
Takmörkun á grisjun hámarkar kolefnisbindingu. Kolefnisskógrækt, nytjaskógrækt og skógrækt til útivistar fara ekki vel saman. Mynd: Sigurður H. Magnússon
6. mars 2025 | Ólafur S. Andrésson og Sigfús Bjarnason
Kolefnisskógrækt – bjargræði eða bölvun?
Með tilvísunum og heimildum
Þessi grein birtist upprunalega í Bændablaðinu 6. mars 2025 og er hér endurbirt, með tilvísunum og heimildum, með góðfúslegu leyfi Bændablaðsins. Sjá einnig ítarefni í vefsjá Vina íslenskra náttúru.
Kannanir sýna að flestir landsmenn eru hlynntir skógrækt á Íslandi eins og hún hefur verið stunduð hingað til (1). Skógrækt skapar skjól og útivistarsvæði og getur framleitt nytjavið. Skógrækt síðustu ára þar sem aðalmarkmiðið er að binda kolefni og framleiða kolefniseiningar á hins vegar ekki mikið skylt við hefðbundna skógrækt (2). Slík plantekruskógrækt getur haft verulega neikvæð áhrif á náttúruna og ásýnd landsins og vafasamt er hvort hún skili miklum árangri í baráttunni gegn hlýnun Jarðar (3,4).
Skógrækt og hlýnun Jarðar
Skógrækt hefur einkum áhrif á hitafar á tvennan hátt. Skógur bindur koltvísýring (CO2) og breytt yfirborð landsins hefur áhrif á endurkast sólarljóssins sem á það skín. Mikil áhersla hefur verið lögð á hið fyrra, en breytingar á endurkasti vega líka þungt (5, 6). Aðrir þættir svo sem aukning á uppgufun og skýjamyndun vega mun minna (7). Loftslagslíkön sem þróuð hafa verið um áhrif gróðurhúsalofttegunda og endurkasts sólarljóss á hitafar Jarðar eru orðin býsna nákvæm (8, 9). Tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu veldur um 3 °C hækkun á hitastigi og hið sama á við ef endurkast lækkar um 3,7 W/m2. Binding á CO2 hjálpar þannig til að lækka hitastig en minna endurskin leiðir til hækkunar. Þegar loftslagsáhrif skógræktar eru metin þarf því að skoða hvort breyting verður á endurkasti sólgeislunar á viðkomandi svæði (10). Móar og graslendi eru sem mósaík margra og oft ljósra lita sem endurkasta sólarljósinu en ef sígrænn barrskógur er ræktaður á slíku landi dökknar yfirborð þess og endurkast minnkar sem getur vegið upp stóran hluta kælingarárhrifa kolefnisbindingarinnar (11, 12, 13).

Hlýnunaráhrif kolefnisskógræktar á hektara geta verið frá því að jafngilda undir 180 tonna CO2 losun (gult) til yfir 260 tonna CO2 losun (rautt) og allt þar á milli (rauðgult). Heimildir: Veðurstofan (snjóþekjugögn) (14) og Bright R.M. et al. (reiknilíkan) (15). Sjá kortið á Vefsjá VÍN
Hversu mikið CO2 bindur skógrækt?
Samkvæmt loftslagsbókhaldi Íslands bindur skóglendi á Íslandi nú rúmlega 0,5 milljónir tonna af CO2 árlega og þekur um 150 þúsund hektara (16). Það gerir nærri 4 tonn á hektara á ári sem er mun minna en almennt er gert ráð fyrir í útreikningum á bindingu í kolefnisskógrækt (17, 18). Einnig er gert ráð fyrir að kolefni í jarðvegi aukist um jafngildi 58-85 tonna CO2á 50 árum (17). Það er vafasamt, því að mörg dæmi eru um að jarðvegskolefni minnki við skógrækt, sérstaklega þar sem jarðvegur er kolefnisríkur (19, 20). Breytingar á kolefnisforða jarðvegs eru ekki mældar í þessum verkefnum og því er ógerlegt að staðhæfa að þetta gerist. Losun CO2 úr jarðvegi er töluverð fyrstu árin eftir jarðvinnslu (21, 22) og vöxtur trjánna lítill þannig að ný verkefni leggja ekkert til þess að ná loftslagsmarkmiðum Íslands fyrstu áratugina.
