér að búa áfram á jörðinni þarf það að semja frið við náttúruna og vinna markvisst að því að stöðva hrun og endurreisa náttúru. Einstök náttúra Íslands á undir högg að sækja úr öllum áttum en er sannarlega þess virði að bjarga og hlúa að.“ 

Umræða

19. október 2024 | Sigfús Bjarnason og Ólafur S. Andrésson

Kolefnisrækt, endurskinsbreytingar og hnattræn hlýnun

Orkubúskapur Jarðar er í jafnvægi þegar útgeislun orku frá Jörðinni er jafn mikil og inngeislun orku frá sólinni. Hnattræn hlýnun af mannavöldum frá upphafi iðnbyltingar stafar af þeim breytingum sem mannkynið hefur haft á útgeislunina. Mest áhrif höfum við haft á orkubúskapinn með því að auka styrk CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er þó ekki eini manngerði þátturinn sem hefur haft áhrif á orkubúskap Jarðarinnar síðustu tvær aldirnar. IPCC (The Intergovernmental Panel on Climate Change) metur að breytt landnýting, t.d. vegna skógareyðingar, hafi aukið endurskinshæfni (albedo) Jarðarinnar og þar með aukið útgeislunina og haft kælingaráhrif.

Það er enginn eðlismunur á því hvort orkujafnvæginu sé breytt með auknum styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eða með breytingum á endurskinshæfni … Lestu meira

Tröllin móta sjóndeildarhringinn. Mynd: Andrés Arnalds

Nýtt frá VÍN

Sjá bréfið hér.

Sveinn Runólfsson, formaður stjórnar VÍN, skrifar í Bændablaðið 29. ágúst 2024 (bls. 44).

,,Þeir sem standa fyrir og bera ábyrgð á þessum hernaði gegn náttúru landsins með óheftri skógrækt til kolefnisbindingar verða að svara hvers vegna þeir stunda þessa harkalegu jarðvinnslu. Þeim ætti að vera ljóst að þegar tegundaríku landi með kolefnisríkum jarðvegi er rústað og engar raunverulegar mælingar gerðar á kolefnisbúskap eða úttekt á líffræðilegri fjölbreytni munu skógræktarverkefnin ekki uppfylla þær gæðakröfur sem krafist er til vottunar. Án vottunar verða engar söluhæfar kolefniseiningar framleiddar og landeigandinn fær ekki tekjur af verkefninu.

Stjórn VÍN sendi bréf til Yggdrasils Carbon með eftirfarandi spurningum:

  • Skógræktarsvæðið við Saltvík í Norðurþingi er ríkt mólendi, hvað varðar plöntur og fuglalíf, á tiltölulega kolefnisríkum jarðvegi. Telur Yggdrasill Carbon það samrýmast verndun líffræðilegrar fjölbreytni að rækta skóg með framandi tegundum á slíku svæði?
  • Kannaði fyrirtækið möguleikann á að vinna frekar að kolefnisbindingu með endurheimt vistkerfa en með skógrækt með framandi tegundum barrtrjáa – og hvort hægt væri að vinna að vottun verkefnisins sem Gold Standard verkefni frekar en að nota staðla Skógarkolefnisverkefnis? Af hverju var síðari leiðin farin?
  • Er fyrirtækinu kunnugt um að skógræktarverkefni sem byggja á einræktun, með sömu trjátegund á sama aldri á stórum svæðum, muni ekki geta fallið undir vottunarramma ESB fyrir kolefnisbindingu?
  • Samkvæmt Skógarkolefni 2.0 skal í ræktunaráætlun rökstyðja hvernig stuðlað verður að myndun fjölbreyttra skógarvistkerfa og hvernig staðið verður að eftirliti með því. Telur fyrirtækið að ræktunaráætlun verkefnisins standist þessar kröfur?
  • Samkvæmt ofan nefndri greinargerð til sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að nota stafafuru, rússalerki og birki í hlutföllunum 60/30/10. Hafa áhrif verkefnisins á endurkast og ísog sólgeislunar verið metin og hvert jafngildi þeirra breytinga eru í kolefniseiningum?
  • Í umfjöllun Morgunblaðsins um verkefnið þann 15. júlí kemur fram að Yggdrasill Carbon muni gera grein fyrir þeirri losun sem fylgir jarðvinnslu í öllum gögnum um verkefnið og við vottun þess. Hvernig hyggst fyrirtækið mæla þessa losun? Ef slíkar mælingar eru hafnar, hverjar eru fyrstu niðurstöður þeirra?
  • Í þeim tveimur Skógarkolefnisverkefnum sem fyrirtækið hefur þegar fengið vottuð er því slegið fast fram að „Ræktun skógar á slíku landi auki kolefnisforða sem nemi vexti skógarins en ekki meira en það“. Samt sem áður er reiknað með umtalsverðri kolefnisbindingu í jarðvegi í þessum verkefnum, nánar tiltekið 1,3 tonn CO2 á hektara á ári í 45 ár. Verður áætluð heildarbinding í Saltvík reiknuð á sama hátt og hvernig ætlar fyrirtækið í framtíðinni að sannreyna að þessi binding hafi átt sér stað?