Er kolefnisbinding í skógi varanleg?
Tré eru ekki eilíf, en villtir skógar endurnýja sig og þannig helst bundið kolefni á svæðinu til langs tíma. Laufskógar á norðurhveli ná jafnvel að auka sífellt kolefni í jarðvegi, eins og sýnt er í nýlegri grein Sólveigar Sanchez o.fl. um íslenska birkiskóga (23). Ef skógar eru ræktaðir til timburnytja þarf að meta hve mikið kolefni er á svæðinu til langframa. Gera má ráð fyrir að 90% af trjáviðnum sem fjarlægður er af svæðinu skili sér fljótlega aftur sem CO2 í andrúmsloftinu (24, 25).
Skilar kolefnisskógrækt nokkrum árangri?
Þegar tekið er tillit til ofannefndra þátta – breytinga á endurskini, ofmati á jarðvegsbindingu og eðlileg viðmið – er ljóst að kolefnisskógrækt getur, allt eftir aðstæðum, haft neikvæð loftslagsáhrif (26). Slík verkefni eru gjörsamlega tilgangslaus hvað varðar áhrif á loftslagið og munu ekki gefa eigendum sínum þann peningalega arð sem þeir vænta (27).
Vottun kolefnisbindingar er forsenda þess að hægt sé að selja kolefniseiningarnar á kolefnismarkaði og til þess að kaupandinn geti nýtt sér einingarnar sem mótvægi við eigin kolefnislosun (28, 29). Til að hægt sé að votta verkefni verða þau að fylgja einhverjum staðli eða kröfusetti. Flest íslensk verkefni nota kröfusettið Skógarkolefni sem er í umsjá Lands og skógar (30). En vottun er lítils virði ef kröfusettið er gallað og lítur ekki á heildarmyndina (31, 32). Auk þess njóta þau fyrirtæki sem nú sjá um vottanirnar ekki almennrar viðurkenningar á alþjóðavettvangi þar sem verið er að herða kröfur um vottun. Því má fljótlega búast við örðugleikum í sölu á kolefniseiningum úr íslenskum skógum.
Kolefnisskógrækt og umhverfið
Vanda þarf til verka þegar land er valið til kolefnisskógræktar (33, 34, 35). Það getur verið allt frá gróðurlitlu og illa förnu landi með litlu fuglalífi til kolefnisríkra og tegundaauðugra vistgerða með ríku fuglalífi eða gamalgróins ræktarlands sem hentar vel til fæðuframleiðslu (36, 37). Þétt plantekrurækt skógartrjáa veldur miklum breytingum á lífríki og vistkerfum (38) sem fólk metur mikils svo sem á berjalöndum og kjörlendi fuglastofna (39). Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á mörgum stofnum fugla sem huga verður að þegar land er lagt undir kolefnisskógrækt (40, 41).
Við mat á áhrifum kolefnisskógræktar er mikilvægt að bera framkvæmdina saman við aðra kosti og hvað gerist ef ekkert er aðhafst. Samanburðarkosturinn gæti skilað svipaðri kolefnisbindingu þegar til langs tíma er litið (20). Skylt er að framkvæma umhverfismat fyrir skógrækt sem nemur 200 hektörum eða meir (41) en strax eru komin dæmi um aðliggjandi skógræktarsvæði sem eru yfir 400 hektarar en hafa ekki farið í umhverfismat (42). Fyrirhuguð skógrækt á viðkvæmum svæðum er einnig tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar og sveitarstjórnar (43), en það er framkvæmdaaðila í sjálfsvald sett hvað hann metur tilkynningarskylt. Það þarf að koma á miklu betri og öflugri umgjörð til að tryggja gæði kolefnisskógræktar.
Skógrækt eða endurheimt votlendis?
Þegar bleytt er í framræstu landi dregur það strax úr losun CO2 en binding í trjám verður ekki veruleg fyrr en áratugum eftir plöntun. Endurheimt á helmingi framræsts votlendis gæti dregið úr CO2 losun um nærri 3,6 miljónir tonna á ári (44, 45). Þegar kolefnislosun úr jarðvegi, breytingar á endurskini og eðlileg viðmið eru tekin með í mat á loftslagsáhrifum, dugir varla að leggja allt gróðurlendi Íslands undir ræktun sígrænna skóga (46) til að ná fram sömu áhrifum og hægt er að ná með endurheimt votlendis!
Ólafur S. Andrésson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands.
Sigfús Bjarnason, fyrrverandi deildarstjóri við Umhverfisstofnun Evrópu.
Tilvísanir og heimildir
- Skógrækt – könnun 2021. https://island.is/frett/islendingar-afram-hlynntir-skograekt-og-telja-mikilvaegt-ad-binda-kolefni-i-skogum.
- Kolefnisrækt á villigötum. https://natturuvinir.is/greinar/kolefnisskograekt-a-villigotum/
- Kolefnisskógrækt og hnattræn hlýnun. https://natturuvinir.is/greinar/kolefnisskograekt-endurskinsbreytingar-og-hnattraen-hlynun/
- Grænþvottur með kolefnisjöfnun. https://natturuvinir.is/greinar/graenthvottur-med-kolefnisjofnun/
- Viðhorfsbreytingar í skógrækt. https://natturuvinir.is/greinar/vidhorfsbreytingar-i-skograekt/
- Loftslagsáhrif skógræktar. https://natturuvinir.is/greinar/loftslagsahrif-skograektar-eru-margthaett/
- Skógrækt og ský. https://www.nature.com/articles/s41467-021-24551-5?fromPaywallRec=false
- Endurskin og hitafar – líkan. https://acp.copernicus.org/articles/21/9887/2021/
- Líkan með endurskini, CO2 ígildum og tíma. https://esajournals.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1890/15-1597.1
- Endurskinsbreytingar vega gegn kolefnisbindingu. https://www.science.org/doi/10.1126/science.adg6196
- Skógrækt og breytingar á endurskini. https://www.nature.com/articles/s41467-024-46577-1#Sec2
- Reiknilíkan og forsendur. https://vefsja.natturuvinir.is/docs/reiknilikan
- Hlýnunarárhif endurskinsbreytinga við kolefnisskógrækt. https://vefsja.natturuvinir.is/
- Snjóþekjugögn. https://vefsja.natturuvinir.is/docs/grunngogn
- Endurskinsbreytingar – reiknilíkan. https://esajournals.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1890/15-1597.1
- Losunarbókhald Íslands NID 2024. https://ust.is/library/sida/Loft/NID%202024_submitted%20to%20EU_30APR_corrected.pdf
- Skógarkolefnisreiknir. https://reiknivel.skogur.is/
- Kolefnisbinding skóga á norðurslóðum. https://natturuvinir.is/greinar/skograekt-og-kolefnisbinding-i-nordur-svithjod-nordur-finnlandi-og-a-islandi/
- Skógrækt á lífrænum jarðvegi. https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/gcb.15229
- Ný viðhorf í skógrækt á norðurslóðum. https://natturuvinir.is/greinar/ny-vidhorf-i-skograekt-a-nordurslodum/
- Kolefnislosun vegna jarðvinnslu. https://natturuvinir.is/greinar/kolefnislosun-vegna-jardvinnslu/
- Kolefnislosun vegna jarðvinnslu – samanburður. https://natturuvinir.is/greinar/samanburdur-a-skogarkolefni-og-uk-woodland-carbon-code-kolefnislosun-vegna-jardvinnslu/