Sjá bréfið hér.

Selfossi 25. júlí 2024

,,Vísað er til fyrri umsagnar Vina íslenskrar náttúru, VÍN um ofangreint málefni.
Hér verður aðeins fjallað um lið 8. Endurheimt fjölbreytts gróðurfars í greinargerð tillögunnarum breytingu á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal.“

Sjá alla umsögnina hér.

Umsögn VÍN um Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 (virkjunarkostir í vindorku).

Umsögn VÍN umTillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

Selfossi 29. apríl 2024

,,VÍN leggst alfarið gegn allri skógrækt, með framandi og/eða innlendum tegundum, innan deiliskipulags Ólafsdals og eftir atvikum í öllum Ólafsdalnum. Að öðrum kosti muni landslag og búsetuminjar sem ætlunin er að vernda spillast verulega. Fella verður niður þann kafla sem lítur að deiliskipulagi svæðisins eða endurskoða hann. VÍN telur jafnframt að öll vernd innan svæðisins, sem snýr að náttúrufari, eigi að miða að því að endurheimta náttúruleg vistkerfi og búsetulandslag, t.d. með beit og/eða beitarfriðun, með vernd menningarlandslags tímabilsins 1880-1907 að leiðarljósi.“

Sjá alla umsögnina hér.

Selfossi 15. apríl 2024

,,Stjórn VÍN telur að Minjastofnun eigi ekki samleið með Náttúruverndarstofnun og því beri að draga frumvarpið til baka og vinna nýtt frumvarp um Náttúruverndarstofnun.“

Sjá alla umsögnina hér.
Allar umsagnir

Þann 20. mars ítrekaði VÍN beiðni til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (frá 1. júlí 2023) um upplýsingar frá ráðuneytinu um framkvæmd ákvæða náttúruverndarlaga um innflutning og dreifingu framandi lífvera.  

Í bréfinu hvetur VÍN ráðuneytið til að fara að vinna að raunverulegri vernd líffræðilegrar fjölbreytni í landinu í samræmi við lög um náttúruvernd og þá alþjóðasamninga um lífríkisvernd sem Ísland hefur undirgengist. Félagið ítrekar að ekki sé nægilegt að nota jákvæð hugtök án aðgerða í boðuðum áætlunum né að nota kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun til að réttlæta notkun ágengra tegunda í skógrækt.

Sjá bæði bréfin hér.

Ólafur Gestur Arnalds, prófessor og doktor í jarðvegsfræði og einn af stofnfélögum VÍN, hlaut viðurkenningu Hagþenkis 2023 fyrir bókina Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra.

Ólafur Arnalds

Í umsögn dómnefndar segir að ritið sé stórvirki á sviði náttúru- og umhverfisfræði, með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs, þar sem fjallað sé ítarlega um mikilvægi moldarinnar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni.

Í viðtali við Morgunblaðið 7. mars segir Ólafur „að bókin taki fyrir margvísleg vandamál sem steðja að vistkerfum jarðar og af hverju við lokum augunum fyrir þeim. En fyrst og fremst er þetta bók um íslenska mold“.

Stjórn VÍN sendir Ólafi hugheilar hamingjuóskir með þessa frábæru og verðskulduðu viðurkenningu fyrir bókina sem er „kannski að hluta til lífsstarf mitt, falið á síðunum“ eins og Ólafur kemst að orði í Morgunblaðinu.

Selfossi 19. febrúar 2024

Fyrir okkur öll sem unnum náttúru og gæðum landsins er það mikið fagnaðarefni að þessi drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu skuli nú vera komin aftur til kynningar í samráðsgátt, fimm árum frá eftir að lögin um landgræðslu voru samþykkt á Alþingi.

Allt frá því fyrst voru sett lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands árið 1907 hefur aldrei verið sett reglugerð um gildandi lög um landgræðslu.

Sjá alla umsögnina hér.
Allar umsagnir

Góðir fundarmenn – ég vil þakka Landvernd fyrir að halda þennan samráðsfund og gefa VÍN tækifæri til að kynna félagið.

Vinir íslenskrar náttúru er félag til almannaheilla og er ekki rekið í hagnaðarskyni. Engin félagsgjöld eru innheimt, en félagið aflar rekstrarfjár með umsóknum um styrki og með frjálsum framlögum frá m.a. einstaklingum og fyrirtækjum.

Félagið styður aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og þær sem auka kolefnisbindingu sem hafa ekki neikvæð áhrif á náttúru Íslands. Félagið stuðlar að því að komið sé á framfæri áreiðanlegum upplýsingum um kolefnisbindingu og kolefniseiningar og leggur áherslu á að notuð séu alþjóðleg vottunarkerfi með viðurkenndum kröfum og viðmiðum, sem jafnframt taka tillit til íslenskra aðstæðna.

Þrír öldungar, auk mín, Jón Gunnar Ottósson heitinn og Andrés Arnalds stofnuðu óformlegt öldungaráð sumarið 2021 til að freista þess að spyrna á móti stjarnfræðilegum áformum Skógræktarinnar í drögum að Landsáætlun í Skógrækt. Við hóuðum saman um 20 vísindamönnum sem voru sama sinnis og voru ekki sammála áformum Skógræktarinnar. Í kjölfarið mynduðum við bráðabirgðastjórn: Vina íslenskrar náttúru, það er VÍN.

Félagið var formlega stofnað í lok árs 2022. Stofnfélagar voru 41. Þá var komin skipulagsskrá fyrir félagið, búið að opna vefsíðu og félagið hafði þá þegar aflað nokkurra styrkja.

Stofnfélagarnir eru margir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn stofnana á sviði líffræði, náttúruverndar og náttúrunýtingar, frá Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landgræðslunni og öllum náttúrustofunum á landsbyggðinni. Þá eru í félaginu starfsmenn sveitarfélaga og úr mörgum frjálsum félagasamtökum, bændur og fleira fólk úr landbúnaðargeiranum. Við bendum á að þótt félagar séu úr mörgum áttum þá er hér samankominn hópur sérfræðinga með víðtæka þekkingu og langa reynslu af vinnu og rannsóknum á íslenskri náttúru. Öll höfum við haft áhyggjur af þróun skógræktarmála um alllangan tíma en nokkur korn fylltu mælinn, einkum herferð fyrir kolefnisbindingu og ný landsáætlun í skógrækt og landgræðslu.

Tilgangur félagsins er að fjalla um náttúruverndarmál líðandi stundar með áherslu á skaðleg áhrif ágengra og framandi tegunda í íslenskri náttúru og móta tillögur til úrbóta. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að halda fundi, skipuleggja aðgerðir til verndar náttúrunni, miðla upplýsingum í fjölmiðlum og á veraldarvefnum um neikvæð áhrif framandi tegunda á lífríki og ásýnd landsins. Veittar eru umsagnir, eftir atvikum um áætlanir, m.a. um frumvörp til laga og reglugerða stjórnvalda.

Nú eru 100 félagar í VÍN.

Það sem einkum sameinar okkur eru hugmyndir um framkvæmd skógræktar í landinu. Við teljum að skógræktaráætlun sé nú þegar og muni að óbreyttu verða raunveruleg ógn við verndun líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Að okkar mati stangast stefna Skógræktarmanna gróflega á við skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir í alþjóðlegum samningum.