- Jarðvegskolefni í birkiskógum. https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0048969724082214
- Áskorun vegna skógræktarstefnu ESB. https://folding.bmc.uu.se/wp-content/uploads/2023/01/scientist-letter-to-EU-2023-01-23.pdf
- Viðarnýting í Svíþjóð. 90% fljótt aftur í andrúmsloft. https://www.irena.org/publications/2019/Mar/Bioenergy-from-boreal-forests-Swedish-approach-to-sustainable-wood-use
- Skógrækt á norðurslóðum. https://www.researchgate.net/publication/385625261_Tree_planting_is_no_climate_solution_at_northern_high_latitudes#fullTextFileContent
- Kolefnisjöfnun og grænþvottur. https://natturuvinir.is/greinar/kolefnisraekt-kolefnisjofnun-graenthvottur/
- Traust á vottuðum kolefniseiningum. https://www.forbes.com/sites/juergeneckhardt/2024/01/25/verified-carbon-removals-could-restore-trust-in-carbon-credits/
- Grænþvottur með kolefnisjöfnun. https://natturuvinir.is/greinar/graenthvottur-med-kolefnisjofnun/
- Skógarkolefni 2.0. https://www.skogarkolefni.is/is/moya/news/skogarkolefni-a-pdf
- Ótraustar vottanir. https://www.theguardian.com/environment/2023/jan/18/revealed-forest-carbon-offsets-biggest-provider-worthless-verra-aoe?utm_source=chatgpt.com
- Ábyrg kolefnisbinding. https://natturuvinir.is/greinar/abyrg-kolefnisbinding-forsendur-og-vottun/
- Samræming kolefnisbindingar og náttúruverndar. https://natturuvinir.is/greinar/ad-samraema-kolefnisbindingu-og-adra-natturuvernd-2/
- Skógrækt án fyrirhyggju. https://natturuvinir.is/greinar/skograekt-an-fyrirhyggju/
- Skógrækt: Hernaður gegn náttúrunni. https://natturuvinir.is/greinar/hernadur-skograektarinnar-gegn-natturu-islands/
- Rétt tré á réttum stað. https://natturuvinir.is/greinar/rett-tre-a-rettum-stad/
- Skógrækt í viðkvæmri náttúru landsins. https://natturuvinir.is/greinar/skograekt-i-vidkvaemri-natturu-islands/
- Barrskógar og sýrustig jarðvegs. https://natturuvinir.is/greinar/laekkar-syrustig-jardvegs-a-islandi-vid-raektun-barrskoga/
- Ógn við fjölbreytni. https://natturuvinir.is/greinar/ogna-adgerdir-gegn-loftslagsbreytingum-liffraedilegri-fjolbreytni-landsins/
- Bernarsamningur. https://www.ni.is/is/frettir/2019/09/bernarsamningurinn-4
Bonnsamningur. https://www.cms.int
Samningur Sþ um líffræðilega fjölbreytni. https://ust.is/nattura/liffraedilegur-fjolbreytileiki/nattura-nordursins/samningur-sth/ - Lög um umhverfismat. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021111.html
- Álfaskógar. https://kgp.is/gardabaer/okkur-finnst-gott-ad-geta-haft-jakvaed-ahrif-a-umhverfid-okkar-i-framtidinni/
- Reglugerð um framkvæmdaleyfi. https://island.is/reglugerdir/nr/0772-2012
- Endurheimt votlendis. Aðgerðaáætlun. https://irp-cdn.multiscreensite.com/1ef1ba4e/files/uploaded/sk160307_endurheimt_votlendis.pdf
- Loftslag, kolefni og mold. https://lbhi.is/images/pdf/utgefid%20efni/fjolrit%20rannsoknastofnunar%20landbunadarins/rit_lbhi_nr_133_ok.pdf
- Svæði fyrir nýja skóga. https://natturuvinir.is/greinar/skograekt-a-islandi-hversu-stor-svaedi-eru-tiltaek-fyrir-nyja-skoga/