Hér eru t.d. notaðar trjátegundir sem hafa reynst ágengar í öðrum löndum og víða er hætt að nota, jafnvel komnar á bannlista. Við teljum að stefnan sé á skjön við almennt viðtekinn skilning og ályktanir í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Þá teljum við að áform um nytjaskógrækt á láglendi séu svo umfangsmikil að þau muni illa samrýmast öðrum hagsmunum, svo sem verndun vistkerfa og tegunda en einnig öðrum landbúnaðarnytjum en skógrækt. Loks teljum við sumt í útreikningum Skógræktarinnar á kolefnisbindingu með skógrækt vera byggt á afar veikum grunni.

Starfið á síðastliðnu ári

  • Þá voru haldnir 6 félagsfundir og 5 stjórnarfundir auk fjölda vinnufunda með stjórnarmönnum og fleirum.
  • Greinar félagsmanna í fjölmiðlum voru 17.
  • Umsagnir ályktanir og formleg bréf á árinu 2023 voru 14.
  • Stjórn VÍN er í bréfasamskiptum við ýmis félög og einstaklinga bæði innanlands og utan um baráttumál okkar. Þar má nefna; Landsamband sumarhúsaeigenda, Vísindafólk á Nýja Sjálandi vegna baráttu þeirra við ágengar framandi tegundir. Í samstarfi við Landvernd héldum við fjarfund með þeim í júní. Samtal og fundir með fulltrúum Rangárþings ytra og viðræður við sveitarstjóra Dalasýslu og sveitarstjórn Grafnings- og Grímsneshreppa. Samskipti við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar, Ólafsdalsfélagið, stjórn Verndarfélags Svartár, svo dæmi séu tekin.

Allnokkrir styrkir hafa borist félaginu það er frá umhverfis,-orku og loftslagsráðuneytinu, sjóðum og einstaklingum, þannig að fjárhagur félagsins stendur styrkum fótum.

Framtíðarsýn

Góðir fundarmenn – hafið í huga að það er aðeins virk náttúruvernd á um 20% af flatarmáli landsins, það er á friðlýstum svæðum. Verkefnin eru því mörg og mikilvæg, þar sem engin raunveruleg náttúruvernd er á um 80% af flatarmáli landsins.

Samfara fjölgun félagsmanna komu fleiri ábendingar um að takast á við fleiri verkefni á sviði náttúruverndar.

En stjórn VÍN telur brýnast að einbeita starfskröfum að fáum verkefnum – en sinna þeim – þeim mun betur. Knýjandi verkefni er að veita almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum sem áreiðanlegastar upplýsingar um stöðu vottunarmála um bindingu kolefnis með skógrækt. Efnahagsbandalagið og Norðurlöndin eru í sívaxandi mæli að stemma stigu við grænþvotti fyrirtækja með kaupum á kolefniseiningum, sem ekki hafa fengið raunhæfa vottun til þess bærra aðila. Hér á landi endurspeglast þessi staða í risaáformum um stórtæka framleiðslu á meintum framandi ágengum trjátegundum -undir merkjum kolefnisbindingar.

Enn fremur hvetur stjórnin stjórnvöld og sveitarfélög til að huga að öðrum náttúrumiðuðum lausnum en skógrækt, og á síðasta ári skrifuðum við öllum sveitarfélögum landsins þar að lútandi. Þar er efst á blaði endurheimt votlendis en einnig endurheimt annarra illa farinna vistkerfa vegna ósjálfbærrar nýtingar lands. Æskilegt er að huga að efnahagslegum hvötum fyrir þannig lausnir til dæmis með gjörbreyttu styrkjakerfi landbúnaðarins.

Leitast verður við að fjölga félögum í VÍN og hvetja sem flesta til dáða með greinaskrifum og virkri þátttöku. Við viljum auka samstarf við önnur náttúruverndarfélög. Þannig verður auðveldara að takast á við fleiri mikilvæg náttúruverndarmál svo sem að auka kolefnisbindingu með endurheimt votlendis og stuðla að bættri landnýtingu. Til þessa höfum við sem stendur í VÍN, einfaldlega ekki haft mannafla til að takast á við fjölda annarra brýnna náttúruverndarverkefna sem snúa að áhrifum framandi ágengra tegunda á landi og í sjó og eða að berjast gegn vindorkuverum vítt og breitt um landið.

Takk fyrir

Stafafura í birkiskógi. Mynd: Sigurður H. Magnússon